Mér finnst alltaf svolítið erfitt að svara spurningunni „ertu mjög trúuð?“ Þetta er eiginlega svona klemmuspurning, ef ég svara henni játandi má ætla að ég líti á sjálfa mig sem mjög GÓÐA manneskju og það er eiginlega bara vont en ef ég svara henni neitandi þá gæti einhver efast um heilindi mín í preststarfinu að ég sé kannski bara að þiggja opinber laun á fölskum forsendum. Mér finnst betra að svara spurningunni „trúirðu á Jesú Krist?“ Þá er ég nefnilega ekki lengur miðpunktur trúarinnar heldur Jesús sem ég dáist að og er mín helsta fyrirmynd í lífinu. Það hversu mikla trúmanneskju ég tel mig vera skiptir heldur engu máli a.m.k ekki fyrir mannkynið en það er einmitt það sem trúin á að gera, skipta máli fyrir mannkynið. Enn sem komið er hefur ekki verið fundinn upp trúþrýstingsmælir sem nemur andagiftina en miðað við t.d. Bumbubanann þá er þetta ekki svo fjarlæg hugmynd. Eini marktæki mælikvarðinn á trú okkar er það hvernig við komum fram við aðrar manneskjur, ekki síst manneskjur sem kunna að vera okkur framandi. Það er nefnilega ekkert mál að vera góður við sína, maður þarf varla að kunna Boðorðin tíu til þess, já eða Gullnu regluna.
Fyrrum Framsóknarkanditat mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar sagði að hann vildi standa vörð um kristin gildi, þó er ekki svo langt síðan hann lagði til að Ísland bannaði hin íslömsku trúarbrögð og setti þannig fordæmi fyrir alla Evrópu og sömuleiðis lýsti hann yfir áhyggjum af því að reist yrði moska í Reykjavík, þá hefur hann jafnframt lýst því yfir að honum þyki samkynhneigð óeðlileg. Að standa vörð um kristin gildi snýst um að virða mannhelgi. Ef kandidatinn vill standa vörð um kristin gildi þá virðir hann ást og samstöðu samkynhneigðra para og trúfrelsi múslima en hluti af því er að eiga sér skjól til að koma saman sem trúarsamfélag. Ef hann vill standa vörð um kristin gildi þá er hann forvitinn um aðra siði og menningu af því að hann hefur væntanlega lesið Galatabréfið þar sem segir “Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.” Og í nútímasamhengi mætti jafnframt bæta við: Hér er hvorki trúmaður né trúleysingi því sá sem kemur fram við náungann af virðingu og kærleika , áhuga og forvitni er þegar búinn að leggja veg milli himins og jarðar. Að standa vörð um kristin gildi, að vera trúaður er ekki eitthvað sem varir yfirlýsinganna vegna heldur sannast smátt og smátt af góðri reynslu.Það hversu mikla trúmanneskju ég tel mig vera skiptir nákvæmlega engu máli fyrir mannkynið. Það sem hins vegar skiptir máli fyrir mannkynið er að hin kristni boðskapur um frið, frelsi og réttlæti óháð tíma og rúmi fái að hljóma og holdgervast í samtímanum því þetta eru gildin sem varðveita lífið.