Lesa meiraKvíði, krabbamein og kórónuveira "/> Skip to content

Kvíði, krabbamein og kórónuveira

Þegar ég fór að hugsa um titil á þennan pistil rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds. Skammstöfunin væri KKK sem er sennilega ein versta skammstöfun sögunnar enda á hún sér uppruna í mikilli grimmd og mannvonsku eins og við flest vitum. Engu að síður hefur þetta ár einkennst af þremur káum í mínu lífi, Kórónuveiru, krabbameini og kvíða. Kvíðinn eða áráttu og þráhyggjuröskunin OCD hefur reyndar verið á nokkru undanhaldi á árinu 2020 sem verður sennilega seint titlað herrans ár í mannkynssögu framtíðarinnar. Og þess vegna er svo skrýtið að viðurkenna að ég hef aldrei í raun verið eins lítið kvíðin og á þessu ári, sem hlýtur að teljast mikið rannsóknarefni út af fyrir sig. Ástvinir mínir sem þekkja mig frá því að ég leit heiminn fyrst hafa haft á orði að þau hafi í rauninni aldrei séð mig í eins góðu jafnvægi og á árinu 2020. Það er ekki bara stórfurðulegt, heldur næstum því sprenghlægilegt. Á einu og sama ári geysar heimsfaraldur sem í megindráttum minnir einna helst á vísindaskáldsögu og spennutrylli en er auðvitað síðan ekkert annað en blákaldur raunveruleiki sem við þurfum að horfast í augu við og breytt hefur heimsmynd og daglegu lífi okkar allra. Síðan greinist ég með krabbamein og fer í gegnum krabbameinsmeðferð svona rétt á meðan við fengum ofurlítið andrými frá veirunni í einar sex vikur fyrri part sumars, um leið og meðferðin mín var búin, hófust aftur upplýsingafundir almannavarna og Helgi Björns birtist á skjánum. Ég náði einni viku í sumarfrí með flökurleika og brunarústir í farteskinu, dásamlegri viku reyndar þar sem gist var á hótelum við birtu íslenskra sumarnátta. Örugglega ein dýrmætasta sumarfrísvika sem ég hef á ævinni upplifað.

En af hverju er ég að rekja þetta persónulega ferðalag í pistli sem ritaður er í tilefni af alþjóðlega forvarnardeginum gegn sjálfsvígum? Jú vegna þess að sú reynsla sem ég lýsi hér verandi með geðkvilla í farteskinu frá barnsaldri sem mótað hefur líf mitt meira en kannski nokkuð eða nokkur annar, varpar ágætu ljósi á það hvað geðrænn vandi og geðsjúkdómar eru flóknir og í raun miklu flóknari en til dæmis krabbamein að því leyti að krabbamein er bara það sem það er um leið og það er fundið. Þess vegna er félagslega einfaldara að lifa með krabbameini en kvíðaröskun þó að auðvitað sé krabbamein mikil og skelfileg lífsógn. Ekki misskilja mig, það er ógeðslega erfitt að fá fréttir um að maður sé með illkynja mein í líkamanum, til að byrja með verður maður vitstola af hræðslu, en hvað varðar þá félagslegu stöðu að vera með krabbamein versus kvíðaröskun, þá er einfaldara að vera með krabbamein. Ég hef aldrei verið eins lítið einmana eins og eftir að ég greindist með krabbamein, aldrei verið eins umvafin umhyggju og eftirgrennslan allskonar fólks sem ég bæði þekki og þekki ekki, hef aldrei fengið eins mikla þjónustu frá heilbrigðiskerfinu og aldrei fundið mig eins örugga í nokkurri baráttu lífs míns. Samt mun ég alltaf lifa við þá vitneskju að meinið geti tekið sig upp aftur, að minnsta kosti næstu fimm árin.

Að lifa með geðkvilla er einsemdarlíf. Kannski verður það alltaf einsemdarlíf, alveg sama hver framþróunin verður í samfélaginu. Kannski er einsemdin kjarnaeðli geðraskana og ekkert sem getur að fullu breytt því. En þó eru enn margir hlutir sem við getum breytt til að létta líf þeirra sem lifa með og við geðsjúkdóma. Fordómar hafa minnkað mikið á undanförnum árum. Veistu hvað ég held að vegi þar þyngst? Veit að þú trúir því ekki og heldur eflaust að ég sé kolklikkuð ( sem ég oftast er), en ég held að það séu samfélagsmiðlar og farvegurinn sem þeir hafa skapað fólki til að tjá sig og sýna samstöðu. Samfélagsmiðlar eru nefnilega í senn gull og grjót. Þeir hafa rofið nánd í ýmsum og ýmiskonar tengslum eins og dæmin sanna en svo hafa þeir líka orðið farvegur nándar í sammannlegum veruleika, líkt og geðröskunum. Þess vegna held ég að samfélagslegir fordómar séu mun minni í dag en fyrir bara einum áratug.

Það sem ég hins vegar held að við getum betur gert er að jafna stöðu geð og líkamlegra sjúkdóma að því leyti að sá sem sækist eftir þjónustu og hjálp vegna andlegra þjáninga sé ekki burtskýrður út af sjúkrahúsinu með eina sobril í nesti og þriggja mánaða biðtíma eftir samtalsmeðferð. Vegna þess að biðtími í geðröskun getur og reynist allt eins dýrkeyptur og biðtími eftir krabbameinsmeðferð. Fólk deyr úr geðkvillum eins og krabbameini. Fleira ungt fólk deyr úr raunar úr sjálfsvígum en krabbameini. Allir sjúkdómar eru lífshættulegir í raun, allir líkamlegir og andlegir sjúkdómar. Á einn eða annan hátt er hægt að deyja úr flensu, kvíða, krabbameini, gigt, sykursýki, þunglyndi, kransæðastíflu, hálsbólgu, geðhvörfum og svo framvegis. Jafnrétti sjúkdóma er kannski það sem er mér efst í huga í tengslum við hinn árlega forvarnardag gegn sjálfsvígum 10.september árið 2020. En munum, það er enginn einn sem ber ábyrgð, við erum samábyrg í því að velta við þeim steini. Amen.

Published inHugleiðingar