Horft um öxl árið 2020.
Manstu bláan opal
Manstu fótanuddtækið í sama lit
Manstu Húsið á sléttunni
Manstu Sunnudagshugvekjuna í sjónvarpinu
Manstu Bryndísi Schram og Ladda í Stundinni okkar
Manstu Prins Póló í gömlu umbúðunum
Manstu veginn um Öxnadalsheiðina áður en hann var lækkaður
Manstu sveitaböllin í Víkurröst og Ýdölum
Manstu Vigdísi forseta
Manstu fimmstafa símanúmerin, mitt var 33106
Manstu Sinalco og Tab
Manstu Foreldraröltið um helgar á Akureyri
Manstu Dynheima
Manstu hamborgarana á Krókeyrarstöðinni
Manstu veginn yfir Vaðlaheiði
Manstu ávísanaheftið
Manstu skyldusparnaðinum
Manstu leikfangaverslun Sigurðar Guðmundssonar
Manstu lakkrísreimarnar í Amaro
Manstu börn að leik áður en snjallsímar komu til sögunnar
Manstu útileikina Yfir, Eina krónu og Hlaupa í skarðið
Manstu Bjarna Fel og augabrúnirnar hans í íþróttafréttunum
Manstu tíu lítra mjólkurkassana með rauða tappanum
Manstu þulurnar í sjónvarpinu
Manstu ávarp útvarpsstjóra á gamlárskvöld
Manstu sjoppuna í Vaglaskógi
Manstu jólakortin
Manstu íslenskar kvikmyndir þegar þær fjölluðu um galið fólk í sveitum og einhvern mann sem Egill Ólafsson lék
Manstu Akraborgina
Manstu Bubba með hár
Manstu þegar fólk hringdi í stað þess að senda skilaboð
Manstu þegar fólk kom óvænt í heimsókn
Manstu?
Horft um öxl árið 2075
Manstu Guðna forseta
Manstu sokkana hans Guðna forseta
Manstu þegar allir urðu rapparar á Íslandi og Björgvin Halldórsson gaf út jólalag með Herra Hnetusmjör
Manstu Facebook
Manstu Instagram
Manstu þegar fólk þurfti að halda á farsímunum í stað þess að hafa þá ígrædda í heilann
Manstu Metoo byltinguna af því í gamla daga var kynferðislegt ofbeldi þaggað niður
Manstu þegar það þótti merkilegt að kona væri forsætisráðherra
Manstu Gretu Thunberg, auðvitað manstu hana, annars værum við kannski ekki hér í dag
Manstu þegar allir áttu bíla
Manstu flugelda
Manstu Donald Trump, þú mátt sko aldrei í lífinu gleyma honum
Manstu álver
Manstu plastpoka
Manstu þegar fólk gat erft kvóta
Manstu samfélagsmiðlastjörnur
Manstu þegar fólk fór aftur að fara í heimsóknir
Manstu stríðið í Sýrlandi
Manstu hamborgarhrygginn sem var borðaður á jólum
Manstu virka í athugasemdum
Manstu?
Tími þýðir breytingar. Þess vegna er tíminn aldrei bara ljúfur og heldur ekki bara sár. Tíminn er ljúfsár. Að lifa er að breytast. Ég stend í þeirri trú að eina leiðin til að lifa í sátt og í jafnvægi sé að gangast við því að lífið sé breytingum háð. Hinn djúpstæði tilvistarkvíði mannsins býr í óttanum við breytingar, reiðin býr einnig í óttanum við breytingar og hatrið líka. Óttinn við breytingar er óttinn við dauðann, þegar lífið tekur stakkaskiptum finnst manninum hann færast nær endalokunum. Þess vegna skiptir öllu máli, fyrir allar framfarir í heiminum að maðurinn hætti að vera hræddur, að manneskjan nái sáttum við þá tilhugsun að lífið sé ferðalag, landamæri, tímabelti, breytilegt veðurfar og loks brotthvarf. Allt í lífinu er hverfult, næsta aldna manneskja sem þú lítur augum er staðfesting þess. Allt mun breytast, maðurinn, vísindin, þekkingin, kirkjan, atvinnulífið, menning og listir, tæknin, samgöngur. Í öllum þessum ólgusjó breytinga þar sem stærsta áskorun mannsins er að spyrna ekki við fótum sökum dauðaangistar heldur fremur af réttlætiskennd eða hugsjón gagnvart sköpuninni allri nú og til framtíðar, þá skiptir svo miklu máli að boða trú. Já eftir því sem breytingarnar verða hraðari og stærri, skiptir trú meira máli. Í hinum dýrmæta pistli dagsins úr Galatabréfinu segir: Þannig hefur lögmálið orðið tyftari okkar þangað til Kristur kom til þess að við réttlættumst af trú. En nú, eftir að trúin er komin, erum við ekki lengur undir tyftara.
Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú
Tyftunin sem postulinn talar hér um er skömmin sem myndar gjá á milli manna, hún er ekki bara sársaukafull heldur líka stórhættuleg, skömmin er dauðinn í lifanda lífi, aflið sem eyðir kærleikanum, skemmir mannleg tengsl, að ekki sé nú talað um tengslin sem við þurfum að eiga við okkur sjálf. Skömmin eða tyftunin skapar hinn vanrækta mann sem stöðugt finnur til undan lífinu hvort sem það reynist honum gott eða slæmt, hann getur ekki orðið hamingjusamur fyrr en hann frelsast undan skömminni. Skömmin er fangaklefi hjartans. Skömmin fer ekki í manngreinarálit, spyr ekki um menntun, stétt né stöðu, kyn né kynþátt. Skömmin er uppspretta fíknar, lyga og blekkinga. En taktu eftir að hér er skömm ekki það sama og að skammast sín því öll þurfum við kunna það þegar við hrösum. Skömmin sem hér um ræðir og postulinn kallar tyftun er skortur á kærleikanum sem segir þér að þú sér óhult, óhultur.
Í Kristi Jesú erum við öll eitt, umvafin þeim kærleika sem eyðir skömm. Guð gefi að sá kærleikur stækki á árinu 2020. Já Guð gefi að Jesús fá rými í samfélaginu til að elska úr okkur skömmina.