Lesa meiraHjónabandsráð mömmu "/> Skip to content

Hjónabandsráð mömmu

Mamma mín sem er komin nálægt áttræðu hefur alltaf haldið tvennu fram um hjónabandið. Annars vegar því sem hún hamraði á við mig þegar ég var yngri að ég skyldi ekki ná mér í maka fyrr en ég væri fyrsta lagi orðin 25 ára, því til rökstuðnings benti hún á sitt eigið hjónaband en foreldrar mínir voru komnir af léttasta skeiði miðað við þeirra tíðaranda þegar þau giftu sig, þau voru s.s. 26 ára. Mamma sagði alltaf og ég veit að hún meinti það vel að hún hefði sjálfsagt aldrei haft smekk fyrir honum pabba mínum þegar hún var t.d. 18 ára, „Hildur mín hann var náttúrlega lágvaxinn og feitlaginn en með alveg gríðarlegan sjarma, en maður þarf að vera búin að taka út svolítinn þroska til að koma auga á slíkt.“ Mér fannst pínu eins og hún væri að segja mér að ég skyldi bíða sjálf þangað til ég yrði 25 ára af því að ég væri heldur ekki með viðurkennt útlit og þess vegna myndi enginn almennilegur maður koma auga á gáfur mínar og gæði fyrr en hann væri komin vel á þrítugsaldur, jafnvel fertugsaldur eða bara á ellilífeyri. Kannski er þetta oftúlkun en sama hvað þá veit ég að hún mamma mín elskar mig út af lífinu og vill mér allt það besta. Ég hlýddi hins vegar ekki þessu ráði hennar heldur gifti mig rúmlega tvítug eða sirka korteri eftir að ég varð kynþroska.

Hitt ráðið hennar mömmu var eftirfarandi „ það eiga öll verðandi hjón að fara fyrst í brúðkaupsferðina og sjá svo til hvort þau treysti sér til að ganga í hjónaband.“ Ég fylgdi heldur ekki þessu ráði en ég veit hins vegar að það er heilmikið til í því. Það reynir nefnilega heilmikið á sambönd að ferðast ekki síst utan landssteina, í rauninni afhjúpa slík ferðalög allt það versta og besta sem er fólgið í sálu manns. Ég man t.d. eftir því þegar ég fór í fyrstu utanlandsferðina með manninum mínum og ég vissi ekki að það væri laumufarþegi um borð s.s. frumburður okkar hjóna og ég var svo brjáluð í skapinu að mér tókst að öskra  á hann einn morguninn af því að hann nennti ekki að fara og kaupa handa mér kaffi einn, tveir og þrír og svo sparkaði ég líka í rassinn á honum af því að hann var fyrir mér þegar ég ætlaði á salernið. Ég hef aldrei verið talin ofbeldishneigð en þarna voru einhverjir hormónar að verki sem drekktu mínum uppruna karakter í skapofsa og djöfulgangi . Þetta var s.s. brúðkaupsferð okkar hjóna, ég prísa mig sæla að maðurinn minn skyldi ekki hafa heyrt ráð móður minnar áður en við héldum í þessa ferð. Þá væri ég sennilega bara núna að póka á Facebook eins og enginn væri morgundagurinn.

Það hafa orðið til ótrúlega mörg ráð í gegnum tíðina varðandi það að velja sér rétta makann og lifa í farsælu hjónabandi. Mörg þessara ráða eru vissulega allrar athygli verð og geta á stundum breytt kúrsinum til batnaðar. Hins vegar er það að vera manneskja svo miklu flóknara en svo að með manni geti fylgt  leiðbeiningar sem er nóg að lesa og skilja til að allt fari vel. Að vera manneskja þýðir óvissa og óvæntar uppákomur og þess vegna er hjónabandið líka óvissa og óvæntar uppákomur. Það getur aldrei orðið öðruvísi. Þess vegna duga ráðin skammt ef maður er hræddur við óvissuna, eiginlega þarf maður fyrst af öllu að sætta sig við hana áður en maður getur farið að nýta öll ráðin sem fljóta á veraldarvefnum og í samtölum við foreldra og fagaðila.

Þegar maður ákveður að deila lífi sínu með annarri manneskju, manneskju sem manni er ekki beint eðlislægt að elska líkt og börnin sín eða foreldra þá er svo mikilvægt að gera sér grein fyrir því að allt getur gerst. Lífið er breytingum háð. Sú staða eða ímynd sem makinn hefur þegar þið takið ákvörðun um að vera saman getur breyst á einni nóttu. Við getum misst heilsuna jafnvel þó við lifum heilbrigðu lífi, við getum misst vinnuna jafnvel þó að við séum samviskusöm og dugleg og við eldumst og hrörnum jafnvel þó að við höfum verið mjög heppin í genalottóinu. Þess vegna skiptir svo ótrúlega miklu máli að rækta það sem er ekki óviðráðanlegt, sem að tími eða utanaðkomandi áhrif hafa ekki á valdi sínu en það er vinátta, líkamleg og tilfinningaleg nánd sem að stýrist helst af snertingu og hlustun af því að snerting lýgur ekki heldur opinberar meira en mörg orð og hlustun af því að við þurfum að eiga einhvern að sem vill og þorir að heyra það sem við erum að hugsa og upplifa.

Ef við ræktum þetta í hjónabandinu þá geta önnur ráð orðið til að gera gott betra. Ég hef ekki fylgt neinum af þeim ráðum sem mamma hefur borið á borð varðandi makaval og hjónaband en það sem hún hins vegar veit ekki er að hún og pabbi voru mér á svo margan hátt fyrirmyndir í sínu hjónabandi, þau voru svo miklir vinir og þau spjölluðu endalaust saman og veittu hvort öðru stuðning og uppörvun, ég man t.d. það að pabbi hélt aldrei svo ræðu á opinberum vettvangi að hann þakkaði ekki mömmu allt sem hún hefði verið honum. Það segir mér að í stað þess að dæla ráðum í börnin okkar að þá skiptir mestu að vera fyrirmynd í verki þegar kemur að hjónabandinu eins og öðru.

Published inPistlar