Lesa meiraTrúarjátning unglings "/> Skip to content

Trúarjátning unglings

Ég var að hlýða fermingarbörnum yfir Postullegu trúarjátninguna í dag sem er satt best að segja svolítið eins og að klæða skírnarbarn í fermingarkyrtil. Unglingar þyrftu kannski að eiga sína eigin trúarjátningu, svona fyrst um sinn.
Kannski eitthvað í ætt við þetta:
Trúarjátning unglings.
Ég trúi á Guð því eftir langa skólaviku kemur helgi og þá fæ ég að sofa út og þegar ég vakna má ég borða ristað brauð með Nutella súkkulaði og horfa á enska boltann, bara af því að það er helgi og þá má gera sér dagamun.
Ég trúi á Guð því hann gaf mönnum vit til að finna upp Playstation, Snapchat og Youtube en líka íþróttir sem hafa fært mér vini og stóra sigra.
Ég trúi á Guð af því að nýi stærðfræðikennarinn minn er svo flinkur að útskýra almenn brot að ég kvíði ekki lengur vorprófunum.
Ég trúi á Guð því þótt mamma og pabbi séu skilin eru þau samt vinir og tala vel um hvort annað.
Ég trúi á Guð af því að mamma segir að hann elski mig jafn mikið og hún og muni ekki hætta því þótt ég brjóti röndótta hönnunarvasann úr Epal sem ég ætla mér auðvitað ekki að gera þó ég noti skó númer 47 og sé alltaf að reka mig í sófaborðið.
Ég trúi á Guð af því að ég bý í landi þar sem ríkir friður og fólk má vera allskonar því náttúran er allskonar og þess vegna er landið svona fallegt og vinsælt meðal ferðamanna, galar Malla móðursystir “sem fann upp slagorðin” segir pabbi.
Ég trúi á Guð af því að lífið er víst gjöf segir amma og ég man ekki til þess að einhver hafi gefið mér stærri pakka, ekki einu sinni pabbi þegar við fórum tveir á Anfield og sáum Liverpool vinna Everton og hann fékk tár í augun og sagðist vera kominn til himna.
Ég trúi á Guð af því að ég er fjórtán ára með fílapensla á nefinu en fæ samt mökk af lækum þegar ég set myndir af mér á Facebook.
Ég trúi á Guð af því að ég er fara að fermast, ekki bara út af gjöfunum heldur vegna þess að mér finnst Gullna reglan hans Jesú góð og mig langar til að kynnast gaurnum betur.

Published inPistlar