Margrét heitin Þórhallsdóttir ljósmóðir var jarðsungin frá Akureyrarkirkju í liðinni viku. Margrét er mörgum kunn hér í bæ enda átti hún langan og farsælan starfsferil að baki hér á sjúkrahúsi Akureyrar í hlutverki sem var ekki bara vinnan hennar heldur köllun, starfið átti hug hennar og hjarta alla tíð.
Orðið ljósmóðir var ekki alls fyrir löngu valið fegursta orð íslenskrar tungu. Það get ég vel skilið enda yljar það inn að hjartarótum á meðan t.d. orðið örbylgjuofn fær mann til að snögglega endurskoða þjóðerni sitt. Út frá fagurfræðilegu sjónarmiði er orðið ljósmóðir mjög sterkt en þó held ég að veruleikinn að baki því hafi ráðið meira um úrslitin en margan grunar. Ljósmóðir vinnur í fyrsta lagi alveg gríðarlega mikilvægt ábyrgðarstarf en svo er líka eðli starfsins þannig að nærvera hennar grópast í huga og hjarta tilvonandi og nýbakaðra foreldra. Ég mun aldrei í lífinu gleyma ljósmæðrunum sem tóku á móti drengjunum mínum tveimur, þó ég gleymi afmælisdögum náinna ættingja þá er ekki séns að ég muni nokkurn tíma gleyma þessum tveimur konum. Aðra þeirra hitti ég reyndar stundum þar sem hún er gift æskuvini bróður míns en hina hef ég aðeins einu sinni hitt síðan eldri sonurinn fæddist fyrir 12 árum síðan. Ég man alltaf þegar ég sá hana í Smáralindinni í Kópavogi og strákurinn var sirka tveggja ára og mér hitnaði að innan eins og ég hefði séð móður mína eftir áratuga aðskilnað og ég nánast hljóp til konunnar með drenginn í eftirdragi og sagði „hæ manstu eftir mér, þetta er hann Haraldur Bolli sem þú tókst á móti 19. febrúar fyrir tveimur árum , fæddur rétt fyrir miðnætti, manstu hann var með svolítið stórt höfuð eins og við foreldrarnir og ég var komin tvær vikur fram yfir og vildi fæða í vatni.“ Ég get svo svarið það að ég mun aldrei vita hvort hún mundi í raun og veru eftir mér, kona sem starfar á Landspítalanum við Hringbraut og tekur eflaust á móti nokkur hundruð börnum á ári , en hvernig sem það var þá brosti hún blítt og sagðist svo sannarlega muna og hvað drengurinn væri nú orðinn stór og myndarlegur og svo spjölluðum við aðeins um líf og heilsu og gott ef ég kvaddi hana ekki með þeim orðum að ég myndi aldrei gleyma henni. Kannski pínu ýkt og dramatískt. Samt var ég löngu búin að jafna mig á hormónunum þegar þetta var, ekkert til að skýla sér á bak við nema einlægt þakklæti af minni hálfu og sömu tilfinningu bar ég líka til ljósmóðurinnar sem tók á móti þeim yngri. Þetta eru konur sem ég lagði allt mitt traust á, á mikilvægustu stundum lífs míns, ef þær hefðu verið ónærgætnar og hryssingslegar eða bara fáskiptnar, þá hefði ég heldur ekki gleymt því. Það voru margir foreldrar sem mynduðu sterk tengsl við Margréti heitna Þórhallsdóttur já jafn sterk og ég myndaði við mína ljósur, Margrét átti í fórum sínum ógrynni af ljósmyndum af nýfæddum börnum sem hún hafði tekið á móti og foreldrar sent henni í þakkarskyni og einmitt af þessari tilfinningu sem greip mig forðum í Smáralindinni og helgast af því þegar einhver hefur verið fullkomlega til staðar fyrir mann í hríðarkófi verkja og vanmáttar. Einu sinni hitti systir hennar Margrétar ungan mann og þau tóku tal saman og fljótlega uppgötvar maðurinn að viðmælandi hans er systir ljósmóðurinnar sem tók á móti einu barna hans og svipur hans varð dreyminn þegar hann sagði „ oh hún strauk mér svo vel um bakið þegar við vorum að fæða“, Margrét hafði nefnilega lag á að láta feðurna finna að þeirra „verkir“ væru ekki ómerkilegri en hinna fæðandi kvenna, þeir voru að hennar mati líka að erfiða í oft vanmetinni samstöðu. Þetta var á þeim árum sem feðurnir voru smátt og smátt að færa sig af ganginum inn á fæðingarherbergið, færa sig frá því að vera gestir yfir í að vera heimamenn við fæðingu eigin barna. Sú þróun var náttúrlega öllum til hagsbóta.
