Lesa meiraÞegar barnið hughreystir þig "/> Skip to content

Þegar barnið hughreystir þig

Á liðinni aðventu nutum við starfsfólk Akureyrarkirkju þeirra forréttinda að taka á móti fyrstu bekkingum grunnskóla bæjarins og leiða þau inn í jólaguðspjallið með þátttöku barnanna sjálfra. Prestar kirkjunnar, organisti og æskulýðsfulltrúi tóku að sér nokkur hlutverk, meðal annars sögumanns, Ágústusar keisara, Gabríels engils og gistihúsaeigandans en börnin sjálf léku engla, hirða, vitringa og Maríu og Jósep. Farin var ferð neðan úr kapellu og lengst upp á kórloft sem breytt var í himnaríki þar sem Gabríel erkiengill tók á móti okkur með undurfögrum söng. Í anddyri kirkjunnar sátu síðan fátæku fjárhirðarnir við eld úr kertalukt æskulýðsfulltrúans. Það lúrði líka leikfangaúlfur í horni eins og táknmynd fyrir Heródes konung, sumum fannst hann helst til of raunverulegur, það finnst okkur líka um öll stríðandi öfl í heiminum í dag. Gistihúsaeigandinn kom fram úr prédikunarstólnum og neitaði unga parinu frá Nasaret um gistingu en bauð fjárhús sín sem sárabót. Fjárhúsin voru inn við altarið og þar var Jesúbarnið lagt í jötu og allur hópurinn settist í kringum litlu fjölskylduna og söng að lokum Heims um ból helg eru jól. Það var akkúrat á því augnabliki sem undirrituð fékk kökk í hálsinn sem hún kyngdi hratt og örugglega eins og heftum Íslendingi sæmir. En þessi hugskotsmynd hér við altarið, öll börnin í kringum barnið, sem var vissulega ekki alvöru nýburi heldur dúkka í eigu ömmubarns míns, líður mér seint úr minni. Börn í englakór að segja „ verið óhrædd“ það eru sko máttug orð og enn máttugri úr munni barns.

Ákall barnsins um að heimurinn sýni hugrekki, láti ekki óttann stjórna för, farsæld og framtíð hefur sjaldan verið jafn hljómmikið og nú .

Á prestasamveru einni á aðventunni áttum við kollegar samtal um komandi helgihald og prédikanir út frá jólaguðspjallinu og eins og svo oft áður vorum við sammála um að á aðfangadagskvöldi jóla væri óþarfi að flytja söfnuðinum of þunga prédikun eða einhvers konar stemningsdragbít. Fólk væri jú komið saman í tilhlökkun og gleði, tilbúið að taka á móti jólunum, syngja gömlu sálmana og leyfa fortíðarþránni að umlykja hjarta sitt og huga. Koma sér í jólagírinn eins og sagt er.

Ég held meira að segja ég  hafi sjálf vakið máls á þessu á síðustu samveru okkar kirkjunnar þjóna. Á jóladegi væri þá frekar hægt að setja í lága drifið og klöngrast yfir skaflana, taka á þjóðfélagsmálum líðandi stundar.

En í kvöld snýst allt um barnið ekki satt? Um Jesúbarnið sem við erum að taka á móti eftir fæðingahríðar átakamikillar aðventu. Um barnið í sálinni okkar sem við höfum borið hingað til að hugga og uppörva með boðskap jólanna, boðskapinn um að vera ekki hrædd heldur hugdjörf.

En ef við erum nú komin hingað í þessum tilgangi sem er yndislegt þá er eiginlega algjörlega ómögulegt að ávarpa ekki það sem við öll vitum, sjáum og þjáumst yfir þessa dagana. Aðstæður barna fyrir botni Miðjarðarhafs. Á þessum jólum er ekki hægt að taka sveig framhjá börnunum þar, eins og presturinn og meðhjálparinn gerðu í sögunni um miskunnsama samverjann, þar sem útlendingurinn nam einn staðar og kom hinum þjáða til bjargar. Það væri eins og að hafa stóran bleikan fíl framan við jólatréð heima og skríða undir hann til að sækja gjafirnar.

