Lesa meira“Hann mun lifa” – jólasaga "/> Skip to content

“Hann mun lifa” – jólasaga

Yfir henni er guðdómlegur friður, andlitsdrættirnir lausir undan þjáningum undangenginna daga, hendurnar hvíla niður með síðum, þessar hendur sem hafa í raun viðhaldið lífi mínu, umvafið börnin okkar, hnoðað í brauð. Hendurnar sem spenntu greipar með börnunum okkar í bæn á hverju einasta kvöldi. Á baugfingri ber hún giftingarhringinn sem setið hefur fastur í meira en hálfa öld, eftir að börnin fæddust náði hún honum aldrei af en ég man hvar hún stóð stundum við eldhúsvaskinn og pillaði brauðdeigið af honum af mikilli nákvæmni, nuddaði hringinn sápu og þerraði með viskastykki, alltaf hlýnaði mér við þessa sjón. Ég vissi að hringurinn minnti hana á heitin okkar forðum, ég var hennar og hún mín og aldrei virtist það trufla hana að ná honum ekki af, nú fer hringurinn með henni í kistuna, partur af mér með henni inn í sjálfa eilífðina. Unglæknirinn gengur hljóðlega inn til okkar, varfærinn og hátíðlegur, það eru vissulega jól á jörðu en líka himni. Dánarstund núll núll þrjátíu segir læknirinn lágum rómi, af aldrinum að dæma gæti hann verið barnabarn mitt. Mér finnst nærvera hans góð, hann er auðmjúkur og varfærin, ekkert alltof viss í sinni sök, mér finnst það gott. Ég kæri mig ekki um stærilæti við dánarbeð konu minnar. Þrátt fyrir að yfirþyrmandi söknuður sæki nú að mér upplifi ég stundina sumpart eins og fæðingu barnanna okkar, einhver áþreifanlegur heilagleiki yfir öllu og hvorugur okkar, hvorki ég né læknirinn vitum betur en stundin sjálf, við erum bara fjárhirðar á Betlehemsvöllum og dauðinn er engill sem ber okkur boð. Úr fjarska heyrist sírenuvæl sem blandast klukknahringingunni frá Hallgrímskirkju, miðnæturmessunni er að ljúka.

