Lesa meiraReykjavíkurdætur "/> Skip to content

Reykjavíkurdætur

Ég hef aldrei heyrt um að Jesús hafi orðið hneykslaður. Samkvæmt guðspjöllunum varð hann reiður, sár og þreyttur, hann grét en var aldrei hneykslaður. Ef maður pælir í því þá er heldur ekkert gagnlegt að hneykslast, skilar engu nema sóun á dýrmætum tíma, það fæðist engin niðurstaða af hneyksluninni. Reiðin getur hins vegar verið gagnleg og jafnvel falleg, sérstaklega þegar hún kviknar af ríkri réttlætiskennd sem er borin uppi af djúpri samkennd. Og grátur er ekkert annað en móðir mannlegra tilfinninga, grátur er meðal annars staðfesting á ást,þakklæti og samúð.
Ég varð vitni að tónlistaratriði Reykjavíkurdætra síðastliðið föstudagskvöld í sjónvarpsþættinum hans Gísla Marteins. Ég viðurkenni að hafa ekki rýnt mikið í efnisleg atriði lagsins en man að ég hugsaði samt á einhverjum tímapunkti að það væri orðið svolítið langt enda var ég að bíða eftir næsta þætti af Barnaby lögreglufulltrúa, ég er nefnilega orðin svolítið miðaldra og farin að meta svona rólega sakamálaþætti þar sem illskan er sett fram með “kúltiveruðum” hætti. Lífstakturinn er að breytast hjá mér, sérstaklega eftir að ég hætti að drekka áfengi, nú er tungsófinn minn nýi elskhugi og M&M andlegur stuðningsfulltrúi. Þetta er auðvitað ógnvekjandi og þess vegna varð ég töluvert fegin að uppgötva að atriði Reykjavíkurdætra hefði ekki hneykslað mig og ég jafnvel ekki áttað mig á að þarna væri um tímamót í íslenskri sjónvarpssögu að ræða.
Einhvern veginn fannst mér þetta söngatriði bara í takti við nýja tíma, unga kynslóðin er opin um allt milli himins og jarðar, þetta er kynslóðin sem notar óheflaðar aðferðir við að brjóta niður múra og koma samfélaginu í skilning um að skömm veldur ekki bara aðgreiningu heldur skapar hún líka óréttlæti og kúgun, skömmin veikir okkur andlega og líkamlega. Að mínu mati var ekkert í þessu atriði sem ætti að geta grafið undan öryggi áhorfenda eða snúið lífi þeirra á hvolf, þarna voru einhverjar tilvísanir í kynlíf sem fólk þarf eiginlega að hafa prófað sjálft til að skilja og setja í samhengi. Ég hugsa að það sé tiltölulega auðvelt að finna sambærilegt atriði á venjulegu þorrablóti í íslenskri sveit, nema þar eru flestir undir áhrifum áfengis og aldurstakmark heil 16 ár.
Við erum öll að hugsa um kynlíf, já á hverjum einasta degi, sumir oft á dag, ég er endalaust að tala um kynlíf við fólk í mínu starfi sem prestur, samt látum við alltaf eins og það tilheyri einhverjum minnihlutahópi í samfélaginu og því er einmitt þessi unga kynslóð að ögra, þetta er kynslóðin sem þolir illa tvískinnung. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því sem er sjónvarpað í beinni útsendingu og er bara nákvæmlega það sem það lítur út fyrir að vera. Við þurfum hins vegar að hafa áhyggjur af því sem gerist bak við luktar dyr inn á heimilum þar sem angistin kafnar í hljóðu öskri. Það er eitthvað sem við þurfum að tala um og finna úrræði gegn. Það er alveg glatað að eyða dýrmætri orku í að hneykslast því að hneykslun er ekkert annað en að fría sig ábyrgð gagnvart því sem varðar okkur öll með einum eða öðrum hætti.

Published inPistlar