Lesa meiraAð ferðast um huga og heim "/> Skip to content

Að ferðast um huga og heim

Ég var 13 ára þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda og þá til þriggja mánaða dvalar í Kaupmannahöfn. Pabbi hafði verið svo heppinn að fá aðstöðu í Jónshúsi til að sinna ritstörfum og við mamma fórum að sjálfsögðu með honum. Þetta var á miðjum vetri  og því varð það að samkomulagi milli foreldra minna og grunnskólans á Grenivík að ég fengi  frí með því skilyrði að ég sækti mér kjarngóða menntun í okkar gömlu höfuðborg. Það má kannski segja að þar hafi ég fetað í fótspor Fjölnismanna og fleiri merkra Íslendinga þó svo að eina sjálfstæðisbaráttan sem ég háði á þessum aldri sneri helst að notkun augnfarða sem pabba fannst náttúrlega hinn mesti óþarfi miðað við minn aldur og fyrri störf í sveitinni. Ég held reyndar að magn augnfarðans hafi eitthvað spilað inn í þessa baráttu. Pabbi hélt því staðfastlega fram að það væri bara Öskudagur einu sinni á ári og þá væri tilvalið að ganga með grímu, hina dagana væri eðlilegra að vera bara með eigið andlit. Ég fékk inngöngu í Sölvgadeskole í Kaupmannahöfn sem er eldgömul skólastofnun staðsett skammt frá Rosenborgar garðinum, hver einasta gólffjöl byggingarinnar hvæsti úrill við fótmál, stigarnir voru skakkir eins og gamall húsvörður með slitið bak. Þetta var rétt áður en ég uppgötvaði söngleikinn Rocky horror picture show en húsið minnti óneitanlega á kastala Frank N Furter sem var alls ekki svo slæmt, eiginlega bara spennandi. Fyrsta alvöru menningarsjokkið átti sér þó stað í stærðfræðitíma, það hafði ekkert með námsefnið að gera enda hafa plús, mínus og deiling sömu merkingu á Íslandi og Danmörku nema kannski í aðdraganda bankahrunsins en það er líka allt önnur saga. Nei það sem olli mér heilabrotum komandi frá Grenivíkurskóla í Höfðahverfi þar sem m.a. var bannað að vera með tyggjó í tímum var að stærðfræðikennarinn danski reykti á meðan hann gekk á milli borða til að aðstoða okkur nemendurna. Þetta fannst mér alveg stórmerkilegt, ég held satt best að segja að þarna hafi heimsborgarinn innra með mér vaknað til lífsins og sveitastelpan geispað golunni um leið. Eldri krakkarnir reyktu líka í frímínútum og kennararnir mynduðu geðtengsl með því að lána þeim eld. Í Grenvíkurskóla var spilaður borðtennis í fríminútum og þeir allra djörfustu brugðu sér út í snú snú.

Dag einn hélt unglingadeildin í Sölvgadeskole leiksýningu í íþróttasalnum og yngri deildunum var boðið að koma og horfa. Þetta var leikriti um ástir og örlög ungs fólks í Kaupmannahöfn í einu atriðinu voru stelpa og strákur að túlka mjög innileg ástaratlot í stofusófa og þegar tók að færast fjör í leikinn og sannfæringin skein úr hverju þukli stökk myndmenntakennarinn upp á svið, kona á miðjum aldri með hrokkið hár og lífssöguna skráða í hverjum andlitsdrætti og stoppaði sýninguna með þeim orðum að þetta væri ekki boðlegt svo ungum áhorfendum. Fram til þessarar stundar hafði ég aldrei séð neitt jafn djarft nema kannski Kvennfræðarann. Ég hugsaði reyndar með skelfingu til þess ef foreldrar mínir hefðu horft á samskonar uppsetningu á Vorskemmtun í Grenivíkurskóla en líkurnar á því hefðu verið álíka og að mæta Neandertalsmanni í göngugötunni á Akureyri.

Já þetta var fyrsta upplifun mín af útlöndum. Það er svo hollt að ferðast og upplifa nýja staði og nýja menningu þó svo að áhrifin geti verið ýmis og ekki öll jákvæð sbr reykingarnar í Sölvgadeskole forðum. Mamma gamla hefur alltaf haldið því fram að pör ættu að fara í brúðkaupsferðina áður en þau giftu sig sem prestur get ég að vissu leyti tekið undir þetta sjónarmið öldungsins. Utanlandsferðir hafa tilhneigingu til að afhjúpa ýmislegt í fari okkar. Í fyrsta lagi er ákveðið álag að ferðast um ókunnar slóðir þó það sé á sama tíma skemmtilegt, það reynir á ýmsa eiginleika sem liggja oft í dvala þegar við hvílum í öryggi heimahaganna. Við kynnumst nýjum hliðum á sjálfum okkur og okkar nánustu þegar ferðast er út fyrir landssteinana og það getur reynst mikill þroskagróði ekki síst ef maður gengst við þessum nýju hliðum, bæði þeim jákvæðu og neikvæðu. Í ferðalögum erlendis reynir oft og mikið á þolinmæði okkar, útsjónarsemi, athygli, forvitni, samlíðan og það að setja sig í spor annarra, þá ég við ferðafélaganna. Þá reynir líka á ratvísi, stundum hvatvísi, hugrekki og húmor, ráðdeild og höfðingsskap svo fátt eitt sé nefnt. En svo er líka hægt að ferðast um sína eigin hugarheima og það er í rauninni ekki síður mikilvægt til þess einmitt að verða læs á hugsanir sínar og tilfinningar. Sá sem ferðast reglulega um sinn eigin hugarheim getur orðið allt eins mikill heimsborgari og sá sem fer reglulega til útlanda. En það þarf líka vegabréf til að komast inn í hugarheiminn og það er stimplað af tíma, fyrirhöfn og forvitni. Góða ferð. ( Skrifað fyrir tímarit Fríhafnarinnar)

Published inPistlar