Skip to content

Month: December 2019

Kjafta Guð í kaf

Það er kona sem kemur hingað í kirkjuna á kyrrðarstundir í hádeginu á fimmtudögum og hefur raunar komið í mörg ár sem hefur einstakt lag á því að segja alltaf eitthvað fallegt við samferðarfólk sitt þegar stundinni lýkur. Reyndar er það ekki bara það sem hún segir sem skiptir máli heldur ekki síður hvernig hún segir það. Hún horfir alltaf í augu manns eins og maður sé eina manneskjan í heiminum sem þurfi á uppörvun að halda, stundum er hún örlítið voteygð af hrifnæmi sem gerir það að verkum að maður veit að hún er virkilega að meina það sem hún er að segja og að það sem hún segir kviknar af trú og kærleika. Þessi kona er ekki að tala um hvað maður sé í fallegum fötum eða hárgreiðslan sé fín eða  maður hafi sagt gáfulega eða skemmtilega hluti á internetinu, nei hún segir frekar eitthvað á þessa leið„ … Lesa meira

Hátíðartuð

Það er þetta með að upplifa allskonar og ólíkar tilfinningar á sama andartaki,  tilfinningar eins og gleði og sorg, ótta og dirfsku, tilhlökkun og trega. Jólin eru á vissan hátt mekka hinna ólíku og andstæðu tilfinninga.

Bernskujólin mín heima í Laufási við Eyjafjörð eru í minningunni björt og fögur og hlý, hafa jafnvel yfir sér ævintýralegan blæ. Staðurinn Laufás í vetrarklæðum var oft eins og klipptur út úr einhverju gömlu jóladagatali. Snjóhengjur slúttu fram af burstum torfbæjarins svo minnti á risavaxið piparkökuhús sem óviti hefur makað hvítum glassúr. Kirkjan og grafreitirnir í kringum hana, himnaríki í fannferginu, íslenskt Betlehem á jólum. Aldrei var ég ótta slegin sem barn að ganga um þennan stað, hvort heldur sem var að nóttu eða degi. Mamma og pabbi voru mikil jólabörn og mjög samtaka í að skapa stemningu inn á heimilinu, á aðventunni fannst mér alltaf eins og þau hlökkuðu jafn mikið til jólanna … Lesa meira

Örhugleiðing um sorg og jól

Við elskum, þess vegna syrgjum við. Ef til vill er sorgin sannasta birtingarmynd elskunnar. Það er svo mikilvægt að minna sig reglulega á það þegar ástvinur er kvaddur og við tekur líf í breyttri mynd. Að minna sig á að sorgin er ást en ekki dauði, sorgin er upprisa ekki krossfesting, mennska ekki vonska, sorgin er afkvæmi alls þess besta sem fólgið er í sálu mannsins. Hún er djúpstætt þakklæti, nautsterk tengsl, hnausþykk umhyggja, alheims viska, naflastrengurinn við guðdóminn. Sorgin er sannleikurinn sjálfur sem býr innra með okkur, í hjörtum okkar.

Jólin eru í nánd, hátíð sannleikans og því einnig hátíð sorgarinnar, þegar við umvefjum reynslu okkar, ástvinamissi og söknuð reifum, leggjum í jötu og lútum höfði, sameinumst í kærleikanum hvert til annars og leyfum barninu að  leiða okkur í visku sinni. Jólin eru huggun harmi gegn ef við einblínum á kjarnaboðskap þeirra.