Lesa meiraOg heimsfriður ríkja "/> Skip to content

Og heimsfriður ríkja

Ég er komin heim af hælinu, þegar ég fór þangað hét ég því að eiga svo gott sem engin samskipti við annað fólk, upplifði að ég væri komin með ógeð af fólki, gekk um matsalinn í hettupeysu og joggingbuxum með fjarrænan svip eins og foreldrar mínir væru nýbúnir að taka af mér snjallsímann og eyða Snapchat reikningnum mínum. Ég forðaðist augnsamband við aðra, settist ein út í horn með diskinn minn og þóttist vera félagsfælin. Nokkrum dögum seinna var ég hins vegar komin á villingaborðið sem var að mestu skipað konum fimmtíu ára og eldri en þar var ekkert umræðuefni of heilagt til viðrunar, þar skapaðist líka dýrmæt vinátta, ég hlakkaði til hvern einasta morgun að borða hafragrautinn með þessum meisturum, unglingaveiki mín entist sumsé í heila tvo daga. Ég uppgötvaði þarna að nýfengin félagsfælnin sneri hreint ekkert að öðru fólki, heldur sjálfri mér, ég var bara komin með ógeð af mér og því að vera ég og þá var hvíldin einmitt fólgin í því að vera með öðrum og losna undan daglegum skyldum og upplifunum af því að vera eitthvað ómissandi, já hreinlega að hvíla sig á því að hafa hlutverk í samfélaginu eins mikilvægt og það annars er. Stundum er svo dýrmætt að fá tækifæri til að vera bara manneskja og ekkert annað, ekki prestur, eiginkona, móðir, dóttir, þáttastjórnandi, rithöfundur eða hvað það nú er sem við tökum okkur fyrir hendur, já vera bara raunmyndin af sjálfum sér í hallærislegri hettupeysu með jurtate í bolla að tala um dauðann og lífið, kynlíf og hamborgara við eitthvert fólk sem er bara á sama stað í velúrgalla að bíða eftir því að komast í sundleikfimi. Þetta er pínu eins og að fá að verða aftur barn og leika sér og njóta umönnunar og þjónustu nema maður þarf ekki að fara í skólann og læra stærðfræði og stökkva yfir hestinn, sem er kostur.

Þegar vistunartíma mínum lauk og ég fann hvernig ég hafði endurheimt þolið fyrir sjálfri mér í öllum þeim hlutverkum sem mér er ætlað að sinna sá ég jafnframt hvaðan lækningin kom, hún kom að hluta til frá heyfingunni, grænfóðrinu, nuddinu, nálastungunum og slökuninni en að mestu leyti frá fólki sem annaðhvort snerti mig með höndum, nærveru og orðum. Fólk er fólki best þegar fólk getur verið saman á þeim forsendum sem maður upplifir á stað eins og  Heilsustofnunni í Hveragerði, annars vegar í þjónustu og hins vegar í berskjaldaðri samfylgd þar sem nákvæmlega engu skiptir hverju þú hefur áorkað í lífinu heldur hvernig þú ert í samskiptum hér og nú. Ef til vill er Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hvergerði svolítið eins og Jesús hafði  hugsað sér kirkjuna, fólk að þjóna fólki en allir að ferðast á sama farrými. Vandamál heimsins er nefnilega hvorki fólgið í fjölda né fjölbreytileika okkar mannanna heldur hvernig okkur líður með að vera við, pældu í því að ef okkur liði öllum vel í eigin skinni myndi heimsfriður ríkja og fegurðarsamkeppnir heyra sögunni til.

Published inHugleiðingar