Ég er haldin áhugaverðri röskun sem á fræðimáli er skammstöfuð OCD eða obsessive compulsive disorder en kallast einfaldlega áráttu og þráhyggjuröskun á íslensku. Þessi lífsförunautur sem ég valdi ekki sjálf að gefast, tróð sér inn í líf mitt þegar ég var á táningsaldri, ég man alltaf fyrstu heimsókn hans en það var um jólaleytið þegar ég var í 8.bekk og hafði venju samkvæmt sent öllum bekkjarsystkinum mínum jólakort, á einhverjum tímapunkti eftir að kortin fóru í póst áttaði ég mig á því að ég hafði skrifað jól með stórum staf inn í öll kortin, ég hafði s.s. gert þau afdrifaríku mistök á annars hnökralausum vetri og við tók jólafrí þar sem sú hugsun barði á sálarlífi mínu og sjálfsmynd að nú héldi allur bekkurinn að ég væri tiltölulega illa gefin. Svo liðu árin og þessi áleitna boðflenna gerði æ oftar vart við sig, fullkomnunarárátta sem gjarnan beindist að einhverju sem raunverulega skipti engu máli, ástæðan er ekki sú að undirrituð hafi í grunninn talið sig fullkomna enda er áráttan einmitt viðbrögð í hina áttina, að telja sig gera meiri mistök en „eðlilegt“ getur talist. Um tvítugt áttaði ég mig á að þessi togstreita sem orsakaði oft angistarfullan kvíða og skömm gæti ekki verið eðlilegt lífsmynstur, svo ég leitaði til geðlæknis og afhjúpaði málið, í ljós kom að grunur minn reyndist réttur, þetta var langt frá því að vera eðlilegt þó það væri algengara en ég teldi. Handþvottaáráttan sem hefur fylgt mér um langa hríð er t.d. eitthvert algengasta form áráttu og þráhyggjuröskunar ásamt því að raða hlutum jafnt og fullvissa sig mörg hundruð sinnum um að það sé slökkt á eldavélinni og þurrkaranum.
Síðan ég var tvítug hef ég tekið inn lyf við þessari óáran, raunar með hléum en þau verða æ styttri enda kannski útséð með það að serótónin boðefnið taki upp á einhverjum sjálfsþurftarbúskap í höfðinu á mér.
En af hverju er ég að segja frá þessu? Manneskja sem stend alla daga í lappirnar sem móðir, eiginkona og síðast en ekki síst prestur í stóru samfélagi. Jú einmitt vegna þess vil ég segja frá því. Vegna þess að þegar mér leið sem allra verst sem var áður en ég uppgötvaði og varð læs á sjúkdóm minn og lærði að lifa með honum, þá fann ég gríðarlegan styrk í því að heyra eða lesa um fólk sem ekki einungis var komið lengra en ég heldur lifði hreinlega heilbrigðu lífi þrátt fyrir allt, sem gat gefið af sér og gert öðrum gagn þó það fetaði stundum sína dimmu dali. Slíku fólki á ég margt að þakka. Gildi þess að ganga fram í vanmætti sínum verðu seint fullmetið. Ég hugsa að ég hafi gert meira gagn sem sálusorgari þegar ég hef gengið fram í „veikleika“ mínum en styrkleika þess vegna lít ég svo á að veikleikar mínir séu hreinlega styrkleikar, kannski fyrir utan veikleika mína í fjármálum en þar er ég bara heiðarlegt fífl og engin lyf sem gagnast við því. Í upphafi sumarfrís þar sem bjartar nætur minna mig á mína eigin björtu nætur þar sem ég hef greint fegurð lífsins í angurværu ljósi langar mig að deila þessu með þér kæri lesandi, ég hefði ALDREI gert það fyrir 5 árum eða svo en í dag hef ég ekki einungis húmor fyrir óboðna makanum, mér þykir jafnvel pínulítið vænt um hann.