Lesa meiraHamingjan er hér "/> Skip to content

Hamingjan er hér

Þau eru auðvitað mörg áhyggjuefnin í dag, hvert sem litið er, Trump í Bandaríkjunum, Pútín í Rússlandi, plastmengun í sjó, matarsóun, öfgahópar, ójöfnuður, ófriður og offita, svo aðeins fátt eitt sé nefnt. Tilefni til kvíða eru svo víða að í raun eru órúlegt að við skulum yfirhöfuð ná að reisa höfuð frá kodda á morgni hverjum. Ef út í það er farið er alveg ástæða til að örvænta, heimurinn er hættulegur, ógnir liggja víða, óréttlætið grasserar sem aldrei fyrr og það sem meira er við getum ekki skýlt okkur bak við þægilega fáfræði vegna þess að við erum öll á samfélagsmiðlum þar sem áhyggjuefnin eru stöðugt til umræðu. Samt erum við hér að kveðja enn eitt árið og taka á móti nýju og einhvern veginn höfum við lifað af þetta ár þrátt fyrir allar þess áhyggjur og óleyst vandamál, er það ekki út af fyrir sig alveg stórmerkilegt? Mörg okkar hafa eflaust horft á fréttaannál sjónvarpsins í dag þar sem kvíðaefni liðins árs eru dregin saman í stutta og hnitmiðaða útgáfu svo við þurfum nú ekki að kveðja árið án þess að muna það versta sem hugsanlega gæti gerst. Lífið er fullt af hörmungum, svo mikið er víst og trúðu mér ég gegni starfi þar sem versta hugsanlega niðurstaðan liggur mjög oft fyrir þannig að það er engin hætta á því að ég fari á mis við kaldan raunveruleikann.

Það sem er hins vegar svo dásamlegt við mitt starf er að oftar fæ ég að sjá lífið eins og það getur best orðið, eins og til dæmis í gær þegar ég fékk að skíra sex mánaða gamlan dreng sem sat hnarreistur í fangi föður síns á meðan athöfnin fór fram og brosti tannlausu brosi framan í prestinn á meðan hann var vatni ausinn, lét sér hvergi bregða við óæfðan söng viðstaddra á skírnarsálminum, leyfði prestinum að halda á sér á meðan fjölskyldan tók myndir og skríkti framan í viðstadda þegar langamma missti loks þolinmæðina gagnvart krumpuðum skírnarkjólnum og vatt sér fram fyrir hópinn til að laga slaufuna sem hafði kuðlast í höndum sérans. Sex mánaða skírnardrengur sem horfði á okkur öll eins og framtíðin væri honum eitt stórt tilhlökkunarefni sem hún og er því hamingjan er hér og drengurinn getur alltaf valið hana.

Lífsleikni er orð sem kemur oft upp í huga minn. Staðreyndin er þessi að við fæðumst inn í heim fullan af ógnum, við fæðumst með misjöfn spil á hendi, inn í misjafnar aðstæður, heilsufar og efnahag. Samt virðist hamingjan, þetta stóra markmið lífs okkar ekki bara fara eftir heppni eða því hvaða spil við höfum á hendi frá fyrsta degi. Hamingjan virðist miklu fremur tengjast getu okkar til lífsleikni, að því hallast ég sífellt meir eftir því sem ég er lengur áhorfandi að lífi annars fólks í gegnum starfið mitt. Að því leyti er mikill sannleikur fólginn í þeirri þekktu fullyrðingu að hamingjan sé ákvörðun. Að hver einasta manneskja geti ákveðið að vera hamingjusöm í raun sama hverjar aðstæður hennar eru. Nú er ég vissulega farin að fikra mig inn á nokkuð eldfimt svæði þar sem þessari fullyrðingu er hægt að snúa upp í allskonar ambögur svo sem eins og að fyrst allir geti verið hamingjusamir sama hverjar aðstæður þeirra eru þá hljótum við bara að leggja árar í bát og hætta að berjast fyrir réttindum þeirra sem lifa við skort eða heilsubrest. En það er ekki mergurinn málsins og ekki það sem ég á við. Líf okkar allra getur umhverfst á einu andartaki, á morgun gæti heilsan verið frá mér tekin eða vinir eða starfið, æran, mannorðið, ástin, minnið, málið. Við lifum við þá ógn að missa frá okkur allt sem hægt er að öðlast og sumir eru raunar svo helteknir af þeirri staðreynd að þeir ná sjaldnast að njóta þess sem er.

