Lesa meiraHamingjuspikið "/> Skip to content

Hamingjuspikið

Í lok ágúst um það leyti sem haustkul háloftanna læðist inn fjörðinn og raular nokkra rökkursöngva, verð ég alltaf jafn undrandi. Ekki yfir tímanum sem slíkum og kapphlaupi hans heldur þeirri staðreynd að ég skuli alltaf safna spiki hvert einasta sumar án þess að draga nokkrar ályktanir af hegðun minni. Ef ég væri skógarbjörn þá væri þetta fullkomlega eðlilegt en af því að maður býr nú í tiltölulega vel fíruðu húsnæði og með Bónus í bakgarðinum þá er þetta nánast óskiljanlegt. Eða svo fannst mér a.m.k þangað til ég las bók Gunnars Hersveins heimspekings sem nefnist Gæfuspor, þá öðlaðist ég nefnilega algjörlega nýja sýn á spikið. Þar tekst Gunnari Hersveini  hið ómögulega þ.e.  að gefa þessu illskeytta hugtaki fallega merkingu, þegar hann talar um hamingjuspikið sem fóðrar sálina. Og þá fór ég einmitt að hugsa hvort það kæmi ekki líka til af góðu að maður bætti svolitlu á sig á sumrin, ég veit nefnilega að það eru margir sem deila þessari reynslu með mér. Sumarið er  tíminn þar sem maður er að njóta. Njóta hvíldar, njóta matar, samveru og þess að styrkja tengslin, fólk fer á ættarmót, í sumarbústað með stórfjölskyldunni eða hittir vini sem búa erlendis. Og í allri þessari samveru skipar matur og drykkur stóran sess, af því að matur og drykkur eru sammannleg gæði og með því að neyta þess í samfélagi myndast sérstök stemmning og tengsl. Þetta vissi Jesús manna best, þess vegna býður hann okkur alltaf að borða þegar við komum saman til kirkju, hann vissi að matur og drykkur ættu greiðasta leið að hjarta mannsins.

En s.s. hamingjuspikið sem fóðrar sálina myndast á löngum tíma, það er ekki eitthvað sem gerist með einum sigri á lífsgöngunni eða happsdrættisvinningi sem greiðir upp allar skuldir. Hamingjuspik sálarinnar myndast jafnt og þétt í gegnum lífsgönguna eða eftir því sem maður lærir að meta alvöru lífsgildi sem fela m.a. í sér það að láta náungann sig varða og gefa af sjálfum sér. Svolítið fyndin eðlisfræði að sálin skuli fitna við að gefa. Þess vegna rennur hamingjuspikið ekki svo glatt af manni þó vondir dagar „dúkki upp“ annað slagið. Ekki frekar en líkamsspikið sem situr óhaggað þó maður taki einn og einn detoxkúr í hálfleik. En hvað sem því líður þá hef ég s.s. komist að þeirri niðurstöðu að sumarspikið sem er áþreifanlegt á neðri maga og kinnum er táknrænn vitnisburður þess að maður hafi lifað góða daga. það er nefnilega ekki alltaf samasemmerki milli þess að fitna og vera þunglyndur, þó að sum glansblöð séu mjög dugleg að stilla því þannig upp. Maður getur líka fitnað af gleði og góðum stundum og hamingjuspikið sem fóðrar sálina og gerir það að verkum að maður finnur lífi sínu tilganga, það getur átt frænku eða frænda í undirhökunni, bingóhandleggjunum og ístrunni góðu. Ég segi bara Guði sé lof fyrir spikið.  P.s ég vona að mér verði ekki sagt upp áskriftinni í Átaki heilsurækt.

Published inPistlar