Lesa meiraHátíðartuð "/> Skip to content

Hátíðartuð

Það er þetta með að upplifa allskonar og ólíkar tilfinningar á sama andartaki,  tilfinningar eins og gleði og sorg, ótta og dirfsku, tilhlökkun og trega. Jólin eru á vissan hátt mekka hinna ólíku og andstæðu tilfinninga.

Bernskujólin mín heima í Laufási við Eyjafjörð eru í minningunni björt og fögur og hlý, hafa jafnvel yfir sér ævintýralegan blæ. Staðurinn Laufás í vetrarklæðum var oft eins og klipptur út úr einhverju gömlu jóladagatali. Snjóhengjur slúttu fram af burstum torfbæjarins svo minnti á risavaxið piparkökuhús sem óviti hefur makað hvítum glassúr. Kirkjan og grafreitirnir í kringum hana, himnaríki í fannferginu, íslenskt Betlehem á jólum. Aldrei var ég ótta slegin sem barn að ganga um þennan stað, hvort heldur sem var að nóttu eða degi. Mamma og pabbi voru mikil jólabörn og mjög samtaka í að skapa stemningu inn á heimilinu, á aðventunni fannst mér alltaf eins og þau hlökkuðu jafn mikið til jólanna og barnið ég. Sennilega varðveittu þau barnið innra með sér og samt veit ég fyrir víst að bernskujól beggja voru ekkert endilega alltaf auðveld. Mamma átti föður sem var loftskeytamaður hjá Eimskipafélaginu og var oft í millilanda siglingum yfir hátíðar, yfir heimilinu lá angurbitið andrúmsloft, ekki h síst á ófriðartímum en afi sigldi í seinni heimstyrjöldinni og tilhugsunin um að hann kæmi aldrei heim var hreint alls ekki langsótt. Ég man meira að segja sjálf frásagnir hans af tundurskeytum og tundurspillum í siglingum hans í stríðinu. Stundum var jólunum frestað þangað til hann var kominn heim og jafnvel þá haldin seint í janúar þegar öll fjölskyldan gat sameinast í kringum veisluborðið, jólatréð stóð þá lengur uppi en í öðrum húsum og afi fór fram á að í kringum það væri dansað og sungið. Afi var nefnilega mikill stemningsmaður og jólabarn þótt ekki væru alltaf jólin út á hafi.

Bernskuheimili föður míns var hér á Akureyri og töluvert ólíkt mömmu því pabbi átti bara eitt systkini á lífi, hana Ingu frænku en mamma átti níu. Móðir pabba var mjög lífsglöð og hláturmild kona er mér sagt en hún lést nokkru áður en ég leit heiminn í fyrsta sinn. Ömmu Hlín þekkti ég einungis af afspurn. Hún var hjartveik frá því um fertugt og lést rúmlega sextug að aldri. Þessi veikindi sem og sorg ömmu vegna barnsmissis, en bróðir pabba lést nokkurra mánaða úr óþekktu meini, höfðu að vonum mótandi áhrif á pabba í uppvextinum og mér fannst alltaf eins og jólin væri örlítið endurskin af þessari reynslu hans.

Jólin heima í Laufási einkenndust af fjölmenni og fjörlegheitum, við systkininum erum sex að tölu og þegar ég er barn eru elstu systkini mín farin að koma heim með tengdabörn og barnabörn. Að auki voru frænkur tvær órjúfanlegur hluti af heimilishaldinu yfir hátíðarnar. Gerður ömmusystir mín sem bjó hér í Oddeyrargötunni og vann lengi við bókband í POB en hún var fædd árið 1906 og lést fyrir næstum þrjátíu árum og Inga systir pabba sem bjó þá á Kristnesi og starfaði sem sjúkraliði. Þær voru báðar ógiftar og barnlausar en áttu okkur systkinin í staðinn og við þær. Við Gerður frænka mín eða Dæja eins og hún var alltaf kölluð deildum herbergi saman og ég vandist því að hún notaði náttgagn sem hún geymdi undir rúmi, hún skipti líka um kjól þrisvar á dag, það fannst mér alveg magnað.

Það besta við þessar töntur mínar tvær á jólum var hverstu árrisular þær voru. Ég man hvað mér fannst gott að vita af einhverjum niður  í eldshúsi fyrir klukkan sjö á aðfangadagsmorgni þegar ég reif mig upp í sturlaðri tilhökkun fyrir kvöldinu. Á þeim tíma var aðfangadagur fordyri eilífðarinnar í huga mínum. Þá var nú gott að Inga og Dæja voru búnar að hella upp á kaffi og kveikja á útvarpinu og tóku mesta kúfinn af hraðaspurningum barnsins um hvernig dagurinn gæti í besta falli liðið án þess að það tapaði glórunni.

