Lesa meiraBrad Pitt og hjónabandið "/> Skip to content

Brad Pitt og hjónabandið

Snerting er máttug tjáning. Enn man ég stundirnar með pabba mínum inn á Landakotsspítala þegar lögheimili hans hafði verið endanlega flutt yfir í Grænaland gleymskunnar. Enn man ég þær stundir og samt voru samtölin fá og þögnin svo sterk, en ég man snertinguna þegar ég lagði hönd mína í lófa hans, strauk skeggvaxinn vangann og kyssti hann á kinn. Og það sem ég man við þessa snertingu er að þá þekktumst við aftur um stund. Í þau fáu skipti sem ég heyrði hann nefna nafnið mitt og það barst eins og bergmál frá fjöllum í kring eða eins og eina orðið sem er hrópað í mannlausri borg, þá var það þegar við snertumst. Orð eru máttug, hlý, beitt, falleg, ljót, lygin, sönn og vitur en þau segja samt ekkert í líkingu við snertingu og snerting lýgur aldrei hún er bara það sem hún er. Þess vegna er hún máttugri en orð og þess vegna er hún grundvöllur hjónbandsins og besta leiðin til að varðveita það. Já hvaða tvö andartök hrífa mest við hjónavígslu? Er það ekki það þegar hjónin takast í hendur til að innsigla heitin sín um leið og vígslumaðurinn lýsir því yfir að þau séu hjón og svo þegar þau kyssast? Þá hrífumst við með, grátum, hlæjum og klöppum, af því að snerting er eitthvað sem allir menn skilja.

Þess vegna er svo mikilvægt að snerta þá sem standa manni næst, makann, börnin, foreldra og alla sem standa þér nærri og þú vilt að þekki ást þína. Þær aðstæður geta orðið sem útiloka alla tjáningu nema þá sem verður með snertingu, t.d. alvarleg veikindi eða langvinn deila sem enginn kann að vinda ofan af með orðum, engin veit hvar hófst eða hvernig á að ræða. Stundum er snerting eina leiðin til að brjóta múra og hjálpa fólki til að tjá sig, því einhvern veginn er fáránlegt að faðmast fyrst og höggva svo.

Ég hefði aldrei trúað því fyrr en nú að ég ætti eftir að vitna í Hollywood hjartaknúsarann Brad Pitt í kirkjulegu samhengi. En af hverju ekki? Hann er jú bara maður eins og ég og þú. Ég tók nefnilega eftir frétt á vefmiðli á dögunum sem fjallaði um afstöðu hans til konu sinnar Angelinu Jolie en þau eru eins og flestir vita eitt frægasta par veraldar. Það fríar þau hins vegar ekki frá vandamálum og þjáningu, þó oft mætti ætla annað á ímyndinni sem sköpuð er í kringum einstaklinga eins og þau. En sumsé þó að viðtalið sem bar  fyrirsögnina „Brad Pitt fer fögrum orðum um sína heittelskuðu Angelinu Jolie“ hafi ekki verið að öllu leyti í tengslum við okkar raunveruleika þá var einn punktur í því mjög mikilvægur. Pitt segir þarna frá því þegar kona hans var að ganga í gegnum mjög erfiða tíma sem birtust í margvíslegum kvíða og ótta við að gera mistök, svefnleysi og almennri vanlíðan eins og getur hent hvern einasta mann og hann lýsir því hvernig ein eftirsóttasta leikkona veraldar missti trúna á sjálfa sig sem var þess valdandi að samskipti þeirra hjóna versnuðu og hann var farinn að sjá fyrir sér skilnað. Þá hafi hann hins vegar ákveðið innra með sjálfum sér að sækja fram í stað þess að hörfa, hann ákvað að reisa konu sína við í stað þess að yfirgefa hana. Hann fór að leggja meira á sig til að sýna ást sína og trú og smátt og smátt fór þeim báðum að líða betur. Og jafnvel þótt að leiðirnar sem hann nefnir í viðtalinu eigi kannski ekki alveg samhljóm við líf venjulegs fólks þá er hugsunin að baki þessu nokkuð sem allir geta notað. Það er nefnilega þannig að í hjónabandinu koma lægðir í lífi beggja aðila, það er jafn öruggt og að sólin kemur upp að morgni dags og þegar það gerist hjá öðru í einu þá er svo mikilvægt að hinn aðilinn sé ekki víkjandi, fari ekki að hugsa, af hverju getur maki minn ekki verið eins og hann var, fyrir mig? Heldur hugsi í staðinn, hvað get ég gert til að maki minn verði sá eða sú sem hann var? Þetta snýst eiginlega um að að líta sjálfan sig sem viðgerðarmann, við þurfum nefnilega stundum viðgerðarhlé í lífi okkar, rétt eins og í Formúlunni. Það þýðir ekki að viðkomandi eigi að kaupa dýrar gjafir eða tala bara um maka sinn í fjölmiðlum eins og Pitt gerði ásamt fleiri hlutum sem voru vissulega gagnlegir, heldur snýst þetta um að gefa af styrk sínum, hrósa meira, snerta meira, hlusta meira og hafa frumkvæði að lausnum, af því að hamingja maka þíns er á endanum hamingja þín. Hjónabandið er alltaf gagnvirkur veruleiki og dásamlegur veruleiki ef fólk er tilbúið að vera til staðar bæði á góðum og vondum dögum, því geta meira að segja vondir dagar endað á því að verða nokkuð góðir.

Að lokum, snerting er máttug tjáning. Ef snerting getur sent flöskuskeyti yfir í Grænaland gleymskunnar og vakið veika til meðvitundar um ástvini þeirra, þá getur hún allt. Þá er hún svarið.

Published inPistlar