“Sjúklingur er fimmtíu og þriggja ára gamall með sáran brjóstverk, leiðir út í handlegg og upp í kjálka, hefur verið hraustur hingað til en undir miklu álagi, hugsanlega með kæfisvefn, reykir ekki og drekkur í hófi.”
“Blóðþrýstingur og mettun”? Unglæknirinn beinir orðum sínum að sjúkraflutningamönnunum, þeir gefa honum upp tölur, annar þeirra tekur um hönd mína og óskar mér velfarnaðar. Ég reyni að greina einhverjar lífslíkur í augum hans en auðvitað eru þessir menn þjálfaðir í að sýna yfirvegun á ögurstundu. Ég veit ekki hvort ég er að fara að deyja núna en er hins vegar ótrúlega rólegur yfir örlögum mínum. Í raun gleður það mig svo mikið að sjá tárin í augum konu minnar og skelfingarsvipinn í andliti hennar að mér er næstum því sama hvernig þetta allt saman fer. Hún hlýtur að elska mig fyrst hún bregst svona við, kannski verður þetta til þess að hún hætti við skilnaðinn.
Ég hafði fundið fyrir óþægindum í nokkra daga, hélt að þetta væri bara kvíði, áhyggjur yfir þrúgandi þögninni sem þykknaði inn á heimilinu, óveðurský hrannast yfir höfðum okkar. Stundum fannst mér eins og ég þyrfti að hafa áttavita til að rata milli herbergja. Hún var búin að tala um ráðgjöf en ég var tregur til, gat ekki hugsað mér að sitja með ókunnugri manneskju og kryfja tuttugu og fimm ára hjónaband inn að kjarna og standa svo nakin eftir til athlægis, maðurinn sem gat stjórnað heilum banka en ekki sínu eigin lífi. Ég hef alltaf unnið mikið, kann ekki annað, er alin upp við að vinnan sé mælikvarði manndómsins. En ég er líka oft þreyttur og dapur. Stundum líður mér eins og ég þekki ekki fjölskyldu mína, að ég hafi misst af mikilvægustu árum barna minna þegar þau voru að mótast sem manneskjur og að hjónabandið hafi siglt sinn sjó án þess að ég væri sjálfur um borð. Vildi óska að ég gæti spólað til baka, eða ratað heim og hafið nýja vegferð.
Ungi læknirinn horfir ábúðarfullur á mig, það er góðvild og umhyggja í augum hans, ég skynja á fasinu að ástandið er alvarlegt en ég ætla að treysta þessum manni. Ég hef því miður lagt það í vana minn að treysta ekki ungu mönnunum sem starfa með mér bankanum, finnst of mikill gorgeir í þeim og áhættusækni, kaldhæðni örlaganna að líf mitt skulu nú vera í höndum jafnaldra þeirra. Sonur minn og dóttir eru komin og standa örvingluð upp við vegg, láta lítið fyrir sér fara í asanum sem umkringir föður þeirra. Ég hef ekki komið inn á sjúkrahús síðan þau tvö fæddust, það voru mestu hamingjudagar lífs míns og samt var ég bara fátækur námsmaður á stúdentagörðum. Við unga parið bjuggum í fjörutíu fermetra íbúð og borðuðum mjólkurgraut minnst þrisvar í viku. Ég er ekki viss um að íbúðin okkar hafi verið mikið stærri né vistlegri en fjárhúskofi frelsarans í Betlehem en lífið var gott, lífið var þá fullt af sannleika, við vorum ástfangin og hamingjusöm og mjólkurgrautur í hvert mál hefði engu breytt um það. Núna gæfi ég allt til að vera komin aftur í fjárhúskofann okkar á görðum, gæfi allt fyrir mjólkurgrautinn, barnahjalið og hlátur konunnar minnar sem þagnaði þegar við fluttum út á Arnarnesið. Ég hætti að koma heim og ef ég kom heim var hugurinn eftir inn í Borgartúni, ástarbréf heyrðu sögunni til, verðbréfin geymdu nú sögu mína og sálarlíf.
Ungi læknirinn tilkynnir mér að ég sé að fara beint í aðgerð, þrjár kransæðar stíflaðar, “við ætlum að bjarga þér en formsins vegna þurfum við að vita hvort þú viljir endurlífgun ef illa fer”?
Ég lít á konu mína. Er hægt að endurlífga hjónabandið? Hugsa ég. Mig langar að skapa nýtt Betlehem fyrir mig og hana, okkur. Rúminu mínu er ýtt eftir ganginu áleiðis að lyftunni, ég rek augun í bólugrafinn ungling með brostin augu sem stendur við vaktina eins og hann hafi óvart villst inn á bráðamóttökuna á leið í jólaboð.

