Lesa meiraJólin og sorgin "/> Skip to content

Jólin og sorgin

Jól í skugga sorgar þurfa ekki að vera ónýt jól. Jól í skugga sorgar verða hins vegar að fá að vera það sem þau eru, ekki hvað síst ef þau eru fyrstu jól án látins ástvinar. Syrgjendur kvíða oft þessum fyrstu jólum, tilhugsunin um þau verður oft grýlukennd. Jólin setja sorgina í nýtt samhengi, ef hrúður hefur verið farið að myndast  á sárið er líklegt að jólin kroppi svolítið ofan af því. Suma langar eðlilega til að setjast upp í tímavél og lenda við upphaf þorra, því miður er það ekki í boði og kannski ekki svo miður, það koma nefnilega önnur jól eftir þessi jól og þá er kannski skárra að vera búin að ganga í gegnum þau fyrstu.Það er mikilvægt að gera plön fyrir þessi fyrstu jól, þurfa ekki að takast á við bæði óvissu og sorg, sorgin er viðráðanlegri án óvissunnar, það er svo merkilegt.

Sumir ákveða að fara utan og halda jól í öðru landi, aðrir þiggja heimboð ættingja eða vina og geta þá hvílt sig á matarstússi, verið í öðru umhverfi en samt innan um fólk sem veitir gleði og skjól, svo eru enn aðrir sem vilja bara vera heima og reyna eftir fremsta megni að hafa allt með svipuðu móti og áður.

Það er engin leið réttari en önnur , það eina sem skiptir máli er að virða sjálfsákvörðunarrétt syrgjenda því þeir vita best hvernig þeim líður, virk hlustun er svarið ekki virk stjórnun.

Við þig sem ert að fara að lifa fyrstu jól eftir ástvinamissi vil ég segja eftirfarandi: Þú ert ekki brúðkaupsböðull ( wedding crasher) þó þú getir ekki verið í sama jólafíling og aðrir í kringum þig, þetta er ekki eins og að mæta í brúðkaup og standa upp í miðri athöfn til að mótmæla ráðahag brúðhjónanna eða halda óþægilega hreinskilna ræðu í veislunni. Þú ert ekki að fara að skemma neitt, af því að það á enginn þessi jól, það hefur enginn kostað til þeirra nema þá Jesús en eins og þú manst þá fæddist hann ekki innan um ljósaseríurnar í Ikea heldur í gripahúsi þar sem von og ótti tókust á um völdin. Jólin eru hátíð gleði og sorgar af því að um leið og barnið fæddist í Betlehem var vitað að það myndi dag einn deyja og þannig er það með okkur öll og þess vegna er fæðingarhátíð frelsarans alltaf ljós í myrkri, ljósið er sterkara en myrkrið er samt til staðar. Þess vegna höfum við sennilega svipaðan tjáningarmáta á jólum og í jarðarförum, við veljum tónlist af mikilli kostgæfni, tónlist sem laðar fram og umlykur minningar okkar, við skreytum með blómum og kertum, við bökum og við köllum til fjölskyldu og vini og hlátur og grátur haldast þéttingsfast í hendur eins og gömul hjón sem fóta sig saman á ísilagðri götu.

Hver sem leið þín verður þessi fyrstu jól án látins ástvinar vil ég hvetja þig til að gera eitt umfram annað,þegar sest er að hátíðarborðum bættu þá við tveimur stólum. Á öðrum stólnum geta sorgin og gleðin setið saman því þær eru býsna samrýmdar systur á hinum skaltu hafa minningarnar, settu þann stól við borðendann þannig að allir sem sitja, meðtaki minningarnar og þannig verður hinn látni með í samfélaginu og grátur og hlátur verður jafn sjálfsögð blanda og malt og appelsín.

Published inPistlar