Skip to content

Örhugleiðing um sorg og jól

Við elskum, þess vegna syrgjum við. Ef til vill er sorgin sannasta birtingarmynd elskunnar. Það er svo mikilvægt að minna sig reglulega á það þegar ástvinur er kvaddur og við tekur líf í breyttri mynd. Að minna sig á að sorgin er ást en ekki dauði, sorgin er upprisa ekki krossfesting, mennska ekki vonska, sorgin er afkvæmi alls þess besta sem fólgið er í sálu mannsins. Hún er djúpstætt þakklæti, nautsterk tengsl, hnausþykk umhyggja, alheims viska, naflastrengurinn við guðdóminn. Sorgin er sannleikurinn sjálfur sem býr innra með okkur, í hjörtum okkar.

Jólin eru í nánd, hátíð sannleikans og því einnig hátíð sorgarinnar, þegar við umvefjum reynslu okkar, ástvinamissi og söknuð reifum, leggjum í jötu og lútum höfði, sameinumst í kærleikanum hvert til annars og leyfum barninu að  leiða okkur í visku sinni. Jólin eru huggun harmi gegn ef við einblínum á kjarnaboðskap þeirra.

Published inHugleiðingar