Lesa meiraAð læra ást "/> Skip to content

Að læra ást

Ég held að það sé raunverulega hægt að fara í gegnum heila mannsævi án þess að kunna að elska. Það er skelfing vont. Vont getur samt vanist ótrúlega fljótt.

Ég held að það sé raunverulega hægt að ná heilmiklum árangri í lífinu án þess að kunna að elska, að það sé alveg hægt að öðlast starfsframa, eignast fjölskyldu, vera foreldri og jafnvel líta hamingjusamlega út á samfélagsmiðlum, án þess að kunna að elska. Ég held einnig að til séu margir góðir foreldrar, að minnsta kosti mjög vel meinandi foreldrar sem koma börnum sínum til manns þannig að þau njóti hagsældar án þess að hafa nokkurn tíma í raun lært af foreldrum sínum þá list að elska. Að sama skapi held ég að ástæða þess að manneskjan upplifi svo oft djúpstæða óhamingju í lífinu þrátt fyrir að hafa öll sýnileg gæði sé vegna þess að henni hefur ekki verið kennt að elska.

Eins undarlega og það kann að hljóma þá þarf nefnilega að kenna okkur mannfólkinu að elska, allt frá þeirri stundu er við grípum fyrsta andardráttinn og naflastrengurinn er klipptur. Listin að elska er ekki meðfædd, ekki frekar en það að kunna að klæða sig eða borða mat með hníf og gaffli. Þráin og þörfin eftir að vera elskuð er hins vegar meðfædd, rétt eins og geta okkar til að syrgja. Ungabarn getur kannski ekki rifjað upp minningar um látinn ástvin en það getur saknað lyktar, nærveru og hljóðs og þess vegna verið jafn mikill syrgjandi og við sem eldri erum. Á sama hátt hefur barnið meðfædda þörf fyrir að vera elskað jafnvel þótt það geti ekki fyrir sitt litla líf formað hugtakið ÁST með orðum eða athöfnum.

Enginn fæðist án þess að þurfa ást, það er eitt af því fáa sem er öruggt í þessu lífi… og samt…..erum við svo mörg sem kunnum ekki að elska.

En hvað er það þá að kunna að elska? Eða öllu heldur hvað er það að vera elskaður? Og hvers vegna geta engin önnur lífsgæði gert okkur hamingjusöm ef við erum ekki elskuð, hvort heldur sem er vegna vankunnáttu eða skorts á tengslum?

Að vera elskaður, er að vera öruggur. Ekki þannig að maður hafi allt á hreinu, ekki þannig að engin óvissa ríki um framtíðina, ekki þannig að maður verði aldrei óttasleginn eða kvíðinn, öfundsjúkur eða leiður. Nei öryggi elskunnar er fólgið í því að finna að maður megi stundum vera vanmáttugur og aumur án þess að upplifa að lífsgrundvöllurinn sé horfinn. Ef við snúum þessu við, þá hljómar það kannski ekki jafn dramatískt, það er, að lífsgrundvöllurinn sé á endanum ekki byggður á afrekum manns né ásýnd. Þetta er nokkuð sem er ekki nóg að læra upp á eigin spýtur eða lesa sér til um þegar maður er orðinn fullorðinn, þetta atriði er það allra mikilvægasta sem nánustu aðstandendur kenna barni frá fyrsta degi. Ástæða þess að svo margt fullorðið fólk er óhamingjusamt þrátt fyrir að eiga hús og bíl og eggið frá Arne Jacobsen er þessi, að það gleymdist að fylla það öryggi elskunnar í uppvextinum. Það fékk nóg að borða, föt, húsaskjól, hvatningu, uppörvun, félagsskap, menntun, tómstundir, leikföng, utanlandsferðir og útilegur, það var alltaf kvittað fyrir lesturinn á vegum skólans og allar árshátíðir teknar upp á stafrænt form. Ekkert virtist skorta. Og samt er þetta fullorðna barn, kvíðið, þunglynt, drykkfellt, stjórnsamt og meðvirkt.

Að kenna ást, er að iðka ást. Við verðum að koma börnunum okkar í skilning um það hvern einasta dag að við elskum þau. Þegar barnið fer í próf, segðu þá upphátt að þú hafir fulla trú á því, að þú hafir séð hvernig það undirbjó sig vel en að aðdáun þín og elska velti ekki á því hvaða einkunn það muni fá út úr prófinu. Þetta hljómar kannski væmið en ef þú meinar það sem þú segir, þá verður það ekki væmið.  Þegar barnið þitt spilar fótboltaleik, horfðu þá á með áhuga, veittu hvatningu en ef leikurinn svo tapast, byrjaðu þá á því að faðma barnið og segja því að þú elskir það í stað þess að röfla um frammistöðu í leik hjá litlu barni og plís ekki bölva þjálfara eða dómara, barnið þitt gæti sjálft átt eftir að verða þjálfari nú eða dómari. Vertu bara áhugasamur á hliðarlínunni, það skiptir ekki máli hvort barnið skorar eða ekki, þú ert hvort eð er ekki að greiða æfingagjöld fyrir árangur heldur fyrir heilsu barnsins þíns og félagsþroska. Þú ert í rauninni að greiða fyrir forvarnir.

Þegar hringt er heim frá skólanum með umkvartanir vegna hegðunar barnsins á skólatíma, ekki byrja þá á því að skammast, byrjaðu frekar á því að segja við barnið hvað þú hafir einmitt mikla trú á því, að þú sem ástvinur þekkir styrkleika barnsins og vitir þess vegna að hegðunin í skólanum enduspegli ekki persónu þess. Spurðu svo næst hvort einhver vanlíðan valdi því að barnið hafi hegðað sér með neikvæðum hætti innan skólans. Reyndu að komast að ástæðu hegðunarinnar, nú og ef í ljós kemur að barnið þitt er hreinlega siðblint, þá þarftu sennilega að lesa eitthvað meira og ítarlegra en þennan pistil.

Ekki byrja á að skammast út í skólann eða önnur börn eða aðra foreldra eða barnið sjálft. Láttu barnið þitt finna að það sé mennskt að gera mistök og að mistök þýði ekki að allt sé bara ónýtt, í þeirri fullvissu er nefnilega fólgin raunveruleg elska og þar af leiðandi öryggi og svo er það nú einu sinni þannig að elskuð manneskja særir síður, þess vegna er aldrei hægt að elska barn til vondrar breytni. Aldrei hægt að elska of heitt eða of mikið.

Að lokum þetta. Ég held að það eina sem í raun geti komið í veg fyrir að heimurinn farist sökum græðgi, loftslagsbreytinga og almennrar heimsku sé ekki að birta nógu margar háðmyndir af stjórnmálaleiðtogum á facebook eða pósta gullkornum eða kenna ástvinum samskipti undir rós,  heldur sé það eina sem dugi, nógu mikil ást, nógu mikið öryggi.

 

Published inHugleiðingar