Lesa meiraEkki stinga Jesúbarnið "/> Skip to content

Ekki stinga Jesúbarnið

Tvær konur á tíræðisaldri urðu mér innblástur þessarar hugleiðingar. Önnur er tengdamóðir mín Sigurjóna Kristinsdóttir en hin er Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti.

Á nýliðnu aðfangadagskvöldi þar sem tengdamóðir mín sat til borðs með okkur og hamborgarhryggurinn var að mjatla í gegnum meltingarkerfið ásamt rósakáli og brúnuðum kartöflum kom upp sú hugmynd meðal yngri kynslóðarinnar að kannski væri gaman að grípa í spil þegar pakkastundin væri afstaðinn. Með öðrum orðum þá var verið að leggja drög að dagskrá kvöldsins því ekki máttum við til þess hugsa að vera með öllu iðjulaus þegar búið væri að rífa utan af gjöfunum og eitthvað fannst okkur nú nöturlegt til þess að hugsa að liggja öll upp í sófa á samfélagsmiðlum. „Þegar ég var stelpa þá mátti alls ekki spila á aðfangadagskvöldi né jóladag og heldur ekki sauma út, pabbi sagði að þá gæti maður átt á hættu að stinga í Jesúbarnið“ sagði tengdamóðir mín ákveðin með súrefnisslönguna í nefinu en glitfagra perlueyrnalokka í eyrunum því hún er nefnilega alltaf elegant og yfir henni mikil reisn þótt heilsan láti nú undan hækkandi aldri. Okkur hinum sem sátum við borðið þótti þetta nokkuð grafísk lýsing á afleiðingum þess að halda ekki hvíldardaginn heilagan, að saumaskapurinn gæti hreinlega orðið Jesúbarninu að fjörtjóni en auðvitað var um myndlíkingu að ræða og kannski nokkuð góða ef í hana er rýnt í sögu og samtíð.

Fyrir það fyrsta vil ég þó segja áður en lengra er haldið að það var alls ekki allt betra hér í gamla daga það vitum við með því einu að líta í baksýnisspegilinn en við skulum heldur ekki ímynda okkur að allt sé betra í dag. Tengdamóðir mín sem fædd er árið 1929 er af kynslóð sem bar mikla virðingu fyrir helgi hátíða og hvíldardagsins. Hún er á sama tíma af kynslóð sem vann langan vinnudag og raunar sleit sér út af vinnu, stundum vegna hugmynda sinnar um að vinnan væri hin æðsta dyggð en oft af ríkri nauðsyn þar sem fólk þurfti einfaldlega að eiga fyrir sínu og ekkert sem hét að hækka yfirdráttinn. Að sama skapi var þetta líka kynslóðin sem skildi ekki hvernig fólki dettur í hug einu sinni að láta sig langa í eitthvað sem það á ekki fyrir. En það sem ég vildi fyrst og fremst sagt hafa varðandi nálastungu Jesúbarnsins er að að baki þeirri óvenjulegu mynd er þetta eftirsóknarverða andrúmsloft að vera allur, bæði til líkama og sálar í kjarna þess heilaga, að gefa sig allan jólahelginni. Á nútímamáli heitir þetta að hugleiða jólin. Við nútímamanneskjurnar tölum um að taka okkur stund á morgnanna til hugleiðslu, að minnsta kosti les ég það víða í fjölmiðlum þar sem fólk lýsir morgunhugleiðslu sem nýju andsvari við brjálsemi nútímans. Nútímamaðurinn er farinn að taka frá tíma til að hugleiða mitt á The Strip í Las Vegas lífinu sem samfélagsmiðlarnir bjóða okkur upp á. Fyrst sköpum við skrímslið sem setur annan hvern mann í alkul þessa dagana og svo reynum við að snúa á það með sérútbúinni hugleiðslu sem þarf jafnvel að greiða fyrir. Fyrst stingum við Jesúbarnið og svo reynum við að beita endurlífgun. Kynslóð tengdamóður minnar var kannski ekki eins upptekin af sjálfri sér heldur hvíldi í vitundinni um að helgi hátíðarinnar og hvíldardagsins myndi leiða hana að merkingu og til aukins þroska og trúar. Þetta er að vísu kynslóðin sem hefði kannski mátt stundum vera uppteknari af sjálfri sér í þeirri merkingu að tala um tilfinningar sínar og líðan en að þessi kynslóð þyrfti fyrst að sigra heiminn og svo að taka við Jesúbarninu það var fjarri henni, það var styrkur þessarar kynslóðar, viska hennar og von.

