Lesa meiraHin lamandi skömm "/> Skip to content

Hin lamandi skömm

Þegar Jesús er að reisa við lamað fólk samkvæmt frásögnum Biblíunnar er hann þá raunverulega að gefa mænusködduðu fólk mátt til að ganga eða er þessi lömun sem um ræðir kannski annars eðlis? Ég verð að viðurkenna að hérna áður fyrr þóttu mér kraftaverkasögurnar í Nýja testamentinum alltaf svolítið vandræðalegar, ég reyndi jafnvel að skauta framhjá þeim bæði í sunnudagaskólanum og  í fermingarfræðslunni. Ég trúi nefnilega  á algóðan Guð en ég hef aldrei verið upptekin af því að líta á hann eða hana sem almáttuga. Almættis stimpillinn er flókinn, lífið er fullt af þjáningu, gott fólk verður fyrir miklum harmi. Guð gaf okkur öllum líf en það er samt fjári ófullkomið , þetta er líf sem felur í sér þjáningar og dauða, á sama tíma er það líka fallegt og gott, það er raunar hvort tveggja í senn, aldrei bara gott og kannski aldrei bara slæmt. Ég hugsaði þetta einmitt í gær þegar ég hafði lokið við að skíra sex börn og gefa saman tvenn hjón að í gegnum grátur, hlátur, undrun og bros, ilm af heitum brauðrètti og flauelsmjúkan rjóma,kossa og myndavèlaflass sveif heilagur andi milli fólks og hnýtti saman taugar,eins og sannur skáti. Upplifun mín af því hvernig sorgin og gleðin dansa saman hefur hjálpað mér að sættast betur á það að lífið sé ófullkomið. Maðurinn er þá fjandakornið ekki einn í  einsemdinni, Guð er þarna líka og neitar að fara þó að heimsóknartíminn sé liðinn að mati hinnar lamandi þrenningar, sektar, skammar og samviskubits, sem rekja ættir sínar víða um land og út í heim.

Við erum allt lífið að fylla upp í skírnarkjólinn okkar í andlegri merkingu.Einu sinni skildi ég engan veginn þessar kraftaverkasögur, af hverju frelsarinn væri að handvelja nokkra lamaða eða blinda eða geðsjúka einstaklinga  og gefa þeim heilsu meðan aðrir þyrftu áfram að þjást í aðstæðum sem þeir hefðu enga stjórn á, það er ekkert hjálpræði fólgið í því. En í dag eru kraftaverkasögurnar í Nt þungamiðja trúar minnar, þær eru mér mjög mikilsverð sálgæsla. Ég held nefnilega að Jesús sé ekkert að lækna neina sjúkdóma eða fötlun í þessum sögum, ég held að hann sé að frelsa fólk undan lamandi og blindandi sektarkennd og skömm, þess vegna segir hann „syndir þínar eru fyrirgefnar.“  Ég veit kannski ekki margt en ég veit samt það að hann Jesús færi ekki að segja við mænuskddaðan mann „syndir þínar eru fyrirgefnar,“ eins og til að undirstrika að hann geti nú bara sjálfum sér um kennt að vera svona staddur. „Já já vinur minn, þú áttir ekkert að vera að príla þarna upp á þessu þaki en af því að ég er nú svo vel meinandi Guð að þá segi ég bara , syndir þínar eru fyrirgefnar .“

Þessar kraftaverkasögur eru fyrst og fremst geðhjálp frá Guði, skilaboðin eru skýr „ þú þarft ekki að lifa við lamandi ótta.“ Í kraftaverkasögunum er Jesús fyrst og fremst að veita sálgæslu og jafnvel sálfræðiþjónustu, Jesús var frábær sálfræðingur. Ég held að það megi með réttu segja að hann hafi verið upphafsmaður hugrænnar atferlismeðferðar, hann var alltaf að benda fólki á ógagnlegt hugsanamynstur eins og þegar hann talaði við samversku konuna við brunninn sem fyrirleit sjálfa sig vegna þess að hún hafði átt fimm menn. Hann vissi það en benti henni  á að það væri ekki kjarnaatriði í persónuleika hennar eða framtíðarhorfum og þess vegna fól hann henni að vera kristniboði svo hún hætti að einangra sig í skömminni og færi að umgangast annað fólk og uppgötva að allir eiga auðvitað köflótta fortíð. Jesús vissi að við hefðum tilhneigingu til að ætla að okkar persónulega fortíð væri verst leikna sápuóperan sem boðið væri upp á í þessu lífi. Hann vissi að við höfum tilhneigingu til að eitra líkama okkar með vondum hugsunum. Og þegar við erum í þessum hugsunum þá missum við getu til að standa í lappirnar gagnvart sjálfum okkur og öðrum.

