Lesa meiraKonsertmeistarinn "/> Skip to content

Konsertmeistarinn

Einu sinni lærði ég á fiðlu. Áhuginn kom yfir mig eins og elding er ég fór sex ára gömul á sinfoníutónleika með foreldrum mínum, þá var egóið svo stórt í þessum annars litla sex ára líkama að ég heimtaði strax eftir tónleikana að pabbi hefði samband við Tónlistarskólann á Akureyri og innritaði mig til fiðlunáms, ég mátti engan tíma missa. Þá var stefnan ekki sett á að eignast vini eða efla félagsþroska heldur verða konsertmeistari.

Fyrst lærði ég að spila eftir svokallaðri Suzuki aðferð sem þá hafði nýlega rutt sér til rúms og fólst í því að leika eingöngu eftir eyranu. Það gekk ágætlega, efnisskráin samanstóð af Signir sól og Litlu andarungarnir. Ég hef alltaf ætlað mér að skrifa henni Lilju Hjaltadóttur sem kenndi mér þá og spyrja hvaða leiðir hún  hafi farið til að viðhalda serótónínmagni líkamans því ég held að fyrir utan heila og taugaskurðlækningar þá sé þetta eitthvert mesta álagsstarf sem hægt er að hugsa sér.

Nú tíminn leið en vann því miður ekki með litla fiðluleikaranum því áhuginn færðist fljótt frá því að æfa sig heima yfir í það að nenna eingöngu að spila á tónleikum. Ekki veit ég lesandi góður hversu mikla þekkingu þú hefur á klassískri tónlist en ég get þá frætt þig um það að í himnaríki hafa allir englarnir æft sig á strengjahljóðfærin af því að annars væri það ekki himnaríki.

Næstu árin reyndust foreldrum mínum mjög þungbær og þegar ég lít til baka þá finnst mér eins og þetta hafi verið tíminn þar sem þau ákváðu bara  að verða  gömul,  þá sérstaklega eftir fimmtu vortónleikana þar sem dóttir þeirra kom fram og spilaði Guð gaf mér eyra. Það var pínu svona walk of shame. Þegar ég var ellefu ára lauk tónlistarferlinum og einhverra hluta vegna var þetta í eina skiptið á mínum ungdómsárum sem pabbi hélt ekki ræðuna um að maður yrði að klára hafið verk.

Og  hvaða ályktun er hægt að draga af lífsreynslu minni ágæti lesandi? Jú að það er einmitt best að leggja af stað með það að markmiði að eignast vini, að það borgar sig að vinna heimavinnuna sína hvort sem maður er prestur, pólitíkus eða fiðluleikari og að það þurfa ekki allir að verða meistarar, hvað þá konsertmeistarar. (pistill birtur fyrst á akv.is)

Published inPistlar