Lesa meiraÁhrifavaldar "/> Skip to content

Áhrifavaldar

Að vera áhrifavaldur er nýtt hugtak á vinnumarkaði nútímans. Starfið fer að mestu leyti fram á samfélagsmiðlum og eins og ég skil það snýst vinnutilhögun áhrifavalda í því að safna eins mörgum fylgjendum og hægt er og auglýsa svo vörur fyrir ýmis fyrirtæki og verslanir. Þetta er í sjálfu sér bara nýtt form af auglýsingamarkaði þar sem einstaklingar reka sína eigin stofu á Instagram eða Snapchat eða jafnvel Tik Tok þó ég viti raunar lítið um þann miðil. Í dag eru áhrifavaldar samfélagsmiðlana fræga fólkið á síðum dagblaðanna. Í dag heyri ég börnin mín nefna nöfn við kvöldverðarborðið sem ég kannast ekkert við, það eru ekki lengur frægir leikarar, tónlistar eða íþróttafólk sem maður hefur kannski smá möguleika á að þekkja heldur snapchat og Instagram stjörnur og mér líður eins og ég sé miklu meira en miðaldra. Stundum líður mér reyndar eins og ég sé mið-alda en það er önnur saga. Þetta er auðvitað bara ný kynslóð og ný tækifæri sem ég þarf ekkert endilega að þekkja til hlýtar og hef enga sérstaka skoðun á enda er þetta bara vinna eins og annað og krefst án efa hæfileika og dugnaðar.  Eina sem truflar mig örlítið er bara notkunin á orðinu áhrifavaldur, mér finnst það svo stórt og mikið og merkingarþrungið hugtak. En auðvitað erum við öll á endanum áhrifavaldar, þú ert raunar miklu meiri áhrifavaldur en þú gerir þér grein fyrir. Við erum náttúrlega stórir áhrifavaldar í lífi ástvina okkar.

Finnst þér hún ekki falleg frásögnin hans Lúkasar ? „þá varð það þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu að barnið tók viðbragð í lífi hennar.“  Það er morgunljóst að barnið í móðurkviði er áhrifavaldur með stórum staf, Jesús Kristur frelsari okkar og huggari. Það er líka óhætt að fullyrða að móðir hans María er áhrifavaldur því þó hún sé ekki á Instagram eru til fleiri myndir af henni í veröldinni en nokkur áhrifavaldur gæti nokkurn tíma komist yfir að pósta á langri ævi. María móðir Jesú, dýrlingur í kaþólsku kirkjunni og rétttrúnaðarkirkjunni, María er tákn trúfesti og tryggðar. Í mótmælendatrú er María móðir Jesú nefnd guðsmóðir og nærvera hennar mjög sterk í guðspjöllunum, hún er aldrei langt undan og að lokum krýpur hún við krossinn á Golgatahæð.

Á liðnu ári, ári farsóttar í heiminum höfum við öðlast nýja sýn á líf okkar, það hefur í raun verið óumflýjanlegt. Stundum líður mér eins og heimurinn sé kona í barnsnauð og að jörðin sé að endurfæða okkur inn í nýtt upphaf. Jarðskjálftarnir undanfarnar vikur hafa nú ekki orðið til þess að draga úr þeirri myndrænu sýn og hvað þá eldgosið nýja við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga, hið fyrsta þar í átta hundruð ár.

Á umliðnu ári höfum öll verið í eins konar fæðingarorlofi, við sem höfum í raun farið í gegnum alvöru fæðingarorlof sem nýbakaðir foreldrar getum án efa tengt við margt. Með nýfætt barn á heimili skerðast tekjur, ferðalögum er skotið á frest, þátttaka í opinberu menningarlífi minnkar og sprittbrúsar standa gjarnan við klósettvaskinn til að verja hvítvoðunginn gegn bakteríum og umgangspestum. En við tökum þessum breytingum fagnandi vegna þess að nýtt líf er komið í heiminn, nýr áhrifavaldur í líf okkar, nýtt guðsbarn.  

Og þegar barn er fætt í heiminn verður lífið aldrei eins og áður, það verður bæði betra og erfiðara, betra vegna þess að barnið er ómetanlegt en erfiðara vegna þess að áhyggjur aukast. Samt myndum við aldrei vilja taka til baka fæðingu barnanna okkar. Allt hið  merkingarbærasta í lífi okkar er líka það sem veldur okkur mestum áhyggjum og erfiði. Það er ágætt að minna sig á það nú þegar jörðin skelfur og farsóttin geysar, fæstar breytingar sem máli skipta hafa orðið átakalaust. Stærsta tákn þess er án efa krossdauði Jesú.

Við erum öll áhrifavaldar. Ekki vegna þess sem við höfum farið í gegnum nám eða vegna atvinnu okkar nema að litlu leyti, um það vitnar sú staðreynd að þegar starfsævinni lýkur er staða okkar mönnuð á ný. Við erum fyrst og fremst áhrifavaldar í lífi þeirra sem elska okkur og við elskum og staða okkar sem slík verður aldrei mönnuð á ný. Þess vegna eru auðvitað áhrifavaldarnir á samfélagsmiðlum svo sannarlega áhrifavaldar í lífi sínu og sinna. Málið er að í grunninn breytum við ekki heiminum með störfunum okkar eða embættum heldur með því að vera góðir foreldrar, synir og dætur, ömmur og afar, systur og bræður, frændur og frænkur, vinir og vinkonur. Heimurinn stendur og fellur með fjölskyldu og vinatengslum vegna þess að allt gagn nú eða ógagn sem opinberar persónur gera í störfum sínum er oftar en ekki hægt að rekja til líðan viðkomandi og líðan okkar er að öllu leyti bundin tengslum. Þess vegna er stóra fæðingarorlofið sem heimurinn var settur í á útmánuðum í fyrra, tækifærið stóra til að bakka út úr þeim stóra misskilningi að lífið sé það sem við erum út á við.

Published inHugleiðingar