Lesa meiraKæra Jesúbarn "/> Skip to content

Kæra Jesúbarn

Kæra Jesúbarn. Þú ert hér og við erum hér vegna þín. Akureyrarkirkja er full af fólki, söfnuði þínum. Fólki á öllum aldri með allskonar tilfinningar, ævisögur og lífsreynslu í farteskinu sem það er komið með hingað til að spegla í tilvist þinni, já í anda þínum. Þau hafa nú þegar hlýtt á guðspjallið skráð af honum Lúkasi lækni og guðspjallamanni. Hef ég einhverju við það að bæta kæra Jesúbarn?

Kæra Jesúbarn, fólkið er eins og þú veist komið til að spegla líf sitt, tilfinningar, sögu og reynslu í þér. Leiddu okkur áfram á þeirri vegferð hér í kvöld. Já leiddu okkur inn í gripahúsið á Betlehemsvöllum, finndu okkur stað í heysátunni framan við jötuna, við höfum öll gott af því að hvíla við jórtrið í húsdýrunum meðan við sækjum friðinn frá ásjónu þinni, þú nýfædda guðsbarn. Er annað hægt en að fella grímuna í návist þinni? Ef ekki í návist nýfædds barns, hvar þá? Er það ef til vill tilgangur þessarar samveru hér í kirkjunni í kvöld kæra Jesúbarn, að fella grímuna í trausti þess að þú mætir berskjöldun okkar með berskjöldun þinni þú frelsari heims sem valdir að mæta okkur í barndómi þínum.

Hér í kvöld eru lítil börn sem bíða óþreyjufull eftir því að komast heim og halda jólin með ástvinum sínum, við skiljum eftirvæntinguna, við höfum öll verið börn og þú kæra Jesúbarn hefur sagt með barndómi þínum að við verðum að varðveita bernskuna innra með okkur til að rata inn í Guðsríki. Þess vegna biðjum við þig kæra Jesúbarn, biðjum þig af öllum lífs og sálarkröftum að hjálpa okkur að varðveita æsku hvers barns svo ekkert barn fyrir vanrækslu eða ofbeldi þurfi að fullorðnast um aldur fram, því það eru álög að sem fylgja okkur alla tíð, nei enginn á að þurfa að fullorðnast um aldur fram. Kæra Jesúbarn þú þekkir lífssögu hvers og eins sem situr hér í kirkjunni í kvöld, þekkir barnæsku okkar allra, veist hvað hver einasta manneskja hér inni í þessum helgidómi hefur gengið í gegnum, um allt sem hefur mótað okkur og gert að þeim manneskjum sem við erum í dag og þú elskar okkur til hugrekkis og dáða, fyrir það þökkum við af alhug.

Kæra Jesúbarn, kannski er einhver hér inni að halda sín fyrstu eða önnur jól eftir ástvinamissi, viltu kveikja á Betlehemstjörnunni í sál þess sem syrgir og saknar á þessum jólum, að sú stjarna lýsi viðkomandi leið að jötunni þar sem þú tekur á móti með angan af nýrri dögun og þeirri von sem aðeins nýfætt barn getur fært. Í sorginni fæðist jú syrgjandinn að nýju, verður ný manneskja sökum reynslu sinnar og í samfylgdinni við þig kæra Jesúbarn öðlast syrgjandinn þá ómetanlegu von um að vaxa við hlið sorgarinnar þar sem þroski og mannleg dýpt myndast í trausti til þín, þú sem veitir visku með elsku þinni.

Kæra Jesúbarn, kannski er einhver hér inni að halda sín fyrstu jól eftir hjónaskilnað og finnur nístandi einmanaleika hverfast um sál sína, er jafnvel án barnanna í kvöld að halda fyrstu jól á nýjum stað. Góðu minningarnar dvelja enn í skugga þess sársauka sem brostnir draumar, aðskilnaður og vonbrigði valda, allt er breytt. Já breytingar eru erfiðar kæra Jesúbarn. Þú veist hvers sá hinn sami þarfnast. Veittu leiðsögn þína, þú sem engan dæmir, þú sem elskar okkur til dáða. Já veittu einmana sál hugrekki fjárhirðanna sem leituðu ljóssins í myrkrinu og dómgreind vitringanna sem tóku mark á brjóstviti sínu og sneru ekki aftur til Heródesar, Kæra Jesúbarn, búðu okkur jötu úr brjóstviti okkar.

