Lesa meiraÉg elska fótbolta "/> Skip to content

Ég elska fótbolta

Persónulega hef ég engan sérstakan áhuga á fótbolta, ég hef til dæmis aldrei horft á heilan fótboltaleik í sjónvarpinu en ef Ísland er að keppa þá horfi ég stundum á síðustu mínúturnar til þess að láta eins og mér sé ekki sama og reyndar horfði ég á umspilið fyrir EM því þó ég hafi ekki áhuga á fótbolta hef ég samt metnað fyrir mína þjóð. Það fyndna er að fótboltinn hefur umlukið líf mitt frá upphafi, ég á til dæmis eldri bróður sem æfði mark og horfði á enska boltann hvern einasta sunnudag og plataði mig til að spila við sig heima í sveit þegar honum bauðst ekki betri félagsskapur. Þá eignast ég kærasta um tvítugt sem kann varla trúarjátninguna en veit hvað landsliðsmarkvörður Grænhöfðaeyja heitir, hve gamall hann er og hversu mörg skot hann hefur varið frá upphafi ferils síns. Og til að kóróna þetta allt eignast ég svo son sem æfir bæði handbolta og fótbolta og stekkur því endalaust um íbúðina tekur luftspyrnur og skæri og hvað þetta allt kallast og ég stend bara fyrir framan spegilinn að setja á mig maskara og veit ekkert hvaðan á mig stendur veðrið. Ég hefði náttúrlega ekkert hatað það að hann hefði lært á fiðlu eða farið í leiklist eða ballet eða eitthvað sem hefði gefið mér tækifæri til að mæta honum á miðri leið, einhvern tíma bauð ég honum að fara á rándýrt leiklistarnámskeið og hann horfði á mig eins og ég hefði skráð hann heilt sumar á Ástjörn sem mér finnst reyndar bara mjög góð hugmynd, ekki hefur hann lært boðorðin tíu hjá mér, svo mikið er víst.
Ég bý sem sagt ekki með neinum sem nennir að lesa með mér ljóð eða greina trúarstef í kvikmyndum, sambýlingar mínir eru í Fifa þegar ég er að semja prédikanir og veistu hvað………………………………það er bara allt í lagi. Fótbolti er nefnilega frábært fyrirbæri hvort sem mér finnst hann skemmtilegur eða ekki, fótbolti er vettvangur til að ná fólki saman og eignast vini eins og í kirkjunni. Mestu mistök sem hvert og eitt okkar gerir á heimilinu jörð er að ætlast til þess að við getum alltaf haft áhuga og smekk á vali annarra við að bæta lífsgæði sín,samanber trú og trúariðkun. Mesta meinsemd mannkynsins er skortur á heildrænni sýn. Gott og vel það er ekkert allt fallegt í boltanum, menn hafa vissulega týnt lífi vegna fótbolta, jafnrétti kynjanna er þar ábótavant og svo eru það bullurnar sem heyja stríð og ógna öryggi samborgara sinna. Aldrei dytti mér þó í hug að skrifa pistil með hvatningu um að leggja niður fótbolta til að koma í veg fyrir hörmungar heimsins, einfaldega vegna þess að ég sé líka allt það góða sem fótboltinn skilar og það er svo miklu, miklu meira en hitt. Allur mannauðurinn sem boltinn skapar, öll tengslin sem af honum spretta, sjálfsmyndar hvatningin, skemmtunin, vináttan, aginn, samkenndin og samstaðan, ættum við að fórna því vegna þess að gæfulitlu fólki tekst stundum að snúa jákvæðum hlutum á hvolf, ekki vegna þess að það sé í grunninn verra en aðrir heldur vegna þess að margir samverkandi þættir hafa gert það andsnúið lífinu sem þýðir að aðrir gætu snúið þróuninni við, það er enginn dæmdur til að vera ógæfumaður að eilífu, þökk sé upprisu Jesú frá dauðum.
Fótbolti og trúarbrögð eins og kristin trú eiga það sameiginlegt að vera uppspretta gefandi samfélags þar sem boltinn og Jesús leiða ólíka hópa saman til þess að efla andleg og líkamleg lífsgæði fólks og vera farvegur fallegra tilfinninga, það er auðvitað markmiðið og þess vegna elska ég fótbolta og virði þó mér þyki hann ekki skemmtilegur ( Flutt í EM messu í Akureyrarkirkju)

Published inPistlar