Lesa meiraAð vera plebbi "/> Skip to content

Að vera plebbi

Ég var stödd í stórum kvennahópi um daginn þar sem við vorum beðnar um að segja frá því hvernig við ræktuðum líkama okkar og sál hversu mikinn áhuga við  hefðum á fatatísku og fatakaupum. Þarna sat ég opinmynnt yfir uppgötvunum mínum á spendýri sem ég vissi ekki að hefði fest rætur hér á landi en það er hið svokallaða nægjusama dýr sem tilheyrir hópi kvendýra sem segjast ekki hafa gaman af að fara í búðir og kaupa sér föt. Þær voru að vísu ekki margar þarna í hópnum enda eflaust erfitt fyrir svo nýja tegund að festa rætur á landi þar sem enn tekst að láta fólk halda að það þurfi sérstaka tegund af plastdöllum undir matarafganga eða skúringamoppur sem kosta jafn mikið og íslenski þjóðbúningurinn enda gerðar úr einstökum örtrefjum sem hafa verið þróaðar hjá Nasa samhliða fyrstu bílunum sem geta ekið um Mars. Þið haldið eflaust að ég sé að hæðast að öðru fólki en trúið mér ég er fórnarlamb númer eitt, því ég á bókstaflega allt sem hefur komist í heimakynningar síðan Hrafna- Flóki nam hér land ásamt þeim félögum Þórólfi og Herjólfi. Ef það heitir Tupperware, Enjo, Volare eða Saladmaster, þá finnst það í mælanlegu magni á mínu heimili. Ég á hvorki flatskjá né Arne Jacobsen stól, en ég á hins vegar 500.000 króna pottasett sem ég keypti á raðgreiðslu korteri eftir hrun og sé ekki fram á að greiða að fullu fyrr en sérstakur saksóknari hefur lokið störfum. En þetta er vegna þess að ég er bæði nýungagjörn, trúgjörn (atvinnusjúkdómur) og bullandi meðvirk með sölufólki sem hefur haft fyrir því að drösla varningi upp að íslensku heimili, taka upp úr töskum og horfa á gestina snæða alls kyns kruðerí á meðan það þylur í hundraðasta sinn ræðuna um allt sem er ómissandi. Ég er svo meðvirk að þegar mér var boðið á fyrrnefnda pottakynningu hafði ég ekki einu sinni hugmynd um á hvaða verðbili þessir pottar væru og sagði manninum mínum að okkur væri boðið á kynningu þar sem hægt væri að versla vandaða potta á kostakjörum. „Og hvað kosta svo þessir pottar“? Spurði hann, „bara svona 12 til 15 þúsund“ svaraði ég án þess að vita að það væri bara færslugjaldið fyrir raðgreiðslusamningnum.

Sölumaður pottanna var svona eftir á að hyggja ekki bara sölumaður, heldur dáleiðari sem kom mér smátt og smátt í skilning um það að ef ég keypti ekki þessa potta þá myndu börnin mín vaxa upp með Teflonheila og vita ekki neitt og við hjónin verða offitusjúklingar með næringarskort. Ef þú þekkir ekki  Saladmasterpottana þá veistu væntanlega ekki að þeir hafa ventil sem sér til þess að þú eldir matinn á viðunandi hita svo að næringarefnin fljúgi ekki út eins og andinn í Aladin. Og ef þú hefur séð dáleiðara baka köku úr grænmetisafgöngum líkum þeim sem eru notaðir í moltugerð hér fram í sveit, þá veistu líka að þú ert ekki að fara að yfirgefið „pleisið“ fyrr en þú hefur keypt sett á hálfa milljón og  urðað gömlu pottana með viðhöfn.

En svo erum við hjónin svo lánsöm að vera í matarklúbbi með gömlum menntaskólavinum og þið vitið hvernig þetta er með vini manns úr menntaskóla, þeir eru svo mikilvægir afruglarar af því þeir þekkja þig áður en þú heldur að þú sért eitthvað, þannig að þér er lífsins ómögulegt að reyna að vera eitthvað annað en þú ert í návist þeirra. Þess vegna eru Saladmasterpottarnir sem að n.b. eru enn í greiðslu, endalaus uppsretta hláturs í þessum dásamlega klúbbi. Fyrst þegar þeir bárust í tal reyndum við bæði að telja þeim trú um að Teflonpottar væru pottar djöfulsin en Saladmasterpottarnir væru fordyri himinsins en uppskárum aðeins hlátursvein sem stóð langt fram eftir kvöldi og er nú tveimur árum síðar eins konar upphitun í hverjum einasta matarklúbbi. Þannig að nú vitum við hjónin að við erum löggiltir plebbar sem eigum potta með ventlum og geymum matinn okkar í gerilsneyddum plastdöllum frá Tupperwear. Og það sem meira er við erum enn yfir kjörþyngd og skammtímaminni mínu hefur frekar hrakað en hitt.