En ég man líka eftir töntunum tveimur við uppvaskið eftir jólamatinn, það sem þær gátu tuðað í hvor annarri og má þá þakka fyrir að Bing og Gröndal stellið hennar mömmu bar þess ekki merki. Ég man pabba glotta yfir samvinnu þeirra tveggja og eiginlega var þetta uppvöskunartuð farið að verða órjúfanlegur hluti af jólahaldi okkar. Hátíðartuð Ingu og Dæju. Ekki rekur mig minni til inntaksins í tuðinu en svona þegar ég lít um öxl sé ég tvær þreyttar konur sem voru kannski að fá útrás fyrir eitthvað dýpra, eitthvað sem aldrei var sagt. Kannski  gamlar sorgir.

Ég man ekki betur en Dæja frænka hafi misst föður sinn á jólum og að hún hafi rakið þann atburð fyrir mér þegar ég var forvitið barn í heimsókn hjá henni í Oddeyrargötunni. Ætli ég hafi ekki spurt þar til tárin tóku að streyma niður magra vanga hennar uns þau settust í hrukkurnar líkt og regn á steinklæddum kirkjuvegg. Hún gekk með þykk hornspangagleraugu sem gerðu alvörugefin augu hennar enn minni og enn alvarlegri.

Í minningunni voru bernskujólin mín yndisleg, þegar ég hins vegar lít til baka sé ég betur og betur hversu ljúfsár þau jafnframt voru. Ja kannski eins og öll jól á öllum heimilum. Þegar ég lít um öxl greini ég háttarlag alls fullorðna fólksins sem var að skapa mér þessa fegurð og þetta skjól

Í huganum get ég þrátt fyrir alla gleði kallað fram svipbrigði og háttarlag foreldra minna og frænkna sem segja mér að sorgin var líka bakrödd í jólahaldinu hvort sem það birtist í tuðinu við uppvaskið eða í þögninni hans pabba sem varaði alltaf dálitla stund á hverju aðfangadagskvöldi. Mér fannst hún kannski ekki beint óþægileg en ég veitti henni samt athygli, það var svolítið eins og hann hyrfi inn í annan heim. Kannski að við gerum það öll þegar líða tekur á ævina.

Jólin eru ljúfsár tími. Þú getur rétt ímyndað þér allar þær ólíku tilfinningar sem hafa bærst innra með þeim Maríu og Jósep á leið frá Nasaret til Betlehem, að ekki sé talað um þegar barnið var fætt í fjárhúskofanum. Það þarf enginn að ímynda sér að gleðin ein hafi verið við völd þótt þau hafi lifað hrakningarnar af og ógnina sem vofði yfir.

En af hverju er ég að tala um þetta og lýsa þessu andrúmslofti andstæðra tilfinninga á sjálfu aðfangadagskvöldi þegar allir eiga að vera glaðir? Jú vegna þess að í gegnum tíðina hef ég svo oft upplifað syrgjendur tala um að þeir óski þess helst að jólin fljóti framhjá þeim þar sem þeir finni sig ekki geta tekið þátt eins og ætlast er til. Þegar ég tala um syrgjendur þá er ég bara að tala um allskonar fólk sem hefur gengið í gegnum allskonar sorgir, ekki bara ástvinamissi heldur allskonar erfið tímamót og breytingar. Hér í kirkjunni í kvöld eru margir að fást við allskonar sárar tilfinningar þrátt fyrir að vera uppáfærðir í sitt fínasta púss og tilbúnir að halda jól með tilbehör þegar messu lýkur. Á endanum á þetta við um okkur öll.

Kjarnaboðskapur Jesú á jólum er eftirfarandi: Huggun, umhyggja, ást. Jólin eru tími græðslu þar sem við styrkjum tengsl við ástvini, lífs og liðna, eða hvað erum við annað að gera þegar við vitjum grafreita í kirkjugarðinum á aðfangadag?

Jólin eru ekki kokteilboð ársins eða verðlaunaafhending fyrir vel unnin störf, þau er græðsla tilfinninga, umönnun tengsla og sjálfsskoðun. Þar á eftir koma svo hefðir, skraut, gjafir, þrif, já nákvæmlega í þessari röð.

Guð blessi ykkur helga hátíð, munið að hlúa að því sem mestu skiptir og munið að veita öllum tilfinningum rými á hátíð sem er fyrst og síðast tileinkuð því mannlega.

Á jólum gerðist Guð maður til að segja: Þú mátt vera sá eða sú sem þú ert hér og nú, akkúrat á þessu andartaki. Gleðileg jól

 

 

Published inHugleiðingar