Lesa meiraHvað er sannleikur? "/> Skip to content

Hvað er sannleikur?

Það var sannarlega engin La det swinge stemning í kringum umræðuna um úrslitin í söngvakeppni sjónvarpsins á dögunum. Allt í einu voru eldsumbrotin í Grindavík gleymd og eiginlega líka styrjaldirnar í Úkraínu og á Gaza. Allt snerist um hvort brögð hefðu verið í tafli í símakosningunni sem leiddi til þess að Hera Björk með lagið um lofthræðsluna bar sigur úr býtum. Íslenska stórfjölskyldan sem samanstendur af tæplega fjögurhundruð þúsund manns fór í hár saman við eldhúsborð samfélagsmiðlanna. Eins og oft vill verða í „barnmörgum“ fjölskyldum taka einstaklingar að sér ákveðin hlutverk, stundum meðvitað, stundum ómeðvitað. Einhver er í hlutverki hins ábyrga, annar leikur fórnarlambið, svo er það trúðurinn og síðan sá sem nær að etja öllum systkinum saman en stendur einhvern veginn eftir með pálmann í höndunum. Þetta er staðan svona þegar fjölskyldurnar eru það sem kallast vanvirkar sem auðvitað margar fjölskyldur eru þótt þær séu líka góðar. Sumar fjölskyldur eru reyndar svo mikið vanvirkar að lítið sem ekkert heilbrigði þrífst innan þeirra en aðrar hafa bæði til að bera heilmikið heilbrigði en líka svolitla vanvirkni.

Við í fjölskyldunni íslensk þjóð myndum flokkast undir hið síðarnefnda, það er,  að vera töluvert heilbrigð en líka oft ansi vanvirk. Vanvirkni eða dysfunction í  okkar tilviki endurspeglast kannski annars vegar í frændhygli eða klíkuskap sem er oft freistandi í svo litlu samfélagi og hins vegar í orðræðunni á samfélagsmiðlum. Á samfélagsmiðlum eða við eldhúsborð íslensku fjölskyldunnar eru bara nokkrir sem hafa orðið og aðrir sem þora ekki að biðja um orðið eða kinka bara kolli við næsta ræðumanni af því að sá ræðumaður hefur það hlutverk í fjölskyldunni að vera málsmetandi aðili, þykir hafa vit á hlutunum og vera flínkur að koma fyrir sig orði. Ef við tækjum saman fjölda þeirra sem í raun stýra þjóðfélagsumræðunni á íslenskum samfélagsmiðlum þá er þetta merkilega fámennur hópur.

Oft er talað um vagnana sem fólk stekkur á, þessi og hinn er á hinum og þessum vagninum og þá er átt við að viðkomandi sé í raun hálf ósjálfstæður í skoðunum. Hann treysti bara á að vagnstjórinn hans tjái sig um málið og þegar stjórinn hefur kveðið upp sinn dóm þá deilir viðkomandi færslu vagnstjórans og tekur undir hans sjónarmið. Eins og gefur að skilja hafa vagnstjórarnir gríðarleg félagsleg völd í samfélaginu, þeir allra sterkustu geta raunar haft heilmikil og víðtæk áhrif. Ég viðurkenni að hafa stundum gert mér það að leik þegar eitthvert ákveðið mál er í brennidepli hinnar almennu umræðu að skoða hvað hinn og þessi vagnstjórinn segir og renna síðan yfir það hverjir læka og hrópa húrra í kommentum. Sem gamall nemandi af félagsfræðibraut í framhaldsskóla finnst mér þetta mjög áhugavert enda man ég að við sem vorum á þeirri braut vorum látin gera allskonar félagsfræðilegar kannanir út í samfélaginu. Þar áttum við að rannsaka viðbrögð fólks og skoða og greina með kennaranum okkar. Mér er einmitt mjög minnisstætt þegar við Rúnar bekkjabróðir minn fórum inn í snyrtivöruverslun hér í bæ nota bene árið 1995 þar sem ég var að hjálpa honum að finna rétta varalitinn, augnskuggann og meikið og skoða um leið viðbrögð afgreiðslukonunnar, þetta var sem sagt leikþáttur sem afgreiðslukonan vissi ekkert um. Sú rannsókn tókst ágætlega hjá okkur vinunum. Það var hins vegar öllu verra þegar við fórum inn í sjoppu eina og ónefnda í bænum þar sem samviskusöm afgreiðslukona á miðjum aldri  stóð vaktina og spurðum hana hvort við gætum keypt tvær kók í gleri og nokkur grömm af hassi. Þorlákur félagsfræðikennari var ekkert hoppandi glaður með það innslag enda vorum við þarna í nafni Menntaskólans. En þetta fór allt vel og ef mig misminnir ekki báðum við konuna afsökunar, sem var bara líka mjög hollt fyrir okkur,  það er jú enginn skóli betri en iðrun og yfirbót.

