Það er kona sem kemur hingað í kirkjuna á kyrrðarstundir í hádeginu á fimmtudögum og hefur raunar komið í mörg ár sem hefur einstakt lag á því að segja alltaf eitthvað fallegt við samferðarfólk sitt þegar stundinni lýkur. Reyndar er það ekki bara það sem hún segir sem skiptir máli heldur ekki síður hvernig hún segir það. Hún horfir alltaf í augu manns eins og maður sé eina manneskjan í heiminum sem þurfi á uppörvun að halda, stundum er hún örlítið voteygð af hrifnæmi sem gerir það að verkum að maður veit að hún er virkilega að meina það sem hún er að segja og að það sem hún segir kviknar af trú og kærleika. Þessi kona er ekki að tala um hvað maður sé í fallegum fötum eða hárgreiðslan sé fín eða maður hafi sagt gáfulega eða skemmtilega hluti á internetinu, nei hún segir frekar eitthvað á þessa leið„ það er mikið ljós í kringum þig, mundu að umvefja þig ljósinu“ stundum segir hún ekkert annað en „Takk“ en það takk hljómar einhvern veginn allt öðruvísi frá henni en öðrum sem ég þekki vegna þess að hún horfir alltaf svo fallega í augu manns. Mér dettur þessi kona strax í hug þegar ég les um hann Jóhannes skírara í guðspjalli dagsins. Það er nefnilega þannig að það er og verður aðeins til einn Jesús Kristur í veröldinni og enginn mannlegur máttur fær því sem betur fer breytt, enda væri eflaust búið að reyna það ef hægt væri. Jóhannes skírari er hins vegar fleiri en einn og ég myndi segja að þessi vinkona mín væri hann. Ég myndi líka segja að það gæti verið á færi okkar allra að verða Jóhannes skírari í lífi og starfi ef við hreinlega óskum þess. Löngunin verður reyndar til fyrir margfeldisáhrif vegna þess að einn Jóhannes skírari hefur jafnan áhrif á að annar verði til. Því rétt eins og meitt fólk hefur tilhneigingu til að meiða annað fólk, elskar elskað fólk meira. Þess vegna er svo mikilvægt að við hlustum í raun og sanni á hann Jóhannes þegar hann mætir okkur.
Í síðustu kyrrðarstund fyrir jól tjáði títtnefnd kona sig meðal annars um bændurna sem voru þá í sárum sökum búsifja vegna óveðursins sem gekk þá yfir landið og tengdi hún þá strax við fjárhirðana sem fyrstir komu að jötu Jesúbarnsins, hún var að hugsa um hvað það væri nú mikilvægt að boða bændunum huggun og frið eins og fjárhirðunum forðum á Betlehemsvöllum þegar þeir fundu barnið í fjárhúskofanum.
Bændur tengjast búfénaði sínum oft mjög sterkum böndum. Að ekki sé nú talað um hestinn sem maðurinn nær oft svo sérstökum og nánum tengslum við. Ég hafði mikla samúð með bóndanum sem komst við í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins en hann hafði reynt allt hvað hann gat til að bjarga hestunum sínum undan fannferginu. Ég hafði hins vegar ekki hugsað þetta eins og vinkona mín, út frá fjárhirðunum og Jesú og dýrmæti þess að færa bændunum jólaguðspjallið út frá þeirra sjónarhóli og á þó að heita prestur, en það er hins vegar allt í lagi ef maður bara fattar að hlusta á Jóhannesi skírara út í samfélaginu, það er enginn að ætlast til að maður viti allt heldur hlusti. Vandi okkar mannanna í hnotskurn er að við tölum miklu miklu meira en við hlustum. Það er í raun alheimsvandi mannanna.