“ Ertu með mótaðar sjálfsvígshugsanir”? Spyr ungi læknirinn sem situr gegnt mér. Ég hef ekki hugmynd um hvað það þýðir, veit bara að mig langar ekki til að lifa lengur en ekkert í hvaða mót ég á að setja það, eldfast mót kannski. Ég er bara átján ára og hef hvorki langa reynslu af því að lifa né deyja. Ég get ekki lifað með þessum myndum sem eru fastar í hausnum á mér, næ þeim ekki út, ég er skrímsli og best fyrir alla að ég láti mig hverfa. Ég mun aldrei verða neitt nema stöðugt áhyggjuefni foreldra minna. Fyrr í kvöld sat ég upp í Hallgrímskirkju og hlustaði á jólaguðspjallið og síðan ræðu prestsins um kærleika Guðs til okkar mannanna og allt í einu langaði mig ekki til að lifa lengur. Ekki vegna þess að minnst væri á Guð heldur vegna þess að mér finnst eins og hann hafi aldrei tíma til að vitja mín, hann gat verið með Maríu og Jósep og fjárhirðunum og vitringunum en ekki mér. Læknirinn spyr mig út í skólann, hvernig mér gangi að vakna á morgnana, hvort ég sinni mínum áhugamálum og hvort ég fái reglubundinn svefn. Þessar spurningar skipta engu máli fyrir líðan mína núna en ég get ekki fengið mig til að hreyta í lækninn, hann er kannski tíu árum eldri en ég og bara indæll, hann er að reyna að tala við mig en veit náttúrlega ekki hvernig það er að vera hræddur. Þessi maður hefur örugglega svifið í gegnum Menntaskólann í Reykjavík á raungreinabraut en samt verið félagsmálatröll og allar stelpurnar á eftir honum, algjör sjamör og svo hefur hann komist inn í læknisfræðina í fyrstu tilraun og þannig uppfyllt draum foreldra sinna og nún situr hann hér og bíður eftir því að komast í framhaldsnám í skurðlækningum og giftast kærustunni sinni sem er örugglega í lögfræði, ljóshærð og æfir módelfitness í frístunum.
“Hefurðu verið á þunglyndislyfjum”? “Nei” svara ég vitandi að það er ekki satt, ég prófaði einu sinni að taka inn eitthvað sem hét flúoxetín en hætti snögglega þegar ég heyrði félaga mína ræða um aukaverkanir slíkra lyfja, mig langaði ekki til að vera feitur, latur og getulaus. “Stundum þarf bara að ýta við taugaboðefnunum til að upplifa ákveðinn létti, þegar þau byrja að virka er eins og þú sért togaður af hafsbotni og færð aðeins meira andlegt súrefni til að takast á við daginn” segir unglæknirinn og brosir. “Ég vil leyfa þér að gista á geðdeildinni í nótt og síðan ræðum við betur saman á morgun, þá ertu kannski búinn að hugsa þetta svolítið”
Ég mun eyða jólanótt á geðdeild, frelsarinn fæddist jú í fjárhúsi hver veit nema ég muni endurfæðast á geðdeild, vonandi samt ekki með þá hugmynd að ég sé frelsarinn frá Nasaret því þá er ég örugglega ekki á batavegi hugsa ég og hlæ að eigin fyndni.
Ég fæ fylgd upp á deild, sjúkraliðinn ýtir á lyftuhnapp númer þrjú, þegar lyftan opnast erum við stödd á fæðingardeildinni. Inn í lyftuna gengur ung móðir ásamt hjúkrunarfólki og nýfæddu barni í hitakassa, andlit móðurinnar er fölt og þreytulegt, augun grátbólgin, hún er eign sjúkrahússins miðað við það sem stendur á hvítri treyjunni og sokkunum sem ná upp á miðja kálfa. Barnið er tengt við ótal slöngur og mér bregður við að sjá agnarlítinn líkamann í þessu gímaldi, litla skinnið eins og lítil geimvera sem hefur orðið ein eftir í stórri geimstöð. “Við erum að drífa okkur á vökudeildina með fyrirburann” segir læknir við sjúkraliðann minn, hún kinkar kolli til samþykkis. Við þurfum auðvitað ekki að flýta okkur upp á geðdeildina það er ekki eins og ég þurfi að deyja akkúrat núna meðan barnið er hér. Þegar lyftan opnast á fimmtu hæð stendur unglæknirinn í gættinni með skelfingarsvip í andliti “ ástin mín, ég gat ekki svarað símanum, það var svo mikið að gera” segir hann um leið og móðirinn hendir sér í fang hans grátandi” “ hann átti ekki að fæðast fyrr en í mars, hann gæti dáið” heyrist milli ekkasoganna.”
Unglæknirinn lítur örvæntingarfullur á samstarfsfólk sitt og ég fyllist strax samviskubiti yfir að hafa aðeins nokkrum mínútum áður ætlað honum hið fullkomna líf. “Þetta er drengur” kjökrar móðirinn, “þú ert orðinn pabbi “bætir hún við og bros læðist fram á tárvotar varirnar, unglæknirinn horfir ástúðlegum augum á barnið.
Gamall maður gengur álútur eftir ganginum en nemur staðar þegar hann kemur auga á unglækninn, “ertu enn á vakt blessaður, takk fyrir fallega stund inni hjá konunni minni áðan, þú hefur góða nærveru, Guð blessi þig” í sömu svipan birtist miðaldra kona ásamt börnum sínum tveimur, þau koma af gjörgæslunni. Konan staðnæmist við hitakassann og horfir á barnið með lotningu í augum. “Þetta verður allt í lagi “segir hún klökkum rómi og lítur á lækninn unga “vertu óhræddur, hann mun lifa.”

Published inPistlar