Lesa meiraAð elska "/> Skip to content

Að elska

Í hjónaviðtölum sem eru hluti af starfi prestsins þar sem pör koma til að ræða samskipti sín, erfiðleika og hugsanlegt skipbrot kemur stundum til tals að fólkið sé ekki lengur ástfangið. Það er nú einu sinni þannig að í sálgæslunni er ekki lokað á neinar hugrenningar enda bæði gagnlegt og nauðsynlegt að sem mest af því ósagða heyrist svo hægt sé að kortleggja stöðuna, því slær sálgætir aldrei á orð þeirra sem honum er falið að hlusta á, heldur meðtekur og meltir. Það er ekki langt síðan ég fór að velta fyrir mér þeim vanda að vera ekki ástfanginn eða öllu heldur hvort það teldist í raun vandamál. Það er nefnilega munur á því að vera ástfanginn og að elska. Þegar hjón uppgötva að þau elski ekki lengur hvort annað, þá er mikið farið og erfitt að koma skipinu aftur á flot. Ef maður elskar ekki maka sinn þá er líklegt að allir gallar, stórir sem smáir verði óþolandi og jafnvel óviðráðanlegir. Þú veist hvernig þetta er, já t.d. munurinn á því þegar ókunnug manneskja hrýtur í næsta herbergi og heldur fyrir þér vöku og í gremjunni ferðu að hugsa hvort viðkomandi sé illa við þig eða þegar makinn fer að hljóma eins og grænlenskur síðutogari og þú ýtir svolítið við honum og gerir kannski grín að þessu í næsta matarklúbbi. Nú eða þegar ókunnug manneskja grípur frammí fyrir þér þar sem þú ert í miðri frásögn og þú upplifir strax að þetta sé yfirgangur en ef það gerist einstaka sinnum hjá makanum þá túlkarðu það kannski öðruvísi, verður e.t.v. pirruð en ekki þannig að þú lokir á hann eða neitir að fara með honum á mannamót. Þetta er munurinn á því að taka annars vegar við göllum þess sem maður elskar eða þess sem er manni lítið tengdur. Ef þú elskar ekki lengur maka þinn þá er hætt við að þér fari að líða eins og aðkomumanneskju í sambandinu.
Það er grundvallaratriði að elska maka sinn en að vera alla daga ástfanginn er jafn líklegt og við Tom Cruise yrðum hjón, sem var að vísu stefnan þegar ég var 12 ára. Að vera ástfangin er nokkuð sem við upplifum aðeins augnablik í senn, það getur aldrei orðið viðvarandi ástand, ekki frekar en hláturskast eða fullnæging.
Við erum auðvitað ástfangin í tilhugalífinu en það er ekki bara af makanum heldur erum við líka ástfangin af okkur sjálfum, af spegilmynd okkar sem við lítum í augum makans þegar allt er nýtt og spennandi. Þess vegna er krafan um að vera alltaf ástfanginn hugsanlega ákall um viðurkenningu sem er eðlilegast og best að komi fyrst af trú á eigið gildi. Hjónabandið snýst um að elska. Að elska aðra manneskju er líka það fallegasta og eftirsóknarverðasta sem til er í lífinu, það er svo marglaga veruleiki. Að elska er að gróðursetja og bíða, vökva og bíða, reyta arfa og bíða og sjá svo allt blómstra og vita að maður eigi þátt í því. Að vera ástfanginn er gaman, að elska er gott, á endanum er þó mikilvægara að lífið sé gott en að alltaf sé gaman.

Published inPistlar