Guðspjall dagsins er um innra virði manneskjunnar og þá grundvallar afstöðu frelsarans að í trúnni getum við hvílt í okkar innra virði, það er að segja í vitund okkar og sannfæringu um að við séum elskuð af fyrra bragði en ekki vegna afreka okkar eða stöðu. Hugsaðu þér ef allir tryðu á sitt innra virði? Hugsaðu þér sparnaðinn fyrir heilbrigðiskerfið, hvað miklu færri misstu þá heilsu vegna streitu og útbruna? Aukinn kvíði og streita í dag er ekki vegna þess að fólk vinni fleiri vinnustundir á viku en kynslóð tengdamóður minnar gerði, ástæðan er miklu frekar sú að fólk hefur ekki ráðrúm til að skynja hvers virði það er og þess vegna eru allir að berjast fyrir því sem Jesús hefur fyrir löngu veitt hverri manneskju sem vill staldra við og hlýða á. Kristin trú er mannhelgistrú þar sem megin áherslan er á að efla vitund manneskjunnar um að nýfædd og nakin, ómálga og varnarlaus sé hún allt sem hún þarf að vera. Manneskjan er helg. Þess vegna kom Jesús inn í heiminn sem nýfætt barn en ekki sem rokkstjarna eða sem efsti maður á lista Forbes, hann kom sem barn til að mæta kvíða og tómleika mannkyns sem óttast á öllum sínum streituvaldandi hlaupum eftir viðurkenningu að það sé ekki elskað. Að vita sig elskaðan þótt allar vegtyllur væru frá manni teknar, í einu vetfangi, já þótt ég vaknaði í fyrramálið svipt kjól og kalli, er sá friður sem enginn megnar frá manni að taka, það er að minni reynslu friður trúarinnar.

Þú þekkir fólk úr mílufjarlægð sem er meðvitað um sitt innra virði, hvílir í sjálfu sér, yfir því er ákveðin rósemd og viska sem gerir það að verkum að okkur líður vel nálægt því, það ber eitthvað með sér sem veitir öðrum styrk og innblástur. Já það ber með sér traust. Ein slík manneskja var í sjónvarpsviðtali um hátíðarnar, Vigdís forseti. Það var einstakt að hlýða á manneskju sem svo auðveldlega hefði getað bæði barið sér á brjóst eftir ótrúlega ævi og afrek og jafnframt vakið enn meiri athygli á viðtalinu með krassandi sögum af samferðarfólk, hvernig orðheldni og grandvarleiki einkenndi alla hennar framgöngu. Það er svolítið nýtt og ferskt inn í okkar tíðaranda sem að er á margan hátt frábær en dýrkar samt alltof mikið skömmina og óttann með því að auglýsa allt sem fólk gerir og gerir ekki, er og er ekki, tekst og tekst ekki. Vandvirkni í mannlegum samskiptum verður ekki meiri í ótta eða skömm, það sem gerist er að fólk einangrast og verður reitt og hrætt og jafnvel meiðandi.

Já kannski erum við alltaf að stinga í Jesúbarnið þar sem við hræðum hvert annað í brjálsemi tíðarandans þar sem ytra virði manneskjunnar er í forgrunni og hún þjáist af kvíða vegna þess að hún heyrir ekki né skynjar sitt innra virði. Hvað eru annars margir áhrifavaldar á samfélagsmiðlum að auglýsa sitt innra virði þessa dagana?

Trúin er orðin einkamál, menn keppast við að hæðast að henni á meðan framboð á fréttum um hjónaskilnaði og persónulegt skipbrot fólk þykir sjálfsagt fréttaefni. Hæðst er að biskupi Íslands fyrir að tala um þöggun gagnvart Guði í jólaprédikun sinni en ég held að hún hafi á margan hátt hitt naglann á höfuðið. Það er engin þöggun gagnvart Þjóðkirkjunni með góðu og illu en það er augljóst mál að trú er orðið jaðarsett umræðuefni í samtímanum þó vitað sé að í gegnum árþúsundir hafi trúarbrögð verið manninum hjálpræði og huggun í þeirri erfiðu glímum að vera manneskja og víst hefur maðurinn líka átt það til að meiða með trú sinni en það hefur hann líka gert með ástinni og ekki viljum við jaðarsetja hana?

Á nýju ári er mér þó efst í huga að óska og vona að fleiri og fleiri viti að þeir, þær og þau séu elskuð af fyrra bragði og það skipti nákvæmlega engu máli hvers kyns, kynhneigðar eða kynþáttar þau séu né hvað þau hafi í laun eða hvaða prófgráðum þau hafi skilað af sér. Það er enginn annar eða annað sem getur sagt Guði hvort þú sért einhvers virði, Guð veit hvað í þér býr. Hlustaðu á hann eða hana eða það. Amen

Published inHugleiðingar