Þegar ég var nemandi í Grenivíkurskóla um miðjan níunda áratug síðustu aldar þá hefði helgileikur sá sem hér fór fram á aðventunni verið heldur einsleitari en nú. Í Grenivíkurskóla æsku minnar var ekki einn einasti nemandi sem talaði erlent tungumál. Við vorum til þess að gera öll eins, meira að segja öll eins klædd, í Millet úlpur og gallabuxur, skálmarnar gyrtar ofaní hvíta sportsokka.  Öll afkomendur Jóns Arasonar í áttunda lið og helmingur skólans ýmist systkinabörn eða þremenningar.

Heimurinn er breyttur, Guði sé lof. Í jólaævintýri liðinnar aðventu mátti sjá bæði þeldökka sem hvíta vitringa hér í kirkjunni og fjárhirða og engla og hún María mey talaði bara alls ekki íslensku með norðlenskum hreim. Það gerði auðvitað guðspjallið töluvert meira sannfærandi og var auðvitað ástæða þess að maður varð klökkur í lokin þegar hópurinn safnaðist allur saman við jötuna hér upp við altarið. Altarið er nefnilega tákn Jesú í hverri kirkjubyggingu. En sumsé helgileikur íslenskra barna endurspeglar loks raunveruleika jólaguðspjallsins. Nú erum við ein þjóð af ólíkum uppruna svo jólaguðspjallið í leik barnanna er ekki lengur bara fyndið, krúttlegt og hátíðlegt heldur svo mikill sannleikur, svo mikill friðarboðskapur, svo mikill mannréttindasáttmáli.

Hin kristnu jól fjalla á allan hátt um verndun barnsins. Þegar talað er um hátíð barnanna er ekki nema að litlu leyti átt við að jólin eigi að snúast um það sem börnum þykir gaman. Að jólin séu hátíð barnanna hefur svo miklu dýpri merkingu. Það er sannleikurinn sem nær inn að kviku mannkyns, að Guð er barn og sérhvert barn er Guð í þessum heimi. Þess vegna kemur það svona ógnarsterkt við hjartað í manni þegar barnakór í litlum helgileik með börnum af ýmsum þjóðernum segir hátt og snjallt „ Verið óhrædd.“ Með því ákalli er barnið Guð  að segja við veröldina „ Verið góð“ „ekki skemma, ekki meiða, ekki kúga, ekki drepa“ af því að ákallið um að vera óhrædd er ekki ákallið um að vera aldrei hrædd við eitt né neitt, heldur ákallið um að gefa sig kærleikanum á vald. Guð kom í heiminn sem barn og hann ávarpar okkur alla daga í börnum hér og þar um veröldina og við vitum það, líka þegar við vitum það ekki. Það heitir að vera manneskja.

Að valda barni skaða er það versta af öllu vondu sem til er, þá skelfur bæði barnið og allur heimurinn með vegna þess að við vitum að barnið er á ábyrgð okkar allra. Barnið er svo heilagt að þegar lífi þess og velferð er ógnað þá skiptir engu máli hvers vegna það er stríð. Hið eina sem máli skiptir er að vernda barnið. Barnið er konungur heimsins.

Þegar barn segir við þig  „ekki vera hrædd“ þá missirðu varnirnar og tárin spretta fram því þú veist að ekkert er sannara. Þú veist líka að heimurinn getur verið grimmur og þú vilt ekki að barn finni til, þú vilt að sakleysið lifi og að einlægni, berskjöldun, fyrirvaraleysi og djúpstæð tilhlökkun og gleði, hinar barnslegu eigindir ráði för.

Guð kom í heiminn sem barn af ýmsum ástæðum, tvær standa þó upp úr. Annars vegar gerði hann þetta til að kenna okkur að mátturinn og dýrðin er fólgin í sakleysi, einlægni og berskjöldun og hins vegar til að gera okkur grein fyrir því að rétt eins og Guð er okkur öllum gefinn er hvert einasta barn á ábyrgð okkar allra og þetta tvennt helst alltaf  í hendur. Guð er barn og barnið er Guð.  Dýrð sé Guði, föður og syni, barni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.

Published inHugleiðingar