Lesa meiraEurovisionprédikun "/> Skip to content

Eurovisionprédikun

Bænin er sögð andardráttur trúarinnar, á sama hátt mætti segja að listsköpun sé súrefni allra samfélaga. Við tölum um að njóta menningar og lista, það er gott og gilt en þó ekki eini tilgangurinn, listin er líka til þess fallin að spegla sálarlíf okkar og hjálpa okkur að koma auga á allt hið sammmannlega í þessum heimi. Listin tjáir vilja til að stuðla að friði þótt hún geri það raunar oft með því að láta ófriðlega, ögra og jafnvel reiðast alveg eins og Jesús, þess vegna var Jesús einmitt bæði frelsari og listamaður, það má jafnvel líta svo á að hann hafi frelsað með list sinni.
Hvaða list okkur finnst góð er síðan allt annar handleggur og eitthvað sem jafn erfitt er að rökræða eins og kannski það að verða ástfanginn af annarri manneskju. Ef þú getur fært alveg köld rök fyrir makavali þínu þá veit ég ekki hvort ég fyllist meira aðdáun yfir því eða ótta.
Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva varð til í þeim tilgangi að sameina Evrópu sem var sundruð eftir seinna stríð. Fyrsta keppnin var haldin í Lugano í Sviss árið 1956, sjónvarpið var þá nýkomið til skjalanna og einnig Samband evrópskra sjónvarpsstöðva sem vildi bjóða upp á „létt skemmtiefni“ á þessum nýja miðli sem myndi hugsanlega sameina Evrópu og hjálpa örlítið til við að græða stríðssárin. Þá var þetta jafnframt fyrsta tilraun til að hafa beina sjónvarpsútsendingu á milli landa. Aðeins sjö lönd tóku þátt í þessari fyrstu keppni en það voru Þýskaland, Belgía, Ítalía, Luxemborg, Holland og Sviss (munnlegar heimildir Ingimar Björn Eydal Davíðsson). Síðan þá hafa fjölmörg lönd bæst í hópinn, þar á meðal Ísland sem í ár fagnar þrjátíu ára þátttökuafmæli. Ég hugsa að mörg okkar muni vel fyrsta framlagið Gleðibankann sem átti eftir að sigra hjörtu allra evrópubúa, að minnsta kosti allra evrópubúa á Íslandi.

Það er er dálítið merkilegt að hraðspóla yfir þau sextíu ár sem keppnin hefur verið haldin og þreifa á stemningunni í kringum hana í dag. Ef við bara skoðum umræðuna kringum keppnina hér heima er nokkuð auðvelt að súmmera upp orðræðu internetsins. Kaldhæðni, aðfinnslur og niðurrif er það sem stendur upp úr. Nú er eurovisiontónlist kannski ekki sú tegund tónlistar sem höfðar mest til mín en það breytir ekki því að mér finnst keppnin sem slík mjög skemmtilegt fyrirbæri. Ég hugsa að ég horfi á Eurovision eins og aðrir eða alla veganna sumir horfa á fótbolta, ég er spennt meðan á þessu stendur en næ alveg ágætum nætursvefni þrátt fyrir úrslitin, þau munu ekki stjórna geðslagi mínu næsta dag. Þó er því ekki neita að þessi keppni hefur fært okkur margar tónlistarperlur sem lifað hafa með Evrópu í marga áratugi, sumar þessar perlur hafa fengið nýjan texta eins og til dæmis Heyr mína bæn, lagið er ítalskt Eurovisionlag frá árinu 1964 en Ólafur Gaukur gerði ljóðið. Þetta er eitt af þessum lögum sem lifa góðu lífi enn í dag og er raunar mjög vinsælt við kirkjulegar athafnir, bæði við giftingar og útfarir, það er reyndar ágætur mælikvarði á gæði laga ef þau tala bæði inn í sorg og gleði. Árið 1970 unnu Írar með laginu All kinds of everything í flutningi söngkonunnar Dönu, á tímabili voru nú Írar eiginlega áskrifendur að sigrinum, Johnny Logan hefur unnið þrisvar sinnum og enginn skákað því meti enn sem komið er. Ég gleymi því aldrei þegar ég var stödd á einhverjum kirkjudögum í Hamburg í Þýskalandi fyrir nokkrum árum og var þá svona passlega áhugasöm fyrir dagskránni en á einhverri kvöldvöku sem var hluti af hátíðinni steig sjálfur meistari Johnny Logan á svið og söng alla sína slagara. Ég man að ég var smá vandræðaleg þegar ég uppgötvaði að ég var eini þátttakandinn á þessum kirkjudögum sem var að upplifa þetta sem eitthvert sérstakt móment. Ég er að segja ykkur að ég hefði sennilega ekki orðið jafn æst þótt páfinn hefði stigið þarna á svið, reyndar fannst mér mjög kúl þegar Angela Merkel ávarpaði lýðinn, stjörnur hátíðarinnar að mínu mati voru sem sagt Johnny Logan, Jesús og Angela Merkel, ekki samt endilega í þessari röð.
Þá er ekki annað hægt en að nefna sænska söngflokkinn Abba sem vann sem betur fer keppnina árið 1974 með laginu Waterloo, þvílíkt lán fyrir heimsbyggðina, kvikmyndaiðnaðinn og söngleikjaflóruna.

