Lesa meiraÓsýnilega fólkið "/> Skip to content

Ósýnilega fólkið

Nú ætla ég að segja mínar skólasögur gall í örverpinu við matborðið svo fjölskyldan snarþagnaði. Ég var orðin þreytt á því að fá ekki orðið og geta ekki sagt krassandi sögur úr skólastarfinu líkt og eldri systkini mín. Þá fannst mér ekki öllu skipta sú blákalda staðreynd að ég væri bara fimm ára og hreint ekkert byrjuð í skóla. Hófst nú æsileg frásögn af honum Malla sem var óþreytandi stríðnispúki og bókstaflega hélt öllum nemendum í heljargreipum og af Nonna skólastjóra sem dró Malla greyið á eyrnasnepplunum inn á skrifstofu, las honum pistilinn og gaf honum einungis tvo valkosti, annað hvort að haga sér eða hypja sig heim. Malli blessaður ákvað að haga sér en Guð má vita hvað það entist lengi. Að frásögn lokinni tók ég vænan bita af soðningunni og horfði hróðug yfir systkinahópinn og foreldra mína enda fannst mér ég loks vera orðinn fullgildur meðlimur þessa borðsamfélags. Það er skemmst frá því að segja að viðstaddir skelltu upp úr og sumir hreinlega brjáluðust úr hlátri, nema kannski mamma sem þekkti afkvæmi sitt af því að þola illa slík viðbrögð. Og það stóð heima, litla stýrið rauk frá borðum með miklum hamagangi og dramatísku öskri sem innihélt að mig minnir eftirfarandi fullyrðingu „ þið eruð öll ömurleg.“

Þarna leið mér svolítið eins og ég væri ósýnileg sem í þessu tilviki er raunar oftúlkun barnssálarinnar enda vandfundið það barn á 20.öld sem fékk eins mikið að tjá sig heima fyrir og undirrituð. Vil ég nú nota tækifærið og þakka foreldrum mínum á himni og jörðu fyrir einstaka þolinmæði og þrautsegju í áheyrninni.  Í dag er þetta ein af þessum skemmtilegu minningum sem hún mamma er búin að krydda svolítið með tímanum og rifjar gjarnan upp við hátíðleg tækifæri, þá breytir ekki öllu hvort áheyrendur hafi heyrt söguna áður eða hreinlega verið viðstaddir atburðurinn er hann átti sér stað.

Það er hins vegar til fullt af ósýnilegu fólki í heiminum, fólki sem upplifir sig ekki hafa rödd og það sem verra er ekki hafa fullan tilvistarrétt. Hvernig mætum við ósýnilega fólkinu? Hann Sakkeus sem var yfirtollheimtumaður í Jeríkó og Lúkas guðspjallamaður segir svo snilldarlega frá, hann var einn af þessum ósýnilegu mönnum. Þegar spurðist út að Jesús væri á leið til Jeríkó og mannfjöldinn safnaðist þar saman til að taka á móti honum þá klifraði þessi valdsmaður upp í Mórberjatré. Í frásögninni segir að hann hafi verið lítill vexti, var hann lítill vexti í líkama eða sál? Ég hallast að hinu síðarnefnda. Klifraði hann upp í tréið til að sjá Jesú fyrir mannfjöldanum eða til að Jesús gæti séð hann? Aftur hallast ég að hinu síðarnefnda. Guðspjallamennirnir eru nefnilega ekki mikið að velta sér upp úr útliti fólks, meira aðstæðum. Kenning mín er s.s. sú að Sakkeus hafi verið lítill í sér og að hann hafi fyrst og fremst þráð að Jesús kæmi auga á hann.

Nú hafði safnast þarna saman hópur fólks sem var margt hvert mjög þurfandi, þarna hefur eflaust komið fólk sem var mikið veikt eða glímdi við einhvers konar fötlun nú eða heittrúaðar manneskjur sem voru búnar að bíða þess að eiga innihaldsríkt samtal við meistarann í þeim tilgangi að efla og þroska trú sína, svo var auðvitað líka fólk þarna sem vildi segja Jesú frá því ranglæti sem hann Sakkeus hafði beitt samborgara sína í langan tíma af því að þetta sama fólk vissi að hann Jesús  væri ávallt réttlætisins megin. Og þarna kemur hann smiðsonurinn frá Nasaret gangandi inn í borgina og mannfjöldinni fagnar honum og hann fagnar fólkinu af öllu hjarta af því fólk var og er hans hjartans máli, en hvað gerir hann svo? Jú hann kallar á hann Sakkeus sem á sko ekkert gott skilið og segir við hann að nú beri honum fyrst og síðast að heimsækja hann og eyða deginum í samfélagi við „litla kallinn.“ Hefðir þú ekki orðið pirruð eða pirraður ef þú hefðir staðið þarna með stjörnuglýju í augum og þrá eftir guðlegri nánd? Uh jú ég hafði a.m.k  alveg hugsað það að móðgast og jafnvel bara snúið mér að næsta farísea og spurt hvort hann vildi ekki bara vera memm fyrst Jesús ætlaði hvort eð er að eyða deginum með gerpinu honum Sakkeusi.

Jesús vissi þegar hann gekk inn í Jeríkó og greindi andrúmsloftið að þegar á heildina væri litið skipti mestu fyrir alla að hann sæi Sakkeus og snerti hjarta hans. Samskipti Sakkeusar og samborgara hans voru farin að hafa svo víðtæk áhrif, reiðin stigmagnaðist á báða bóga og Sakkeus átti ekki afturkvæmt af sjálfsdáðum. Nú fylgir ekki sögunni hver bakgrunnur Sakkeusar var, hvað varð þess valdandi að hann fór að níðast á samborgurum sínum í krafti embættisins. Það er hins vegar ljóst að framganga hans var honum ekki sjálfum að kostnaðarlausu, hann var einn og  hræddur og engan veginn frjáls.

