Lesa meiraÍ andardrættinum "/> Skip to content

Í andardrættinum

Í nýútkominni ljóðabók sinni Haustaugu yrkir öldungurinn Hannes Pétursson eftirfarandi ljóð

 

Hinstu þakkarorð sem ég skrifa

þau skrifa ég

eingöngu

með andardrætti mínum

 

á örk

úr alhvítri birtu.

 

Þau orð

munu ástvinir mínir

einir geta lesið.

 

Þau skildu ævinlega

andardrátt minn

 

Er ekki ástin einmitt það að þekkja andardrátt þess sem þú elskar? Er það að elska ekki einmitt að leggja sig eftir andardrættinum og festa sér í minni? Manstu þegar þú varst heima með hvítvoðung, vaknaðir um miðja nótt til að hlusta eftir andardrætti hans, lagðir fingur að vitum barnsins til að gá hvort  andaði ekki örugglega? Þekkja ekki allir foreldrar þann gjörning meðan börnin eru svona agnarsmá og varnarlaus?

Ég stóð inn í bókabúð á aðventunni og fletti í gegnum jólabækurnar, kom þá auga á þessa bók hans Hannesar, eins af mínum eftirlætis skáldum, svo  flínkur að teikna upp fallegar myndir, vitur og sannur í sinni víðu lífssýn. Og þar sem ég stóð og fletti í gegnum bókina hans nam ég staðar við ljóðið um andardráttinn og áður en ég vissi hafði ljóðið smogið í gegnum hjartalokurnar og komið sé makindalega fyrir í dýpstu sálarkimum mínum þar sem allar mikilvægustu minningar okkar lifa, þær eru ekki allar í höfðinu. Við þráum öll að eiga einhvern í lífinu sem skilur andardrátt okkar að eiga einhvern slíkan að er hamingjan sjálf í sinni tærustu mynd.

En þótt enginn heyri andardráttinn þinn á þessari jörð þá ertu aldrei einn eða ein því Guð skilur andardrátt þinn. Um þetta er jólaguðspjallið. Það fjallar um það að okkur sé óhætt þrátt fyrir allt og allt sem hendir í þessu lífi. Jólaguðspjallið er ekki heimild um sögulega atburði heldur huggun til handa þér ef þú velur að vera berskjaldaður og barnslegur þegar þú tekur við því.

Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei átt jafn erfitt með að skrifa ræðu eins og fyrir þessi jól, aðventan flaug hjá í tilfinningalegum rússíbana og allt í einu var kominn 22.desember og ég ekki enn farin að huga að aðfangadagsræðu. Það hefur aldrei gerst frá upphafi míns prestsskapar, ekki einu sinni þegar ég var kasólétt og með hugann meira við hreiðurgerð en helgihald. Ég hugsa að ég hafi drukkið minnst 200 kaffibolla á meðan þessi ræða var í fæðingu, gott ef ég reykti ekki líka tvær sígarettur þó væri löngu hætt þeim ósið, þið lofið að segja engum. Ég var vissulega búin að finna ljóðið sem ég flutti hér í upphafi og ætlaði auðvitað að skrifa ljóðræna jólaprédikun út frá því en þá gerðist ekkert, hef aldrei lent í annarri eins ritstíflu um ævina. Allt í einu var bara eins og ég hefði ekki lengur neitt erindi sem prestur eða yfirhöfuð bara sem trúmanneskja, líkt og jólaguðspjallið væri mér allt í einu fullkomlega framandi og þó reyndi ég allt, reyndi að vekja og hrista til guðfræðisjálfið, pólitískasjálfið, siðfræðisjálfið, umhverfisjálfið en endaði á því að geta bara beitt manneskjusjálfinu við skrifin. En það þýðir líka að svona prédikun verður frekar sjálfmiðuð því það er erfitt að tala um það að vera manneskja án þess að leggja sjálfan sig að veði. Þessi aðventa sem nú er rétt liðin og þessi jól sem nú er rétt hafin eru mér dálítið framandi, ég hef aldrei fyrr verið jafn lítill þátttakandi í undirbúningi hátíðanna og einhvern veginn líður mér eins og aðventan hafi liðið án þess að ég hafi gert nokkuð skapaðan hlut til að taka á móti sjálfu Jesúbarninu, jú ég þreif reyndar salernið og skúraði gólfin. Kannski hef ég bara fetað mig nær jötunni í annarri vídd en áður. Ekki í kunnuglegri tilhlökkun eða jákvæðu jólastressi og ekki í öryggi þess sem ég þekki og kann, heldur í nýjum aðstæðum, meiri einveru, minni tengslum við fólk sem áður stóð mér nær, í meiri berskjöldun, óvissu, sektarkennd, sársauka en líka undarlegum létti og stolti yfir því að taka svolítið mark á sjálfri mér.

Ég hafði aldrei lent í því áður að gefast upp á prédikunarskrifum tvo daga í röð. Eitt kvöldið hafði vinkona mín samband við mig og ég orðaði andleysi mitt við hana og þá sagði hún „Hildur kannski þarftu bara að gefa þessu einn dag í viðbót.“ Og þrátt fyrir að upplifa ákveðin ósigur í því að leggja frá mér tölvuna og ganga frá ókláruðu verki, hlýddi ég ráðum vinkonunnar vegna þess ég veit að hún er vitur og að henni þykir vænt um mig. Og sem betur fer fylgdi ég hennar ráðum því í gær á Þorláksmessu hafði ég ekki enn lokið við ræðuna á sama tíma og ég þjónaði við árlega minningarstund í Höfðakapellu hvar fólk kemur saman í anddyri jóla að minnast látinna ástvina. Og þar sem ég stóð og horfði í augu fólksins þarna við þessa stund uppgötvaði ég að það væri einmitt í þessum kringumstæðum þar sem ekkert var eins áþreifanlegt í loftinu eins og alvöru tilfinningar og alvöru þrá eftir merkingu með þjáningunni, sorginni og voninni að ég komst loks að jötu Jesúbarnsins. Og þar sem ég stóð þarna fyrir framan fólkið og las upp jólaguðspjallið en það gerum við alltaf við þessa stund þótt jólin séu ekki komin, skildi ég hvers vegna ég hafði ekki getað lokið við prédikunina, það var vegna þess að ég þurfti fyrst að ganga inn í varnarleysið til að rata að fjárhúskofanum og varnarleysið laukst upp fyrir mér um leið og ég horfði í augu allra syrgjendanna sem sátu stundina í Höfðakapellu. Mér fannst ég skynja Guð mitt á meðal okkar að hlusta eftir andardrætti okkar sem þarna vorum og þegar kom að Faðir vorinu fannst mér hann hvísla að okkur öllum í einu „ ég skil þig“ og þá komu jólin af því að jólin koma þegar allir varnir víkja og tilfinningar ríkja. Jólin byrja ekki í Ikea eða á Glerártorgi eins ágætir og þeir staðir eru vegna þess að þegar við erum þar erum við ekki tilfinningalega samferða hvert öðru heldur erum hvert og eitt á eigin vegum að leita einhvers sem við þó vitum ekki hvað er.  Jólin koma fyrst þegar við náum að samstilla reynslu okkar og líðan, náum að samstilla mennskuna, það skyldi þó ekki vera að jólin kæmu með andardrættinum, þegar við heyrum og skiljum?

 

 

 

 

Published inHugleiðingar