Lesa meiraÓður til Kára "/> Skip to content

Óður til Kára

Hundurinn minn hann Kári á afmæli í dag með því fagnar hann þremur árum af fullkomlega meðvirku lífi og tilfinningalegu ósjálfstæði en það er allt í lagi vegna þess að hann er hundur. Kári er af tegundinni Golden Retriever, tígulegur að vexti með ljósan makka og brún augu sem tjá hreina sál. Kári teppaleggur stofuna mína daglega upp á nýtt en ég fyrirgef honum það af því að hann er hæglátur og geltir nánast aldrei, mér leiðast hundar sem gelta mikið, þeir hljóta að vera með skert skammtímaminni, þeir virðast gleyma jafnóðum skömmum eigenda sinna og hræðsluglampanum í augum vegfarenda. Kári vekur jafnan jákvæð viðbrögð meða gesta og gangandi, það er bókstaflega ekkert ógnandi við hann. Kári er enginn varðhundur, ef hann væri blaðamaður myndi hann eingöngu skrifa fréttir af ástarmálum fræga fólksins og tilkynningar um áramótabrennur og týnd gæludýr. Ég hef stundum spurt manninn minn hvort hann haldi að Kári sé hamingjusamur hundur, það er á þeim augnablikum þar sem hann liggur eins og tuska á gólfinu með hálfopin augun eins og hann sé að bíða eftir því að ég festi á hann moppuskaftið. Í eðli mínu er ég það sjálfhverf að mér dettur ekki í hug að svona tilbreytingasnautt líf geti verið hamingjuríkt. Þær áhyggjur hafa reyndar fokið út um gluggann þegar við hittumst aftur eftir langan  aðskilnað, þá verður Kári alltaf svo glaður að hann mígur á sig, mig rekur ekki minni til þess að nokkur annar karlkyns einstaklingur í veröldinni hafi sýnt mér annan eins sóma. Þegar ég var barn og unglingur áttum við íslenskan fjárhund sem hét Plokkson, hann var af mjög þekktu og virtu Ólafsvalla kyni, Plokkson er samt eini íslenski fjárhundurinn sem vitað er til að hafi verið hræddur við kindur, það er svolítið eins og að vera algjörlega trúlaus prestur. Kári er líka eini Golden retriever hundurinn sem ég veit til að sé hræddur við vatn, þessi tegund er sko sköpuð til að synda í vatni. Ég myndi aldrei halda því fram að gæludýr drægju dám af eigendum sínum, það væri líka rosa skrýtið fyrir þá sem eiga t.d. hamstur. Ég átti einu sinni finku,þá var ég 13 ára, samfylgd okkur varði í einn mánuð, fuglinn gat ekki þagað eitt stundarkorn og var farinn að ræna mig nætursvefni, ég myndi ekki vilja láta líkja mér við slíka skepnu.

Þessi pistill hefur alls enga merkingu aðra en þá að heiðra hundinn minn hann Kára sem á afmæli í dag og koma því á framfæri að það er í lagi að vera meðvirkur og tilfinningalega ósjálfstæður hundur en svo þurfa hundar líka stundum að fá að gelta.

Published inPistlar