Skip to content

Month: December 2018

Hamingjan er hér

Þau eru auðvitað mörg áhyggjuefnin í dag, hvert sem litið er, Trump í Bandaríkjunum, Pútín í Rússlandi, plastmengun í sjó, matarsóun, öfgahópar, ójöfnuður, ófriður og offita, svo aðeins fátt eitt sé nefnt. Tilefni til kvíða eru svo víða að í raun eru órúlegt að við skulum yfirhöfuð ná að reisa höfuð frá kodda á morgni hverjum. Ef út í það er farið er alveg ástæða til að örvænta, heimurinn er hættulegur, ógnir liggja víða, óréttlætið grasserar sem aldrei fyrr og það sem meira er við getum ekki skýlt okkur bak við þægilega fáfræði vegna þess að við erum öll á samfélagsmiðlum þar sem áhyggjuefnin eru stöðugt til umræðu. Samt erum við hér að kveðja enn eitt árið og taka á móti nýju og einhvern veginn höfum við lifað af þetta ár þrátt fyrir allar þess áhyggjur og óleyst vandamál, er það ekki út af fyrir sig alveg stórmerkilegt? Mörg okkar … Lesa meira

Í andardrættinum

Í nýútkominni ljóðabók sinni Haustaugu yrkir öldungurinn Hannes Pétursson eftirfarandi ljóð

 

Hinstu þakkarorð sem ég skrifa

þau skrifa ég

eingöngu

með andardrætti mínum

 

á örk

úr alhvítri birtu.

 

Þau orð

munu ástvinir mínir

einir geta lesið.

 

Þau skildu ævinlega

andardrátt minn

 

Er ekki ástin einmitt það að þekkja andardrátt þess sem þú elskar? Er það að elska ekki einmitt að leggja sig eftir andardrættinum og festa sér í minni? Manstu þegar þú varst heima með hvítvoðung, vaknaðir um miðja nótt til að hlusta eftir andardrætti hans, lagðir fingur að vitum barnsins til að gá hvort  andaði ekki örugglega? Þekkja ekki allir foreldrar þann gjörning meðan börnin eru svona agnarsmá og varnarlaus?

Ég stóð inn í bókabúð á aðventunni og fletti í gegnum jólabækurnar, kom þá auga á þessa bók hans Hannesar, eins af mínum eftirlætis skáldum, svo  flínkur að teikna upp fallegar myndir, vitur og … Lesa meira

Vitið er í vanmættinum

Þegar faðir minn lést fyrir um áratug stóð ég á þrítugu og hafði þá starfað sem prestur í um þrjú ár. Ég minnist þess að vinir höfðu á orði við andlát hans að nú kæmi sér vel fyrir mig að vera prestur og þekkja sorgarferlið sem slík. Ég var þó fljót að komast að því að enginn er prestur í eigin sorg.

Á þessari aðventu fæst ég við annars konar sorg sem tengist breytingum á fjölskylduhögum og aftur er ég minnt á það að enginn er prestur í eigin sorg. Já jafnvel þó ég hafi starfað við að liðsinna hjónum á tímamótum sem þessum í ein þrettán ár get ég engan veginn sest andspænis sjálfri mér og heyrt og skilið eigin hugsanir og líðan, ég þarf speglun eins og allir aðrir sem hafa gengið í gegnum það sama. Sem betur fer bý ég þó svo vel að eiga vandaða og … Lesa meira