Kæra Jesúbarn, kannski er einhver að glíma við fjárhagsáhyggjur hér í kvöld, jafnvel fátækt eins og foreldarar þínir María og Jósep gerðu. Já þú fæddist inn í fátæka fjölskyldu þú lífsins konungur enda fátækt ekki mælikvarði á gáfur né gjörvileika fólks, ekki mælikvarði á dugnað né þekkingu. María og Jósep voru fátæk að efnum en rík af anda, já þau voru rík af anda trúar og hugrekkis. Við vitum samt að það er erfitt að glíma við fátækt, það er  einmanalegt og niðurlægjandi. Kæra Jesúbarn viltu taka skömmina frá þeim sem lifa við fátækt og kalla samfélagið allt til ábyrgðar gagnvart því að jafna kjör af því að kjör verða ekki jöfnuð af einu stjórnmálaafli. Kjör verða ekki jöfnuð nema hvert og eitt okkar taki orð Jesúbarnsins inn að hjarta, orðin um að þjóna Guði en ekki mammon, þjóna anda en ekki efni, að við séum hvert og eitt tilbúið að deila kjörum með samferðarfólki okkar því aðeins þannig jafnast kjör, með því að deila þeim. Já rétt eins og við erum öll  hvert og eitt kölluð til ábyrgðar gagnvart umhverfinu og náttúrunni með breyttum lífsstíl, endurvinnslu og meðvitaðri neyslu þá erum við kölluð til ábyrgðar gagnvart fátækt samferðarfólks okkar.

Kæra Jesúbarn, kannski er einhver nýorðinn ástfanginn hér í kvöld og hefur aldrei upplifað jólin eins töfrandi, ilmandi og fögur og nú. Þú elskaðir heiminn svo heitt að þú gafst sjálfan þig í auðmjúkri þjónustu og fórn. Það er einmitt kjarni farsældar í ástarsambandi, auðmjúk þjónusta og fórn, að elska með frumkvæði, hlusta eftir þörfum makans, heyra drauma hans og hennar og þrár. Það er vandasamt en óendanlega gefandi og þú ert til staðar kæra Jesúbarn sem fyrirmynd í öllum þínum verkum. Þú þvoðir fætur lærisveina þinna á skírdagskvöldi og þegar Símon Pétur sagði við þig „ Herra ætlar þú að þvo mér um fæturnar? Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Svaraðr þú: „Ef ég þvæ þér ekki, áttu enga samleið með mér.“ Ef einhver er nýástfanginn hér í kvöld og sér fyrir sér að ganga inn í náið samband við aðra manneskju er gott að hafa þessi orð Jesúbarnsins í huga. Því svo bættir þú við: Fyrst ég sem er herra og meistari hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur, ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður.

Kæra Jesúbarn, kannski er einhver barnshafandi hér í kvöld, það er yndisleg tilfinningin þótt barnshafandi kona geti með réttu líka verið kvíðin fyrir því sem framundan er. Blessaðu öll börn hér í kvöld, fædd og ófædd og minntu okkur á orðin þín þegar lærisveinarnir ætluðu að reka börnin í burtu forðum og þér sárnaði og þú sagðir, leyfið börnunum að koma til mín og varnið eigi því slíkra er Guðs ríki.

Kæra Jesúbarn, kannski er líka barn hér í kvöld af erlendum uppruna sem hefur  þurft að flýja heimaland sitt sökum stríðsátaka eins og þú þurftir að gera um nótt þegar foreldrar þínir flúðu með þig til Egyptalands forðum. Megi barnið lifa öruggt í skjóli ástar þinnar og megi augu þín verða okkar augu í umönnun þess og allra flóttamanna.

Kæra Jesúbarn. Það er jólakvöld og við erum samankomin hér til að taka á móti þér. Vefja trú okkar reifum, vefja tilfinningar okkar reifum, vefja hvert annað reifum. Jólin eru okkar reifar en um leið eru þau líka spegill ævigöngu okkar og lífsreynslu og þess vegna verða allar sorgir sárari á jólum og öll gleði sætari. Jólin eru  endurfæðing andans í hvert og eitt sinn í þeirri merkingu að andi okkar fæðist að nýju með þér þar sem við leggjum líf okkar og reynslu í jötu þína. Það er svo undur fallegt. Jólin eru svo mikilvægur tími, þau segja okkur svo margt um líf okkar, tengsl og tilfinningar. En það sem skiptir kannski mestu máli er að jólin eru nýtt upphaf. Sól hækkar á lofti, krókusarnir snúa sér að móðurskauti jarðar, fæðing vors er framundan, Vaðlaheiði brátt böðuð nýjum bjarma, von fer með himinskautum. Kæra Jesúbarn, þín vegna verður allt í lagi, já líka þegar líf okkar er ekki í lagi. Amen

Published inHugleiðingar