Lesa meiraFrosinn "/> Skip to content

Frosinn

Ég á litla fimm ára frænku og nöfnu sem er alveg hugfangin af henni Elsu úr teiknimyndinni Frozen. Við frænkurnar vorum samtíða í heimsókn hjá ömmu hennar og afa í Bandaríkjunum en amma hennar er systir mín. Þessi litla frænka mín sem heitir Bergþóra Hildur er mikil stemningsmanneskja og skemmtikraftur og brestur oft í dans og söng fyrir okkur fjölskylduna enda kann hún ógrynni af lögum og textum. Þar á meðal er óskarsverðlaunalagið úr Frozen „Let it go“ sem hún syngur með miklum tilþrifum og af augljósri tilfinningu. Amma Bergþóru Hildar gaf henni Elsubúning um leið og daman lenti á erlendri grund, sá búningur samanstendur af tjullkjól, ljósri hárkollu og glimmerskóm, alveg sama útlit og er á Elsu eftir að hún flýr upp til fjalla og byggir sér þar klakahöll í útlegðinni. Dag einn var ákveðið að fara í Disneyworld í Los Angeles, þ.e.a.s við vorum á leið í Disneyworld en Bergþóra Hildur var á leiðinni að heimsækja Elsu sem hún var sannfærð um að biði sín þarna í veröld ævintýra og blóma. Hún klæddi sig náttúrlega upp í búninginn og á leiðinni eftir hraðbrautinni hélt hún því ítrekað fram að allt fólkið í bílalestinni væri á leiðinni að hitta Elsu enda er ekkert eðlilegra þegar maður er fimm ára.

Þegar við vorum loks komin á áfangastað urðum við þess áskynja að röðin að húsinu hennar Elsu þokaðist ískyggilega hægt. Afinn aflaði sér upplýsinga og kom fölur til okkar og tilkynnti að biðin eftir því að hitta hennar hátign væru u.þ.b þrír klukkutímar. Það var á þeirri stundu sem ég leit auðmjúk til himins og þakkaði skapara mínum fyrir að hafa bara gefið mér drengi. Eins og amman orðaði það þá var ekkert val því Bergþóra Hildur fimm ára var komin alla leið frá Íslandi til að hitta Elsu og Önnu systur hennar sem bjuggu í þessu ævintýralega húsi. Svo amman tók sér stöðu í röðinni á meðan við hin fórum í öll tryllitækin, drukkum svaladrykki  og nutum lífsins.

Að þremur tímum liðnum komum við aftur að röðinni og sáum okkar konu sem hafði nú þokast nokkuð nær dyrum „himnaríkis“ sé miðað við þarfir fimm ára stúlku. Okkar kona var í nokkuð góðu standi miðað við að hafa eytt heilum þremur klukkustundum á sama reitnum í 28 stiga hita og sól án þess að vita nákvæmlega eftir hverju hún væri að bíða. Ég þykist vita að einlæg trú hennar á frelsara sinn Jesú Krist hafi komið henni yfir erfiðasta hjallann.

Þegar komið var að henni að knýja dyra á höll ísdrottningarinnar hlupum við Jónatan sonur minn og Bergþóra Hildur sem og afinn og tróðum okkur inn í röðina þar sem amman stóð því þar gilti ekki lögmál litlu gulu hænunnar heldur lögmál fagnaðarerindisins um það að hinir síðustu verði fyrstir. Nema hvað, lokst opnuðust dyrnar og amman skondraðist inn með barnabarnið sem tók andköf þegar hún leit þær stöllur Elsu og Önnu úr Frozen sem þarna stóðu sprelllifandi fyrir augum hennar og brostu sínu blíðasta. Þar með er raunar upptalið það sem þær gerðu. Því þær sögðu bókstaflega ekki neitt og horfðu í raun allt eins mikið á afann eins og barnið sem hafði hamingju sína höndum gripið. Þegar litla skottann áttaði sig á samskiptaleysinu fór hún úr skónum og sýndi þeim myndir af Elsu og Önnu eins og þær voru teiknaðar inn í glimmerhúðaða leppana. Þær brostu áfram eins og launataxtinn gerði ráð fyrir. Amman fór nú heldur að ókyrrast og tók að segja þeim stöllum frá því að þarna væri kominn aðdáandi alla leið frá Íslandi sem kynni meira að segja að syngja lagið úr myndinni sem þær væru kenndar við, ég hugsaði þá einmitt að það væri sennilega betra að hafa þær svolítið kenndar. Systurnar héldu áfram að brosa eins og þeim hafði verið uppálagt að gera á starfsmannafundi morgunsins en að öðru leyti voru viðbrögðin lítil sem engin.

Bergþóra Hildur var auðvitað ekkert viss um að nú væri komið að henni að sýna listir sínar enda vön að njóta nokkurrar uppörvunar frá fullorðna fólkinu sem hún vanalega umgengst, að þremur mínútum liðnum þar sem ekki höfðu myndast ein einustu geðtengsl opnuðust hrímklæddar exitdyr og án nokkurs fyrirvara vorum við allt í einu stödd inn á sveittum hamborgarastað án þess að vita almennilega hvað hefði gerst. Það má í raun segja að þarna hafi systir mín hafið sitt breytingaskeið. Við settumst niður í þögn og horfðum full samúðar á örvæntingarfullt andlit hennar og hlýddum aftur og aftur á sjálfshjálpar möntruna. „ Ég beið í þrjá klukkutíma eftir þessu, þrjá klukkutíma.“ Þegar við héldum að nú færi að lygna við borðið og fyrsta áfallahjálpin var afstaðin, heyrðist í litla fimm ára sponsinu, „amma nú væri ég til í að fara aftur inn til Elsu og syngja fyrir hana.“

Það er þetta með tengslin í lífinu, þau skipta svo óendanlega miklu máli fyrir heill okkar og hamingju. Ég skrapp suður til Reykjavíkur um liðna helgi og mælti mér m.a. mót við kæran vin til tuttugu ára. Við sátum allan laugardaginn  langt fram á kvöld og spjölluðum um það sem hæst bar í lífi okkar. Það þýðir m.ö.o að við ræddum um líðan okkar, lífsgildi og samskipti við annað fólk. Eftir að við kvöddumst leið mér eins og ég hefði fyllt sálarlíf mitt af eldsneyti og hjarta mitt af fölskvalausri gleði.

Það er svo mikill munur á raunverulegum tengslum og skilyrtum tengslum, við komumst auðvitað ekki hjá því að eiga skilyrt tengsl við annað fólk en til þess að halda þau út verðum við líka að rækta þessi raunverulegu sem snúa að því að vera til staðar og elska hvert annað umbúðalaust. Ég er oft að hugsa hvað valdi þessari miklu streitu sem hrjáir þjóðina og varpar skugga á hamingju okkar. Þegar öllu er á botninn hvolft er streitan oft afleiðing þess að við eigum svo sjaldan svona daga með fjölskyldu okkar og vinum, daga þar sem við tölum um líðan okkar og endurstillum áttavitann í lífinu. Kannski erum við mörg að lifa því lífi sem okkur finnst að við eigum að lifa í stað þess að lifa eins og okkur langar að lifa.

Published inPistlar