Lesa meiraÓttinn er vonska þessa heims "/> Skip to content

Óttinn er vonska þessa heims

Þegar ég var nývígður prestur í Laugarneskirkju í Reykjavík var mér boðið í opnuviðtal í víðlesnu dagblaði og sem ungur metnaðarfullur prestur og hálfgerður krakki því var ekki nema 27 ára gömul fór ég í viðtalið og hugsaði með mér að nú myndi eftirspurn eftir starfskröftum mínum og hæfileikum taka umtalsverðan kipp. Þetta var auðvitað áður en ég lærði inn á fjölmiðla og uppgötvaði að samskipti fjölmiðla og viðmælanda eiga með réttu að vera jafningjasamskipti þar sem báðir aðilar kasta á milli sín bolta og grípa eins og þeim einum er lagið. Þú lætur ekki meðhöndla þig í fjölmiðlum frekar en í öðrum samskiptum, þú lætur raunar aldrei meðhöndla þig nema þú sért svæfður í skurðaðgerð þar sem fagfólk er að hamast við að bjarga lífi þínu. Það er í raun enginn munur á prestum og fjölmiðlum þegar kemur að þessum þætti mannlegrar tilveru, prestar meðhöndla ekki fólk, ekki einu sinni syrgjandi fólk heldur mæta því þar sem það er statt.Nema hvað ég hafði ekki velt fyrir mér hugsanlegri yfirskrift þessa umrædda blaðaviðtals og var því heldur brugðið er mér varð litið á mitt glaðlega smetti í glugganum á 10/11 á Laugalæk í Reykjavík með fyrirsögninni „ Hildur Eir, þjónar bæði góðum og vondum.“ Í rauninni var mér ekki bara brugðið heldur var ég algjörlega miður mín, þetta var svo úr takt við mína lífssýn, að tala um vont fólk. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott, þessi fyrirsögn varð til þess að ég átti mörg innihaldsrík samtöl við vel meinandi fólk um hvort hægt væri að segja um manneskjuna að hún væri vond. Sitt sýndist hverjum og sumir færðu meira að segja ágæt rök fyrir því að svo væri.
Nú rúmum áratug, milljón sálgæsluviðtölum, þúsundum athafna og súrrealískra aðstæðna síðan hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki til vont fólk, bara hrætt fólk. Óttinn er vonska þessa heims. Sem er að mörgu leyti mjög gott, vegna þess að ótti er viðráðanlegri en illska, það er nefnilega möguleiki á að mæta ótta og draga úr skaða hans. Þess vegna er alltaf von í öllum aðstæðum því ef illskan væri ekkert annað en hrein illska ættum við mun færri svör og möguleika til breytinga. Þetta er jafnframt ástæðan fyrir því að enginn maður er algóður né alvondur, öll höfum við hugrekki og öll verðum við hrædd og þegar við verðum hrædd sýnum við klærnar eins og önnur dýr sem lifa á þessari jörð.
Atvinnurekandinn minn hann Jesús hamraði aftur og aftur á aðferðinni við að mæta óttanum, sú aðferð er nánast alltaf á skjön við líðanina. Þegar fólk ræðst til atlögu gegn manni í ótta er auðvitað mesta fróunin fólgin í að ráðast á móti og gjalda illt með illu en það er svolítið eins og troða í sig stóru súkkulaðistykki þegar maður er ógeðslega svangur, það er gott í fimm mínútur en svo fer líkamsstarfssemin í rugl, hugurinn dofnar og við fáum sektarkennd.

Besta ráðið við ótta annarra er að sýna gæskuríka festu, halda sig við staðreyndir og jafnvel endurtaka þær ef viðmælandinn er ekki móttækilegur sökum kvíða. Svolítið eins og gert er í hugrænni atferlismeðferð, að sefa með rökum. Ég tala nú ekki um þegar áheyrendur eru að samtalinu, það er svo vont að verða vitni að gagnkvæmu virðingarleysi og dónaskap tveggja fullorðinna aðila því það eina sem maður heyrir í slíku samtali er reiði og ótti en ekki staðreyndir, hugmyndir og góður vilji.
Þetta er svona hugleiðing og hvatning um að líta á neikvæða hegðun sem ótta frekar en illsku. Við getum öll orðið hrædd í einum eða öðrum aðstæðum og þá þurfum við að hitta fyrir fólk sem býr yfir yfirvegun og hugrekki og nær að tala kvíða okkar niður. Höfum þetta að leiðarljósi í kosningaleiðangrinum sem nú er framundan, verum stór og meðhöndlum ekki fólk heldur mætum því þar sem það er statt af heiðarleika, húmor og fegurð.

Published inPistlar