Lesa meiraVið þurfum nýjan forseta "/> Skip to content

Við þurfum nýjan forseta

Þá hef ég komist að niðurstöðu samkvæmt brjóstviti mínu og dómgreind sem er auðvitað ekki óskeikul. Það er fullkomlega óeðlilegt að Ólafur Ragnar Grímsson skuli nú bjóða sig aftur fram til forseta eftir að hafa tilkynnt annað í nýársávarpi sínu á fyrsta degi ársins 2016. Það er heldur ekki satt sem sumir segja að þetta sé lýðræðið í hnotskurn að hann megi nú bara bjóða sig fram eins og hver annar og svo sé það þjóðarinnar að velja, upphrópunin “hva er þjóðin svona heimsk, er henni ekki treystandi til að kjósa!” er heldur ekki kjarni málsins, þetta er ekki svona einfalt. Nei íslensk þjóð er ekki heimsk, íslensk þjóð er hins vegar lítil og líður fyrir það þegar kemur að umgengni við völd. Þeir sem segja framboð Ólafs bara einn valkost af mörgum eða lýðræðið í hnotskurn eru sömu aðilar og vita af fenginni reynslu að fámenni hefur tilhneigingu til að standa gegn valddreifingu og breytingum, það er nánast náttúrulögmál en þó ekki svo mikið náttúrulögmál að ekki sé hægt að snúa á það með hugrekki og góðum vilja.
Sjálfur Jesús frá Nasaret mætti örlögum sínum án þess að hika, það þýddi að vísu ekki að hann færi á eftirlaun heldur gekk hann í þráðbeint til móts við dauðann og fól allskonar fólki sem hann kynntist að stofna kirkju og finna út úr samfélagslegum málefnum með visku hans og anda að vopni. Ólafur Ragnar hefur gert margt gagnlegt í sinni forsetatíð sem næsti forseti getur örugglega byggt á og nýtt sem áttavita í framtíðargöngu þjóðarinnar, ólíkt lærisveinum Jesú getur hann reyndar líka lært af mistökum Ólafs þannig að það er úr ýmsu að moða. Ólafur Ragnar er bara maður sem vaknar á morgnana og burstar í sér tennurnar og tekur inn lýsið eða öfugt, bara eins og ég og þú og það er kjarni málsins. Þess vegna er ekkert óttast þótt nýr forseti taki við því hann/hún á eftir að hafa heila þjóð til samtals um gildi og viðmið, réttlæti og farsæld. Það eina sem við sem þjóð þurfum að komast úr úr núna er meðvirknin gagnvart þeim sögulega atburði að sitjandi forseti sé ekki endurkjörin, við erum ekki að bregðast Ólafi Ragnari með því að kjósa hann ekki í sjötta sinn og heldur ekki sjálfum okkur vegna þess að hann er fullorðin og við sem þjóð erum fullorðin og því jafningjar hans. Ólafur ber fulla ábyrgð á þeirri ákvörðun að bjóða sig fram eftir að hafa gefið út yfirlýsingu um annað og er fullfær um að standa og falla með henni, maður sem hefur verið þjóðhöfðingi í 20 ár. Nú er kominn tími á breytingar og þær breytingar eru ekki svik við fortíðina heldur hugrekki gagnvart framtíðinni. Fyrst að fólk getur skilið eða misst maka en orðið aftur ástfangið þá hljótum við sem þjóð að geta skipt um forseta en verið samt hamingjusöm.

Published inPistlar