Skip to content

Month: June 2016

Hamingjan er fórn

Að elska
er að hella upp á kaffi
án þess að hafa nokkurn tíma drukkið kaffi
og kveikja á útvarpinu
þótt maður þrái þögnina
bara vegna þess að hún þarf að vakna

Að elska
er að para saman svarta sokka
í stærð fjörutíu og fimm
svo hann fari ekki í ósamstæðum
til vinnu

Að elska
er að lakka á henni táneglurnar
meðan enski boltinn er í sjónvarpinu
og missa af þessu eina marki
til að hitta á réttan stað

Að elska
er að baka skúffuköku á sunnudegi
og bera fram með nýmjólk
þótt best væri að hann drykki bara undanrennu
eða vatn

Að elska
er að kaupa blómvönd í Bónus
og bera heim
í gulum poka
innan um klósetthreinsi
og kæfu

Að elska
er að horfa saman á kvikmynd
um eiturlyfjabaróna
í Mexícó
Og vera á túr
og langa bara að sjá fallegt fólk
sem myrðir ekki aðra
eða vaknar… Lesa meira

17.júní 2016

Nú er hann sautjándi júní tekinn að reskjast,
hendurnar sinaberar
hárið grátt og þunnt,
andlitið markað lifuðu lífi.
Hann man hvar hann stóð þennan dag
fyrir rúmum sjötíu árum
er fáninn var dreginn að hún
og klukkum kirkjunnar hringt
af slíkri áfergju
og frelsisþrá
að kólfurinn titrar enn.
Nú lítur sá gamli stoltur
yfir litríkan hóp
sjálfstæðra afkomenda,
sér samkynhneigða syni
leiðast hönd í hönd
inn kirkjugólfið
með ástarblik í augum,
heyrir þeldökka dóttur tala íslenskt mál
eins og skagfirskur bóndi
í Laufskálarétt.
Forvitinn fylgist hann með jafnöldrum sínum
spila golf
og klífa fjöll
með undrandi barnabörn í eftirdragi.
Hann sér þingmenn í rifnum gallabuxum
og presta í brjóstahöldurum
og heimili sem eru grá og hvít eins og íslenska veðrið
þar glittir í eitt og eitt eilífðar smáblóm
og Jón heitinn í lit.
Hann sér þetta allt
blessaður öldungurinn
og brosir
þar sem hann svífur yfir bænum
á hátíðlegri helíumblöðru… Lesa meira

Óttinn er vonska þessa heims

Þegar ég var nývígður prestur í Laugarneskirkju í Reykjavík var mér boðið í opnuviðtal í víðlesnu dagblaði og sem ungur metnaðarfullur prestur og hálfgerður krakki því var ekki nema 27 ára gömul fór ég í viðtalið og hugsaði með mér að nú myndi eftirspurn eftir starfskröftum mínum og hæfileikum taka umtalsverðan kipp. Þetta var auðvitað áður en ég lærði inn á fjölmiðla og uppgötvaði að samskipti fjölmiðla og viðmælanda eiga með réttu að vera jafningjasamskipti þar sem báðir aðilar kasta á milli sín bolta og grípa eins og þeim einum er lagið. Þú lætur ekki meðhöndla þig í fjölmiðlum frekar en í öðrum samskiptum, þú lætur raunar aldrei meðhöndla þig nema þú sért svæfður í skurðaðgerð þar sem fagfólk er að hamast við að bjarga lífi þínu. Það er í raun enginn munur á prestum og fjölmiðlum þegar kemur að þessum þætti mannlegrar tilveru, prestar meðhöndla ekki fólk, ekki einu … Lesa meira