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð en síðan þarna í upphafinu höfum við orðið æ uppteknari að því að hafa orðið af Guði og hreinlega kjafta hann í kaf. Í raun virðist það vera kappsmál okkar í dag að kjafta Guð skapara himins og jarðar í kaf. Mannkyn dagsins í dag veit allt betur en Guð og nær að koma þeim boðskap sínum áleiðis í síbylju allrahandanna miðla sem myndi æra óstöðugan að þylja upp hér. Hvað eru annars margir hérna í kirkjunni sem vita hvað Tik talk er? Nei það er sem sagt einhver nýr samfélagsmiðill sem að börnin okkar eru löngu búin að uppgötva, svo dæmi sé tekið. Facebook er sko að breytast í Árnastofnun miðað við allt sem er komið síðan það var stofnað. Bara svo þið vitið.
Nei maðurinn er kominn með mýgrút af miðlum til að kjafta Guð í kaf og á meðan hann finnur sér nýjan og nýjan vettvang þjáist Guð í sköpun sinni. Ljósið flöktir til og frá í myrkri manngerðra ógna, manngerðra loftslagsbreytinga, manngerðra styrjalda, manngerðs flóttamannavanda, manngerðs misskiptingar auðs og auðlinda, já meðal annars hér í okkar landi og út frá okkar landi.
Hver skyldi vera grunnástæða þess að við þurfum að kjafta Guð og sköpunarverkið hans í kaf? Getur það verið vegna þess að við erum öll á einhvers konar flótta og hirðum ekki um að staldra við eins og María og Jósep forðum sem bárust fyrir í fjárhúsi nóttina sem frelsarinn fæddist svo að allskonar fólk af öllum stéttum mætti eignast hlutdeild í ljósinu. Við erum öll á flótta og fátt sem fær okkur til að staldra við, stundum ekki einu sinni fæðing barns. Við erum jú það spendýr sem hefur hvað mesta hæfni og getu til að flýja tilfinningar sínar, til dæmis með áfengi, tóbaki, pillum, mat, kaupum, spilum, stjórnsemi, vinnu, órökstuddri meiðandi orðræðu um náungann, internetinu, símanum…..svo aðeins fátt eitt sé nefnt.
En svo eru það þessir Jóhannesar skírarar allt í kringum okkar, sumir mæta þér í næstu götu, eða í kirkjunni eins og vinkona mín af kyrrðarstundunum, aðrir ávarpa alla veröldina í einu líkt og Gréta Thunberg, með ekkert nema sannfæringuna og hugrekkið að vopni, barn sem kemur til að vitna um ljósið og vekja okkur til trúar á það, stendur ein í eyðimörkinni og prédikar eins og Jóhannes forðum. Og sumum finnst hún skrýtinn, reið og svartsýn, þó helst þeir ráðamenn sem hafa persónlegan pólitískan ávinning af því að draga orð hennar í efa. Mér finnst einhvern veginn eins og geta okkar til að hlusta á merkingarbær orð verði sífellt minni og minni og að skírarnir í eyðimörkinni séu fljótt þaggaðir niður af sandstormi síbyljunnar á ört fjölgandi samfélagsmiðlum. Þar gilda ekki gæðin heldur magnið.
Orð eru stundum svipuhögg
valda jafnvel hárlosi
vöðvabólgu
gigt,
frumubreytingum,
efnabreytingum,
umbreytingum,
hrörnun
elli
dauða,
en líka
upprisu
upprisa er orð
og orð eru til alls fyrst
( Líkn. HEB. 2019)
Og Orðið varð hold, hann bjó með okkur, fullur náðar og sannleika og við sáum dýrð hans.
Orðið fæddist í Betlehem, orðið var hvítvoðungur í fjárhúskofa, orðið er inntak jólanna, ljósið sem skín í myrkrinu, orðið um að elska mannfólk, dýr og náttúru að fyrra bragði vegna þess að aðeins elskaðar manneskjur læra að elska og elskuð náttúra fóstrar elskaðar manneskjur til framtíðar. Elskað fólk þarf ekkert að flýja, elskað fólk kann að hlusta, elskað fólk þarf minna dót, elskað fólk þarf alls ekkert dóp, elskað fólk er jata Jesúbarnsins, elskað fólk heldur áfram að skapa með Guði og hlusta.
Gleðileg jól