Það er eitthvað við þetta starf, ljósmóðurstarfið sem verður þess valdandi að í huga mínum og eflaust annarra er það einhvers konar fyrirmynd annarra starfa, sennilega af því að í eðli sínu snýst það um að hjálpa lífinu í heiminn með umhyggju og kærleika að vopni þó svo að menntun og reynsla spili auðvitað stóra rullu, oftast verða hinir fæðandi foreldrar þó mest varir við hið fyrrnefnda,ekki síst ef allt er með felldu. Orðið ljósmóðir segir allt sem segja þarf um starfið, móðir ljóssins, sú sem greiðir ljósinu veg. Kirkjan er ljósmóðir sem er ætlað að laða fram lífið með umhyggju og kærleika að vopni, hún á að laða það besta fram í fólki og það gerir hún með því að beita sömu aðferðum og ljósmóðir við fæðingu barns. Þessi tilfinning að tengjast áður ókunnugri konu slíkum böndum sem hér hefur verið lýst er góður mælikvarði á hlutverk og tilgang kirkjunnar sem samfélags . Ég veit að margt fólk hefur þessa tengingu við sína kirkju og það er ekki bara út af byggingunni sem slíkri því þó hún sé e.t.v. falleg og hlý helgast tilfinningin fremur af þeirri upplifun að hafa á mestu gleði og sorgarstundum fengið að njóta umhyggju og kærleika sem grópast í hugann eins og hendur ljósmóður við fæðingu barns, já eins og starfsfólkið á dvalarheimilinu Hlíð sem stendur alltaf heiðursvörð við Þórunnarstrætið neðan við Hlíð þegar líkfylgd látins íbúa fer hjá, bara til þess að segja án orða „þú skiptir okkur máli, hafðu þökk fyrir allt.“ Það er samferðarfólkið sem getur skapað þessa líðan, við höfum vald til að vera ljósmæður í lífi náungans. Og af því að kirkjan er einmitt ekki bara þessar fallegu byggingar víðsvegar um landið heldur hreyfing Jesú Krists innan sem utan húss, þá er vert að skoða hvernig við getum haldið guðsþjónustunum gangandi í samskiptum okkar hvern einasta dag.
Ég held að það sé hvergi verra að vera tapari en á Íslandi og hvergi verra að gera mistök en á Íslandi, ekki af því að afleiðingarnar séu svo svakalegar miðað við önnur lönd heldur vegna þess að umræðan verður oft svo andstyggileg. Og kannski þess vegna er fólk síður tilbúið að viðurkenna mistök sín vegna þess að staðreyndin er sú að óttinn við að missa vinnu eða þurfa að láta af einhverju embætti er örugglega minni en óttinn við að eiga ekki aftur séns, eiga afturkvæmt og umræðan er oft þannig að fólk mun sennilega ekki eiga aftur séns ef það á annað borð gengst við mistökum sínum. Með þessum hætti vinnum við oft gegn því að sannleikurinn fæðist fram. Umræðuhefð okkar á þessu landi stjórnast af ótta og vekur þar af leiðandi upp ótta og mér finnst það umhugsunarvert vegna þess að kannski gerum við okkur ekki alltaf grein fyrir því hversu mikil og víðtæk áhrif slíkt andrúmsloft hefur. Það er vel hægt að vera gagnrýnin án þess að stýrast og stjórna með ótta, án þess að í orðunum felist hótun, það er nefnilega sálarlífið að baki gagnrýninni sem sker úr um hvort hún sé yfirhöfuð gagnleg. Það er hjartalag gagnrýnandans og afstaða til samferðarmanna sem ræður úrslitum um gagn orðanna. Hvort við lítum á okkur sem eina heild, samferðarmenn og jafningja þar sem hver maður skiptir máli eða hvort við lítum á samfylgd okkar sem samkeppni þar sem þeir „hæfustu“ lifa af. Jesús hafði þann eiginleika að umfaðma fólk , jafnvel þegar hann varð brjálæðislega reiður, eins og þegar hann hratt um borðum víxlaranna í musterinu og húðskammaði þá fyrir að gera helgidóminn að ræningjabæli, þá var hann ekki bara að tala um einhverja steinsteypta byggingu heldur helgidóm mannlegrar sálar.
Hann varð reiður af því að hann elskaði þá sem hann var reiður við og þess vegna varð reiðin ekki stingandi heldur gagnleg og góð, reiðin getur verið góð, hún getur jafnvel orðið falleg sé hún knúin áfram af djúpri réttlætiskennd og ást á mannfólkinu.Við þurfum að vinna að því að greiða ljósinu veg, hjálpa sannleikanum í heiminn og gera það þannig að þrátt fyrir sársauka og verki þá myndist einhver djúpstæð tengsl sem aldrei rofna jafnvel þó að við þekkjumst ekkert að öðru leyti.