Lesa meiraPensilín fyrir hjónabandið "/> Skip to content

Pensilín fyrir hjónabandið

Ég fæ stundum mentorpósta frá skólanum sem drengirnir mínir sækja þar sem farið er yfir  framgöngu þeirra og framkomu við samnemendur og kennara. Oftast eru þetta frekar jákvæðar fréttir en þó ekki alltaf, bara eins og gengur og gerist í mannheimum. Nema hvað, fyrir nokkrum vikum bárust mér þau tíðindi í gegnum mentor að eldri sonur minn sem er daglega í einhvers konar hormónarússi væri sí og æ að reka í górilluöskur í matsalnum svo mönnum brygði við. Fyrst þegar ég las þetta hugsaði ég með mér að þetta væri náttúrlega alvarlegt mál, það er vitað að ef fólki bregður mjög mikið meðan það er að matast þá er hættara við að það gleypi loft sem skilar sér aftur í stöðugum vindgangi þegar líða tekur á daginn.  Mér finnst vont að vita til þess að 13 ára sonur minn beri  ábyrgð á slíkum ófögnuði, ekki síst inn á heimilum sóknarbarna minna, í verstu tilvikum gæti þetta leitt til hjónaerja og þá myndu hjónin kannski leita til mín um ráðgjöf og þá værum við sonur minn komin í ólöglegt samráð sem gæti hæglega endað framan á forsíðu blaðanna.

Þegar ég bar  górilluöskrið upp á son minn að kvöldi hins örlagaríka dags leið mér svolítið eins og ég væri að lesa Biblíutexta á forngrísku. Drengurinn var ekkert að tengja enda eins víst að górilluöskrin hafi átt sér stað í einhvers konar hormónaþoku þar sem hægt er að færa sönnur á að menn séu ekki alveg með sjálfum sér. Í framhaldi af þessu hef ég látið mér detta í hug skaffa skólunum svona hormónamæla þannig að drengjum 13 ára og eldri verðir gert að blása við útidyrnar á morgnana og öll hormón yfir 1.2 prómill varði sviptingu frímínútna. Þannig væri kannski hægt að koma í veg fyrir górilluöskrin……..já eða ekki.

Það er nefnilega vitað mál að til þess að hjálpa börnum að breyta hegðun þá er mjög mikilvægt að ávarpa hana í núinu. Hegðunin þarf að vera í fullri virkni þegar talað er til hennar, þá eru nefnilega meiri líkur á að barnið átti sig á neikvæðum afleiðingum gjörða sinna. Þetta er nokkuð sem ég hef vitað lengi en um daginn setti ég þessa vitneskju í nýtt samhengi. Ég var að ræða við sálfræðinginn minn um hve erfitt það væri oft að ræða neikvæða hegðun fullorðinna án þess að því væri tekið sem árás eða a.m.k leiðinlegu tuði. Þá benti hann mér á að þetta væri bara eins með börnin og okkur, við þyrftum að ávarpa tilfinningar í núinu. Og þegar ég fór að hugsa um það þá er þetta svo rétt. Svo nú líður mér svolítið eins og ég sé Lykla- Hildur, að ég standi í dyrum hjónaríkis þar sem hamingjan er eilíf og dagur og nótt renna saman í eitt. Sem er kannski svolítið ýkt.

Að ávarpa tilfinningar í núinu jafnast hins vegar á við sterkan pensílínkúr, segjum við svæsinni strepptókokkasýkingu. Það kemur kannski ekki í veg fyrir að strepptókokkarnir taki sig upp aftur en það læknar alltént þá sem fyrir eru og þannig eigum við líka að lifa, við eigum að takast á við vandann sem upp kemur í hverju sinni í stað þess að kvíða því ókomna, það er meiri tímasóun en að horfa á stillimyndina í sjónvarpinu, meðan hún var og hét.

Að ávarpa tilfinningar í núinu er gríðarlega mikilvægt fyrir þroska og þróun hjónabandsins, ósætti eða óánægja sem er alltaf afgreidd með hálfkveðnum vísum eða þögn stoppar hjónabandið upp þannig að það endar sem hálfgerður safngripur. Það fylgir því hins vegar heilmikið erfiði að tala við tilfinningar annarra ekki síst maka síns. Ef við verðum svekkt yfir einhverju í fari og viðbrögðum maka okkur þá hættir okkur til að bera það upp þegar okkur hentar en ekki þegar makinn gæti hugsanlega kannast við sjálfan sig. Við segjum kannski þremur vikum eftir atvikið „ þú verður alltaf svo reiður þegar ég tala um fjármálin“?  „Ég“? hváir makinn „Ég verð ekkert reiður.“ Þá er hann kannski bara að horfa á Kiljuna og orðinn aftengdur þessari reiði sem blossar upp við fjármála umræðuna og skynjar ekki samhengið. Þetta er bara eins og með unglinginn og górilluöskrin. Næst þegar þið talið um fjármálin, kynlífið, barnauppeldið, tilbreytingaleysi eða hvað sem veldur togstreitu í sambandi ykkar þá skulu þið prófa að ávarpa í núinu „ Ég upplifi að þú sért mjög reið/ur núna“ eða “er þessi þögn að gera okkur gagn, eigum við ekki frekar að ræða þetta”?  Þetta er  miklu sanngjarnara og gagnlegra af því að þá er hægt að kortleggja ástandið hver svo sem niðurstaðan verður. Að ávarpa tilfinningar í núinu er heiðarlegri samskiptamáti og líklegri til að fæða af sér einhverjar breytingar  frá því sem veldur stöðugri gremju og togstreitu. Þetta er æfingaratriði, samskiptarækt, edrúmennska og kærleikur. Ég hvet ykkur til að prófa. (Hugleiðing úr paramessu)

Published inPistlar