Ég er alveg heiðarleg með það að ég er ekki að fara að tengja Eurovision við guðspjall þessa sunnudags, það er sennilega of langsótt, svolítið eins og tengja jólaguðspjallið við Almar sem var nakinn í glerkassanum, ég meina hverjum myndi detta það í hug? Það er hins vegar áhugavert að bara skoða þá prédikun sem uppruni keppninnar er. Sú saga er í sjálfu sér mjög góð prédikun. Til keppninnar var stofnað með það að fyrir augum að uppörva þjóðir sem voru særðar, sundraðar og hræddar eftir stríðsátök og afskræmingu mennskunnar í öllum hugsanlegum myndum. Tónlistin á nefnilega greiðari leið að hjarta manneskjunnar en flest annað, tónlistin getur opnað á tilfinningar og brotið niður varnir sem auðveldara er að halda gagnvart orðum eða öðru atferli. Sumir fara bara að gráta um leið og þeir heyra eitthvert lag í útvarpinu, þótt þeir séu kannski bara staddir á Tax free dögum Hagkaup eins rómantískt og það hljómar en svona virkar tónlistin, hún er eins kona tilfinningalegur dávaldur. Þá er líka merkilegt að hugsa til þess hvernig sum tónlist lifir um aldir og áratugi á meðan önnur brennur út á stundinni eða innan nokkurra vikna. Þegar vel tekst til við sköpun tónlistar er eins og höfundurinn nái að fanga einhvern sammannlegan tón sem er tímalaus rétt eins og boðskapur Jesú eitthvað sem hefur sig yfir tíma og rúm og á erindi við mannssálina hver sem tíðarandinn er. Þannig er tónlistin á vissan hátt helg, hún er frátekin til að hlúa að mennskunni, rétt eins og trúin, trú og tónlist eiga mjög margt sameiginlegt enda verið samferða frá morgni tímans.
Það má vera að lögin í íslensku undankeppninni séu misgóð og búningar keppenda og kynna stundum skrýtnir svo vitnað sé í þá þætti sem helst hefur verið hæðst að á samfélagsmiðlum. Sjálf er ég svo sem ekkert háheilög í þeim efnum og get alveg hrokkið í þann gír eins og aðrir, hins vegar er kannski ágæt áminning fyrir okkur sem lifum í ótrúlega gjöfulu landi þar sem alltaf hefur ríkt friður að uppruni þessarar keppni sem við dundum okkur við að gera grín að skuli hafa haft sálgæslu og sameiningar hlutverk til að byrja með, til keppninnar var stofnað til að græða sár og gleðja andann á brothættum tímum
Það mætti alveg halda þeirri sögu á lofti og ekki bara þeirri sögu heldur þeirri staðreynd að á átakatímum í gegnum aldirnar hefur tónlistin verið fólki líkn með þraut, já eins og í hverri einustu útför sem fram fer í þessu húsi. Tónlistin er aldrei bara afþreying, hún er alltaf áhrifavaldur, hver svo sem áhrifin verða, hún er eins og andi sem þú skynjar en sérð ekki þess vegna er falleg tónlist ekkert annað en guðdómleg í bókstaflegri merkingu þess orðs.

Published inPistlar