Það er áhugavert að skoða hegðun manneskjunnar og samfélagsmiðlar eru góssenland til þess. Þegar um siðferðilegt álitamál er að ræða get ég hæglega sagt þér fyrirfram hverjir muni læka færslur Brynjars Níelssonar eða Guðmundar Andra Thorssonar eða Illuga Jökulssonar svo einhverjir séu nefndir af stórum hópi þekktra aðila. Við erum fjölskylda og við förum um í hópum.

Þegar Jesús hefur svarað Pílatusi því í guðspjalli dagsins að hver sem sé sannleikans megin heyri rödd hans segir Pílatus á móti „ Hvað er sannleikur?“ Þá hafði Jesús staðið fyrir framan hann með menn æðsta prestsins í múgæsingi að baki þar sem þeir vildu þvinga fram ákæru og ekki bara ákæru heldur líflátsdóm samkvæmt lögum Rómverja. Undir þessum æsingi gengur Pílatus inn í höllina, kallar Jesú fyrir sig og segir: Ert þú konungur Gyðinga? Og Jesús svarar honum: „Eru þetta þín orð eða hafa aðrir sagt þér frá mér?“

Þarna er Jesús í raun að segja við Pílatus, „ég ætla ekki að verja mig en ég hvet þig til að hugsa hér sjálfstætt.“ „ Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er sannleikans megin, heyrir mína rödd.

Hvað er sannleikur? Það er hin stóra spurning lífsins. Ekkert okkar hefur höndlað hinn endanlega sannleika, engin manneskja mun nokkurn tíma gera það. Því er að mínu viti aðeins einn vagn sem óhætt er að hoppa á og það er vagninn hans Jesú. Það er vagn þess kærleika sem hlúir að og varðveitir allt sem lifir og mótmælir afdráttarlaust dauðans valdi, ofbeldi og kúgun. Ef þú veist ekki hvað er rétt að gera, hlustaðu þá á Jesú, hlustaðu til dæmis á fjallræðuna hans „Sælir eru hjartahreinir því þeir munu Guð sjá. Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Sælir eru hógværir því þeir munu jörðina erfa. Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða. Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða.

Hlustaðu á Jesú þegar hann segir „með þeim dómi sem þið dæmið munu þið dæmd og með þeim mæli sem þið mælið mun ykkur mælt verða.

Hlustaðu á Jesú þegar hann segir „ ekki safna þér fjársjóði á jörðu sem mölur og ryð fær eytt og þjófar brjótast inn og stela. Safnaðu þér heldur fjársjóðum á himni þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.“ Með öðrum orðum, ræktaðu það sem þú tekur með þér héðan, kærleikann, kærleikstengslin, hið heilaga, það sem er heilagt getur ekki dáið.

Hlustaðu á Jesú þegar hann segir „ Sannlega segi ég ykkur. Þið komist aldrei í himnaríki nema þið snúið við og verðið eins og börn. Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn þetta sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér.

Hlustað Jesú því hann ber sannleikanum vitni.

Hvað er sannleikur? Ekki spyrja mig. Spurðu Jesú, hann svarar þér í krafti upprisunnar. Amen

Published inHugleiðingar