Lesa meiraEkki vera hrædd! "/> Skip to content

Ekki vera hrædd!

Þegar drengirnir mínir voru litlir varð ég allt í einu alveg undarlega flughrædd. Í þeim ótta dugðu staðreyndir um flugöryggi ósköp skammt. Áður en þeir  fæddust hafði þetta alls ekki hrjáð mig og nú þegar þeir eru orðnir stórir og nokkuð sjálfbjarga er ég ekkert lengur hrædd að fljúga. Ég er raunar orðin svo slök að mér tókst að sofna í flugtaki frá Bandaríkjunum í fyrra og vaknaði ekki fyrr en flugstjórinn bað okkur að festa sætisólar því aðeins tuttugu mínútur væru í lendingu í Keflavík. Sé þetta dæmi krufið er ljóst að flughræðsla mín á vissu tímabili tengdist alls ekki flugi sem slíku heldur óttanum við að deyja frá litlum börnum og sá ótti sló saman við stjórnleysi hins almenna flugfarþega sem hefur ekkert um framvindu flugsins að segja. Ótti er auðvitað mjög oft þessi tilfinning fyrir því að vera ekki við stjórn, því hvað er kvíði annað en óttinn við hið óþekkta eða óttinn við að geta ekki stjórnað öllum eða öllu í kringum sig.

Það er mjög mannlegt að verða hræddur og í vissum tilvikum alveg bráðnauðsynlegt. Fífldirfska er oft ekki hótinu betri en ótti. Vð þurfum að virða ákveðnar leikreglur til þess að fara okkur ekki að voða eða setja náunga okkar í hættu. Við þurfum að fylgja reglum um hámarkshraða í umferðinni ( ég biðst hér með forláts á því að hafa ekki alltaf verið til fyrirmyndar þar) við eigum að vera í björgunarvesti þegar við siglum opnum báti, við eigum ekki að leggja upp á heiðar þegar veðurstofan hefur varað við óveðri, við eigum að fylgja merktum gönguleiðum upp brattar hlíðar ef þær eru til staðar því væntanlega hafa þær verið lagðar af fólki sem þekkir leiðina betur en við. Við eigum ekki að fara nær eldgosi en almannavarnir segja til um og við eigum að vera með hjálm á skíðum, reiðhjóli, rafskutlum og á hestbaki. Það eru ákveðnar aðstæður í lífinu þar sem er mikilvægt að vera á vissan máta hræddur og fylgja viðteknum reglum sem hafa reynst mikilvægar í áranna rás. Í þeim ótta er elska því hann er rökréttur og varðar oftar en ekki umhyggju gagnvart öðru fólki.

Í hinum órökrétta ótta er hins vegar oft ekki mikil elska. Við tökumst öll á við þann ótta í einhverri mynd því ekkert okkar er fullkomið. Samanburðaróttinn er þar einna þekktastur en sá ótti hefur magnast töluvert með tilkomu tækninnar og möguleikanum á því að fylgjast með lífi allra, allan sólarhringinn ef menn vilja. Andsvar kristinnar trúar við samanburðaróttanum hljómar strax við skírn ósjálfbjarga barns þar sem Kristur lýsir því yfir að það sé einstakt og hafi alveg sérstöku hlutverki að gegna í veröldinni þrátt fyrir að vera alls ekki búið að sanna eitt né neitt um mannkosti sína og hæfileika. Kristur þekkir barnið með nafni, skráir það í lífsbókina og gleymir því aldrei en það sem meira er, hann tekur sénsinn á því ólíkt tíðaraandanum sem er frekar tortrygginn og leggur oft mesta áherslu á sýnilega verðleika. Í skírnarathöfninni eru viðstaddir beðnir um að minna barnið alltaf á það að Kristur hafi tekið það að sér í eitt skipti fyrir öll og muni aldrei snúa við því baki, jafnvel þótt barnið snúi einhvern tíma baki við honum. Þetta er svona fyrsta andsvar kristninnar við samanburðaróttanum.

Annar ótti sem inniber ekki mikla elsku er dauðaóttinn. Þá er alls ekki átt við þann rökrétta ótta sem kemur ef maður er með lífsógnandi og ólæknandi sjúkdóm og dauðinn þokast nær. Það er nefnilega rökrétt að vera hræddur við upphaf ferðar sem enginn getur frætt mann um og vegabréfið útgefið án þess að um það sé sótt. Nei sá dauðaótti sem ekki inniber elsku er óttinn við að missa völd og vera ekki dáður og dýrkaður, miðpunktur athyglinnar hvar sem maður kemur. Það er óttinn sem nokkrir þjóðarleiðtogar eru einmitt að glíma við þessa dagana. Það er óttinn sem hún Mariann Edgar Budde biskup í Washington ávarpaði við embættistöku Donald Trump á dögunum þegar hún bað hann um að sýna náunganum miskunn í landi þar sem hinsegin samfélagið og innflytjendur óttast mjög um afdrif sín. Þegar maður les guðspjall dagsins þá verður ekki hjá því komist að sjá biskupinn inn í þessari mynd, hún hastaði á vindinn og vatnið og einhvern veginn varð heimurinn betri og öruggari um stund. Kastljósinu var allt í einu beint að hinum lífgefandi kærleika sem afhjúpar óttann sem skín úr augum þess fólks sem heldur að það eigi völdin sem því eru fengin með stórum embættum. Það er óttinn við að vera ekki eilífur og ná ekki að stjórna alltaf öllu allstaðar. Í þeim ótta er ekki elska og  þar af leiðandi lítil miskunnsemi. Þess vegna er heillavænlegra að kjósa til valda fólk sem vill helst ekki athygli og ber meiri virðingu fyrir völdum en sjálfum dauðanum. Fólk sem lítur á embætti sem þjónustu og fórn fyrir samfélagið og hlakkar mikið til að láta síðan af störfum.

Kristin kirkja hefur alltaf haft mikilvægu hlutverki að gegna í veröldinni og ábyrgð hennar verið gríðarmikil allt frá því að Jesús kvaddi lærisveina sína með orðunum „ Ég er með ykkur alla daga, allt til enda veraldar.“ Þetta er kjarnasetning sem kirkjan þarf að koma betur inn í taugakerfi þess fólks sem hún þjónar, ekki síst í samtíma okkar sem er því miður ansi holur þegar kemur að félagslegum gæðum. Einsemd manneskjunnar hefur kannski aldrei verið eins nístandi og nú þegar líf okkar er samt í andliti náungans hvern dag, hverja stund. Einsemdin er uppspretta óttans og andsvar kirkjunnar er einmitt þetta loforð Jesú „ Ég er með þér elsku barn, alla daga, allt til enda veraldar“ þú ert ekki einn né ein né eitt á ferð. Þú ert ekki einn á flótta undan stríði, þú ert ekki ein í kynverund þinni, ég er með þér í hinseginleikanum segir Kristur, ég er með þér í ókunnu landi segir Kristur, ég er með þér í flótta undan stríðinu sem geysar segir Kristur.

„Ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldar“ ekki vera hrædd! Ég er með ykkur segir Jesús Kristur.

Published inHugleiðingar