Ég myndi aldrei hætta mér út á þá braut að fullyrða almennt um ástæður þess að fólk fremur glæpi og níðist á samborgurum sínum. Ég held raunar að enginn sé þess umkominn að gera það enda er manneskjan svo margbrotin og flókin. Hins vegar þori ég að fullyrða að það sé ekki til sú manneskja sem líður vel í illsku sinni og óskar þess að dvelja þar. Í dag er mikið fjallað um siðblindu og ýmsar greinar ritaðar um einkenni hennar, þar kemur m.a. fram að hinn siðblindi eigi erfitt með að setja sig í spor annarra og finna til samkenndar sem verður þess valdandi að hann svíkur fólk og særir að því er virðist án mikillar fyrirhafnar. Þegar öll helstu einkenni siðblindu eru dregin saman má ímynda sér hálfgert vélmenni sem hefur þann mannlega eiginleika að sjarmera viðstadda og fá á sitt band með klækjum og prettum en er að öðru leiti gersneytt allri samlíðan. Raunin er hins vegar önnur því það er líka þekkt að siðblint fólk glími við kvíða og þunglyndi og ýmsa andlega vanlíðan sem er mennsk og merkir að fólk er alls ekki tilfinninga snautt. Það sem ég vildi sagt hafa með þessu er að það er ekki til tilfinningalaust fólk þó til sé fólk sem vinnur slík illvirki að helst gæti manni dottið í hug að hjarta þess sé frosið. Illskan fer ekki í manngreinarálit en hún þrífst hins vegar vel í ákveðnu valdaójafnvægi þegar fólk upplifir að það hafi tapað stóru lífsbaráttunni. Sú lífsbarátta getur bæði verið innri barátta þar sem viðkomandi glímir við drauga fortíðar jafnvel þó nútíðin virðist á yfirborðinu björt og hinn sami hafi allt sem tíðarandinn telur eftirsóknarvert svo er það ytri baráttan þar sem manneskjan verður undir í samfélagsgerðinni annað hvort fyrir það að tilheyra ákveðnum þjóðfélagshópi eða glíma við erfiðleika sem hún fær ekki stuðning við að höndla. Hvað sem veldur er ósýnileiki bæði niðurlægjandi og mannskemmandi.

Heimurinn er fullur af ósýnilegu fólki. Í öllum samfélögum eru ósýnilegir þjóðfélagshópar, hér á landi eru innflytjendur slíkur hópur, alveg þangað til að eitthvað slæmt gerist , þá fáum við að vita að gerendur verknaðarins hafi verið af erlendum uppruna. Innflytjendur vinna ósýnilegu störfin á Íslandi, störfin sem aðra landsmenn langar helst ekki til að vinna. Innflytjendur á Íslandi eru líka með ósýnileg prófskírteini.

Á íslandi eru geðsjúkir líka ósýnilegur hópur þangað til eitthvað slæmt gerist, „bannsettur niðurskurðurinn“ hugsum  við af því að okkur finnst sem geðsjúkdómar hljóti að vera fyrst og fremst stofnanamál. Fíkniefnaneytendur á Íslandi eru ósýnilegir, þangað til eitthvað slæmt gerist, þá fáum við að vita að um fíkniefni hafi verið að ræða, „helvítis fíkniefnin“ hugsum við af því að þau eru ekki ósýnileg heldur fólkið sem neytir þeirra.

Fátækir eru líka ósýnilegir á Íslandi, nema kannski um jól þegar við verðum meyr.

Ranglæti heimsins skapar ósýnileika, valdaójafnvægi skapar ósýnileika og ósýnileikinn skapar framandleika, reiði og ótta. Nú er hugsanlega hægt að misskilja orð mín með tvennum hætti, annars vegar þannig að ég sé að draga úr ábyrgð gerenda alvarlegra afbrota eða jafnvel hryðjuverka líkt  og þeirra er urðu í París á dögunum, það dytti mér ekki í hug enda ekkert í veröldinni sem afsakar ofbeldi, manndráp já eða dauðarefsingar. Á hinn bóginn gæti einhver lesið út úr orðum mínum að ef fólk tilheyri ákveðnum þjóðfélagshópi eða glími við fíkn, sjúkdóma og aðra erfiðleika þá sé það líklegra til að fremja glæpi, ekkert væri fjær mér en að halda slíku fram enda hefur líf mitt og starf kennt mér annað. Það sem mér finnst hins vegar skipta máli er að við skoðum atburði eins og þá sem urðu í París á dögunum og eru að eiga sér stað í Nígeríu og víðar um heim og veltum því upp hvernig við getum komið í veg fyrir að fólk fyllist heift og hatri sem byrgi sýn þess á grundvallar rétt annarra til lífs, frelsis og mannhelgi. Við fæðumst öll í trausti til þess góða, við fyrsta andardrátt utan móðurlífs gerum við ráð fyrir öryggi og ást, þess vegna gráta börn þegar klippt er á naflastrenginn og þau tekinn frá móður til mælinga og vigtunar. Þessar mælingar og vigtanir halda áfram að gera okkur sorgmædd þegar fullorðinsaldri er náð, þær valda okkur óöryggi og gera okkur tortryggin í garð náungans. Jesús valdi að sjá Sakkeus án þess að vega hann fyrst og meta, með því skapaði hann jafnvægi í samfélaginu, er það ekki eitthvað?

Published inPistlar