Lesa meiraKraftgallakynslóðin "/> Skip to content

Kraftgallakynslóðin

Ég er af kraftgallakynslóðinni, það er kynslóðin sem hékk í bænum á föstudagskvöldum íklædd kraftgöllum með hálfs líters gosflöskur í hendi. Innvolsið var ýmist Kaptain Morgan í kók eða vodka í sprite. Kraftgallakynslóðin leiddi af sér foreldrarölt, mömmur og pabbar brugðu sér í skærgul vesti og gengu um bæinn til að hirða upp ælandi unglinga og senda þá heim í lögreglufylgd. Kraftgallar heyra næstum því sögunni til og unglingadrykkja hefur að sama skapi minnkað. Í  upphafi tíunda áratugarins var það næstum því samfélagslega samþykkt að íslenskir unglingar veltust kófdrukknir í snjósköflum og rúlluðu niður grasi grónar brekkur svo framarlega sem þeir voru bara sæmilegar klæddir, helst í kraftgöllum. Sumir foreldrar brugðu á það ráð að kaupa vín fyrir börnin sín svo þeir vissu hvað þau væru að drekka „ Jæja elskan hér er einn kraftgalli og vodkapeli, ekki drekka neitt sem þú veist ekki hvað er því það gæti verið tréspíri og þá verður þú blindur og það er svo leiðinlegt að verða blindur þegar maður er ekki nema fimmtán ára.“

Ég er af kraftgallakynslóðinni, foreldrar mínir keyptu að vísu ekki vín fyrir mig, ég þurfti að hafa svolítið fyrir þessu. Við vinkonurnar stálum t.d. gini frá pabba hennar og fylltum flöskuna upp með vatni ( sorrý Jón Bjarnason) það varð hins vegar að gerast í nokkrum hollum svo að það kæmist ekki upp. Það var allskonar vitleysa í gangi, kraftgallakynslóðin varð snemma mjög fullorðin, við vorum sjálfráða sextán ára og litum á það sem prófgráðu inn í heim hinna fullorðnu. Ég held að unglingar séu lengur börn í dag og það er gott, auðvitað eru ýmsar hættur í þeirra heimi en þau eru engu að síður ekki sömu villibörnin og við sem húktum niðrí bæ með sultardropa í nefi og þóttumst vera fullorðin.

Ég er komin að þeirri niðurstöðu að við eigum ekki að leyfa áfengissölu í matvöruverslunum, það eru ekki nema tuttugu ár síðan kraftgallakynslóðin reif kjaft og heimtaði að fá að fara í bæinn eins og hinir. Hvers konar samfélag samþykkir að hleypa smábörnum  í útigöllum niður í bæ með brennivín í pela og býr svo bara til eitthvert foreldrarölt til að friða samviskuna?

Að taka ákvörðun um að selja áfengi í matvöruverslunum er ekki eins og að ákveða að selja þar D vítamín. Það hefur enginn maður ávinning af því að drekka  áfengi, ég neyti sjálf áfengis en ég gæti aldrei sagt að það hafi orðið mér til framdráttar í lífinu. Ég telst örugglega til svona venjulegs neytanda, hef ekki valdið öðrum skaða undir áhrifum áfengis, ekki komist í kast við lögin, ekki splundrað fjölskyldu, bara fengið heiftarlegan höfuðverk og heiðarlegan móral að morgni dags. Ég s.s. tilheyri hópnum sem hefur sloppið en  gæti þó aldrei fært rök fyrir því að áfengi hafi bætt líf mitt, a.m.k þyfti ég þá að ganga inn í  blekkingarleik sem er engum til gagns. Þetta þýðir að þeir sem munu ekki tapa á sölu áfengis í matvöruverslunum eru þeir sem drekka vín en hafa  aldrei orðið fullir, aldrei fengið móral, aldrei faðmað klósettskálina, það er sirka 1 % neytenda.

Ég hef tekið margar beygjur í þessu máli. Mér hefur aldrei verið vel við forræðishyggju en ég held að þetta snúist um annað. Mér finnst þetta mál vera prófsteinn á það hvort við séum samferða sem þjóð og látum okkur lýðheilsu varða. Við getum ekki borið okkur saman við lönd þar sem vínmenning hefur þróast í mörg hundruð ár, ég meina ég er 37 ára gömul og er af kraftgallakynslóðinni, sú menning þekktist bara á Íslandi. Að vera heimsborgari er það að þekkja sjálfan sig og móta sinn eigin stíl út frá því, við erum ekki komin á þann stað að geta selt áfengi í matvöruverslunum og á meðan kokteilsósa er enn vinsælasta sósan á Íslandi, þá getum við hreinlega gleymt þessu.

 

Published inPistlar