Og af hverju eru ég að segja ykkur þetta. Jú vegna þess að ég var beðin um að tala um heilbrigðan lífsstíl hér í dag og kannski tæpa á raunverulegum lífsgildum en vildi áður en lengra er haldið gera ykkur grein fyrir því að þó að ég hafi mjög markvissar hugmyndir um lífið og tilveruna þá lifi ég því engu að síður eins og venjulegur plebbi.

Ég fer t.d. mjög oft í tískuvöruverslanir og kaupi mér bara „eitthvað“ ef ég upplifi mig undir miklu álagi eða bara heiðarlega vorkenni sjálfri mér. Og þegar ég fer að versla í þeim fasa þá geri ég oftar en ekki mistök. Eins og um daginn þegar ég keypti mér rósóttar leggings án þess að máta þær. Ok í fyrsta lagi er ég komin á fertugsaldur, hef ekki verið með spóaleggi síðan ég fermdist og sinni starfi sem krefst oft nokkuð hefðbundins klæðnaðar. Það er skemmst frá því að segja að þegar heim var komið og ég búin að troða mér í rósóttar legginsgbuxurnar sem reyndust líka of stuttar, leit ég út eins og svona ódýr sumarbústaðarsófi úr IKEA sem öllum finnst ljótur en notalegt að kúra í.

Þess vegna segi ég við ykkur, EKKI versla í ójafnvægi, það er dýrt fyrir budduna og sjálfsmyndina.

Verslið frekar þegar þið eruð úthvíld og glöð og þurfið ekki að uppfylla eitthvert sálartóm. Sálfræðingar eru miklu heppilegri fjárfesting undir þeim kringumstæðum.

En hvað geri ég þá til að rækta sjálfa mig, eins og ég var spurð í kvennahópnum um daginn? Ég rækta hæfileika mína og tengslin við fólkið sem ég elska mest.

Fullkominn sjálfsræktunardagur myndi samanstanda af því að vakna og þakka fyrir það, drekka góðan kaffibolla, borða ristaða beyglu með osti og bláberjasultu, fara út að hlaupa, gera mig fína, skrifa ljóð, smásögu eða pistil, fara í göngutúr með manninum mínum, sonum okkar og hundi, fara með þeim að heimsækja ömmur og afa, frændur eða frænkur. Fara í sund, borða góðan mat, horfa á góða bíómynd, lesa bók, krúsast við manninn minn og sofna sátt við Guð og menn og þess á milli að hlæja beint neðan úr maga með viðkomu í hjartastað.

Auðvitað er aðal lífsfyllingin fólgin í því að finna sig tilheyra öðrum og elska og vera elskaður en það er líka mjög mikilvægt að koma auga á hæfileika sína og rækta þá.

Ég verð að segja fyrir mig að ég verð í raun aldrei þreytt að loknum þeim aðstæðum þar sem ég hef verið knúin til að skapa og þar sem eitthvað stendur eftir sem verður öðrum til gagns og ánægju. Ég verð frekar þreytt þegar ég er undir miklu tilfinningalegu álagi eða þegar ég finn að mér er hætt að miða áfram með það sem ég er að gera. Ég verð þreytt þegar ég hef ekki stjórn á aðstæðum mínum eða þegar ég hef ekki verið skynsöm í fjármálum og þarf að taka skellinn, ég verð líka þreytt þegar ég er ósátt við mína nánustu og þegar ég hef ekki gefið börnunum mínum nægan tíma. Með öðrum orðum, ég verð þreytt og tætt þegar ég næ ekki að rækta garðinn minn, jafnvel þó allt ytra byrði sé í lagi en þá er líka spurningin þessi hversu lengi verður allt ytra byrði í lagi ef maður nær ekki að rækta garðinn sinn, hvað líður langar tími uns illgresið fer að vaxa yfir grindverkið? Það er spurningin sem ég læt ykkur eftir að svara með sjálfum ykkur, já það er spurningin sem við verðum að spyrja okkur hvern einasta dag.

Published inPistlar