Mér finnst íslenskt samfélag hafa verið lamað um langa hríð kannski alla 21.öldina sem spannar reyndar bara fjórtán ár. Fyrst vorum við ringluð í loftbólu góðærisins og svo urðum við sorgmædd þegar allt hrundi. Ég upplifi okkur stundum eins við séum með áfallastreituröskun, annars vegar erum við dofin og hins vegar reið en getan til að fást við sjálfan vandann er einhvern veginn ekki til staðar. Afleiðingar þessa eru að þeir þættir samfélagsins sem raunverulega skipta máli fyrir velferð okkar og vellíðan sitja á hakanum á meðan orkan fer í að velta sér upp úr fortíðinni. Auðvitað þarf hver maður og þar með hvert samfélag að gera fortíð sína upp til að geta haldið áfram og þess vegna er gott að t.d. bankahrunið hafi verið rannsakað og um það fjallað á opinberum vettvangi ekki síst til þess að læra af því og fá það staðfest að leikreglur aðdragandans séu ekki til eftirbreytni. Það sem er hins vegar áhyggjuefni er að gremjan sem skiljanlega ríkti í aðdraganda og eftirmála hrunsins virðist hafa fest rætur í þjóðarsálinni. Gleraugu gremjunnar eru að verða sameiginleg fjarsýnisgleraugu þjóðarinnar  sem við fáum stundum lánuð frá næsta manni til að rýna í aðstæður hverju sinni.

Heilbrigðiskerfi okkar mun steyta á skeri ef ekkert verður að gert, um það vitnar vandaður Kastljósþáttur í liðinni viku þar sem nokkrir læknar og hjúkrunafræðingur á Landspítalanum lýstu því með yfirveguðum en festulegum hætti hvernig starfsemin innan spítalans er komin að öryggismörkum frekar en þolmörkum. Húsnæði spítalans er úr sér gengið og jafnvel hættulegt sjúklingum, sérfræðingar haldast illa á landi vegna lélegrar aðstöðu og kjara sem verður þess valdandi að við förum á mis við nýja þekkingu. Og þau sem standa hér vaktina eru á slíkum hlaupum alla daga að þau ná varla að nærast eða jafnvel  kasta af sér þvagi. Og þetta er ekki ný staða heldur margra ára þróun sem oft hefur verið rædd en ekki brugðist við og þá setur að manni þann hroll að þróunin eigi jafnvel eftir verða á pari við Bandaríkin þar sem fólk verður fyrst skelkað þegar talað er um að hringja á sjúkrabíl jafnvel þó að það liggi einhversstaðar í blóði sínu. Í Los Angeles glímir t.d. gríðarlega hátt hlutfall útigangsfólks við geðraskanir og þannig er það ekki endilega fíknin ein (sem vissulega er sjúkdómur) sem hefur hrakið það út á götu heldur ómeðhöndlaðir  geðsjúkdómar sem verða  þess valdandi að það fúnkerar ekki í samfélaginu.

Ætlum við í alvörunni að koma upp svona kerfi í 300.000 manna þorpinu Íslandi þar sem auðlindirnar streyma um sjó og land? Við skulum ekki láta segja okkur að fjárlögin bjóði ekki upp á annað en þetta, þau eru ekki herra mannsins heldur öfugt. Við skulum ekki heldur bjóða elstu kynslóð landsins sem kom okkur til manns og braust  úr raunverulegri fátækt upp á það að fá ekki viðunandi þjónustu á ævikvöldi sínu. Við skuldum þessu fólki  alúð og umhyggju fyrir alla fyrirhöfnina og svo skuldum við líka börnunum okkar það að þróa enn betra heilbrigðiskerfi þannig að þau fái skilið í uppvextinum hvaða gildi eru mikilvægust, að það skipti mestu máli að hlúa að fólki og koma því til hjálpar á ögurstundum í lífi þess. Ég ætla ekki að tína til einhverja þætti  sem skera mætti niður í samfélaginu af því að það er svo vandmeðfarið sé maður ekki þeim mun betur að sér í hverjum og einum málaflokki. Það eru auðvitað svo margir málaflokkar mikilvægir fyrir lífsgæði okkar og hamingju. Vandi umræðunnar er oft sá að menn pirra sig endalaust á því í hvað er eytt í stað þess að fókusera á það að peningunum sé varið í það sem er knýjandi hverju sinni, þar sem fjársvelti ógnar velferð okkar sem samfélags. Við vitum að það eru til peningar og þess vegna eigum við að eyða kröftum okkar í að halda umræðunni gangandi og styðja við orðræðu heilbrigðisstarfsfólksins. Taka mark á því. Sem prestur fer ég oft inn á sjúkrahús og hjúkrunarheimili og þar verð ég  aftur og aftur vitni að fallegustu „guðsþjónustum“ landsins í umönnun fagfólks við sjúka og deyjandi. Ég hef líka verið aðstandandi aldraðra foreldra inn á sjúkrastofnunum og fengið að reyna hvað það er gott að þiggja þjónustu heilbrigðiskerfis þar sem allir hafa jafnan aðgang. Þjóðfélag með  kristna þjóðkirkju getur ekki samþykkt öðruvísi heilbrigðiskerfi. Nú þurfum við sem þjóð að standa upp eins og lamaði maðurinn í guðspjallinu, taka rekkju okkar og ganga til móts við framtíðina þar sem þrenningin ljóta, sektarkennd , skömm og samviskubit  dregur ekki úr okkur máttinn.

 

 

Published inPistlar