Einhverra hluta vegna virðist manneskjan ekki verða hamingjusamari við það eitt að lifa þægilegra lífi, þannig virðast nútímatækni og þægindi ekki vera örlagavaldar í hamingju manneskjunnar, ekkert sem bendir til þess að fólk sé hamingjusamara á Íslandi árið 2018 en 1918 jafnvel þótt þá hafi geysað skaðræðis pest, tryllingslegur frostavetur og brennandi Kötlugos. Það er ekkert sem segir að fólk sé almennt hamingjusamara í dag en fyrir hundrað árum þótt þægindi og lífslíkur séu nú meiri. Hamingjan er svo undarlegt fyrirbrigði, ekki hægt að kaupa hana, ekki hægt að skipuleggja hana, ekki heldur kortleggja, fanga eða eiga í stóru upplagi. Hamingjan er nefnilega algjörlega sjálfstætt fyrirbrigði og engu háð, er sinn eigin herra eða frú. „ Hamingjan, hún er hér“ syngur Jónas Sig og viðstaddir taka undir án þess að hugsa og þar ratast þeim ágæta tónlistarmanni líka rétt orð á munn. Hamingjan er nefnilega svo mikið hér og nú þar sem þú stendur í andartakinu og hugsar fram á við, í hvaða aðstæðum sem er, það er að segja ef þú lítur svo á að þú hafir val, hamingjan er sumsé það að trúa því að þú hafir alltaf val líka eftir að hafa gert alvarleg mistök og jafnvel klúðrað lífi þínu þann daginn. Valið getur verið algjörlega huglægt en líka hlutlægt og oftast er það hvoru tveggja.

Hin kristna trú sem byggir grundvöll sinn á upprisu Jesú er um nákvæmlega um þetta, að við höfum val, upprisan er staðfesting á því að hamingjan sé hér vegna þess að þú hefur alltaf og undantekningarlaust val um að standa í skjóli hennar. Hamingjan er sumsé upprisa, þegar þú heldur áfram að lifa þrátt fyrir allt og allt og þannig má segja að hin kristna trú sé hamingjutrú, hún byggir grundvöll sinn á því að allar manneskjur geti verið og orðið hamingjusamar þrátt fyrir alla hugsanlega erfiðleika og sorgir. Eina sem raunverulega kemur í veg fyrir að manneskjan verði hamingjusöm er tilhneigingin til að leita langt yfir skammt, tilhneiging okkar til að sækja vatnið yfir lækinn, það er þetta þegar við höldum að hamingjan sé bundin hæfileikum okkar, gáfum og styrk, sem hún er hreint ekki. Hamingjan er einungis bundin trú okkar á tilvist hamingjunnar, að við trúum því að hið góða geti sigrað, að ljósið sé myrkrinu yfirsterkara. En þá neyðumst við líka til að hafa trú á góðvild manneskjunnar og þar kemur að framlagi okkar sjálfra, að við forgangsröðum rétt, vöndum okkur í samskiptum og látum af hroka gagnvart gildum sem margir líta á sem mjúk, barnsleg og viðkvæm og ekki til þess fallin að skapa nokkurn haldbæran arð né frama. Við lifum í heimi sem byggir viðmið farsældar á misskilningi, að hamingjan sé arður, þegar sannleikurinn er sá að hamingjan er auðlind, ekki arður heldur auðlind, það er mikill munur þar á.

Heimspekingurinn Gunnar Hersveinn skrifaði á dögunum stutta en afar hnitmiðaða grein sem birtist í Stundinni og fjallar um gildi góðmennskunnar í tengslum við hamingjuna, þar segir hann meðal annars:

„Góðvild hefur oft verið útilokuð og flokkuð með draumórum. Það hefur verið hlegið að henni og hún hefur átt undir högg að sækja. Hún gengur undir mörgum nöfnum og er nefnd í ýmiskonar spekibókum og trúarritum í gegnum aldirnar. Það virðist þó ekki nægja því of fáir treysta á kraft hennar.

Of margir hafa efast um góðvild og valið fremur að trúa á sjálfselsku. Það er auðvelt að efast um eigin góðvild og annarra, því hún er hrokalaus. Sjálfselskan er lævís og fólk á valdi hennar hugsar: „Kannski elska ég ekki aðra, kannski hjálpa ég öðrum bara til að mér liði betur, kannski er allt sem ég geri sjálfselska.“

Enginn verður hamingjusamur með því að hugsa einungis um sjálfan sig – heldur með því að gefa af sjálfum sér, gefa öðrum og sýna þeim góðvild.

Allir eiga vissulega að elska sjálfan sig og hafa metnað til að verða hæfileikarík manneskja. Það er nauðsynlegt en það er ekki sjálfselskan sem gerir fólk hamingjusamt heldur góðvildin.

Græðgi og eigingirni vekja kvíða en að gefa öðrum er tilraun til að skapa mannkyn þar sem fólk elskar hvert annað. Græðgi er ekki dygð sigurvegarans því sá sem verður of gráðugur fer út yfir öll mörk, traðkar á öðrum og eignast óvini.

Góðvild er nátengd farsælu lífi. Hún er dygð alls mannkyns og hamingjan er falin í þeirri athöfn að sýna öðrum góðvild. Það er lofsvert að gera eitthvað fyrir aðra og það er gefandi því fólk er þakklátt og það byggir upp hamingju.“

Á nýju ári 2019 óska ég þess kæru vinir að góðvildin skjóti dýpri rótum í okkar litla samfélagi og að hin svokölluðu mjúku gildi, gildi kærleika og umhyggju sem eru í raun hugrökku gildin verði loksins talin bæði töff og eftirsóknarverð í stað hroka og klækjabragða. Þá fyrst verður íslensk þjóð ekki bara heppin eins og hún er svo mikið heldur líka hamingjusöm.

                 

 

Published inHugleiðingar