Unnusti minn er ekkill, missti eiginkonu sína úr krabbameini fyrir rúmum þremur árum. Ég annaðist útför hennar sem prestur, síðar hittumst við aftur, ég og ekkillinn og felldum hugi saman. Kannski svolítið óvenjuleg saga, en lífið hefur líka tilhneigingu til að vera nokkuð óvenjulegt. Sennilega eru það bara við manneskjurnar sem höfum einhverjar óljósar hugmyndir um að það eigi að vera venjulegt og vitum samt ekkert hvað það þýðir að vera venjuleg. Um það leyti sem við hófum okkar samband kom í ljós að eldri dóttir unnustans ætti von á barni. Samband okkar hefur því þróast samhliða einni meðgöngu. Við fundum ást okkar stækka eins og barn í móðurkviði. Á litríkum haustdegi fæddist lítil stúlka, yndisleg og fullkomin með tíu fingur og tíu tær, ákveðið, athugult augnaráð, kyrru í nýfæddri sál, hvítri sem ölbu. Síðastliðinn sunnudag var hún færð til skírnar, stjúpamman jós hana vatni eilífs lífs, föðuramman þerraði tár á fremsta bekk, móðuramman sáluga tyllti sér hljóðlega inn í hjörtu okkar á meðan söngurinn ómaði í kirkjunni „Þú kveiktir von um veröld betri, mín von hún óx með þér, það er svo undarlegt að elska, að finna aftur til, að merkja nýjar kenndir kvikna, að kunna á því skil, hvernig lífið vex og dafnar í myrkrinu…..Þitt fyrsta bros, þín fyrstu skref, þitt fyrsta orð, þín fyrstu tár, þín fyrsta sorg, þín fyrsta hrösun. Þín fyrsta ást, þinn fyrsti koss, þitt fyrsta ljóð. Mér finnst þú munir fæða allan heiminn alveg upp á nýtt. Og við grétum vegna þess að lífið er stundum of sárt til að gráta þegar það er sem sárast.
En Guð sendir okkur styrk í litlu barni, það er jú hans háttur frá upphafi tímans og við grátum af þakklæti og feginleika, sorg og gleði með einu og sömu tárunum. Kannski er skírnalaugin einmitt táraflóð, þar sem Guð og menn sameinast í voninni og barnið fæðir allan heiminn, alveg upp á nýtt.