Lesa meiraEr barnatrúin hættuleg? "/> Skip to content

Er barnatrúin hættuleg?

Listamaðurinn og fyrrum borgarstjórinn Jón Gnarr gerði barnatrú að umtalsefni í pistli sem birtist í Fréttablaðinu fyrir rúmri viku. Þar segir hann m.a: „Barnatrúin er almennt talin góð. Barnatrúin virðist því vera sú kristilega innræting sem maður fékk sem barn, mismunandi eftir eðli og aðstæðum og sú uppfræðsla sem maður fékk um eðli alheimsins frá fullorðnu fólki í kringum mann. Sumt af þessu er frekar mystískt og varðar guðlega heima á meðan annað er praktískt og snýst um siðfræðileg málefni einsog sannleika, heiðarleika og muninn á réttu og röngu eða góðu og illu. Og oft hefur ótti afgerandi hlutverki að gegna í innrætingunni; ef maður breytir ekki rétt þá gæti Guði misboðið. Allt rangt er synd og það er sama hvað við reynum að fela Guð sér alltaf til okkar og gæti tekið uppá því að refsa okkur. Kristinfræði er nauðsynleg því hún er hugmyndafræði sem er nátengt samfélagi okkar og sögu. En trúarleg innræting er hættuleg. Með henni er verið að kenna börnum svo margt sem er ekki rétt. Það er alhæft við þau um ýmislegt sem enginn veit. Þeim er kennt að til sé ósýnileg vera sem sé að hálfu leiti manneskja en að hálfu leiti geimvera. Þau hafa ekki raunverulegt val um það hvort þau trúa þessu því það eitt og sér getur komið verunni í uppnám. Ákveði maður hins vegar að fallast á þetta fylgir því ákveðin sefjun og börnum talin trú um að þarmeð muni þeim ganga betur í öllu lífinu en ella. Þetta er tæling. Þetta verður svo ennþá alvarlegra þegar fjöldi fullorðins fólks á atvinnu sína og afkomu undir því að sem flest börn fallist á þetta. Barnatrú er að trúa einhverju sem maður trúði á þegar maður var barn, en komst svo að því þegar maður varð eldri að var kannski frekar ótrúverðugt og órökrétt en ákveða samt, þrátt fyrir aukinn þroska og nýjar upplýsingar, að halda áfram að trúa á það.“ Tilvitnun lýkur.
Ég er mikill aðdáandi Jóns Gnarr, mér finnst hann vera einhver dýpsti og mesti húmoristi Íslands og svo fannst mér hann líka góður borgarstjóri, hann mætti valdi með kristilegum hætti af auðmýkt og virðingu og gætti þess að dreifa ábyrgð og verkefnum eins og góðum stjórnanda sæmir. Hann þóttist ekki vita allt og hafði líka vit og þroska til að viðurkenna það. Mér finnst þessi grein hans heldur ekki svo slæm, ég tek heilshugar undir það að nauðsynlegt sé að kenna kristinfræði því hún er jú svo samofin menningu okkar síðastliðin þúsund ár og stundum er hún hreinlega lykillinn að því að skilja algeng orð og orðtök og bakgrunn ýmissa rita sem við eigum sem þjóð, það er líka gaman að vita að fyrsta biblían sem var prentuð á íslensku var Guðbrandsbiblía, hún kom út árið 1584 á Hólum í Hjaltadal og þar sat líka síðasti kaþólski biskupinn hann Jón Arason og þar bjó hún Halldóra Guðbrandsdóttir sem var dóttir Guðbrands Þorlákssonar og af því að nú fögnum við 100 ára kosningaafmæli kvenna þá er ekki úr vegi að minnast hennar en Halldóra var mikill kvenskörungur sem stýrði staðnum á seinni hluta 16.aldar og lét m.a. byggja kirkju eftir að sú gamla fauk í ægilegu óveðri. Það er líka mjög gott að vita hvers vegna uppstigningardagur er frídagur og af hverju við höldum jól og páska. Kristinfræði hefur margar mikilvægar bakgrunnsupplýsingar að geyma sem er eiginlega ferlegt að hafa ekki í handfarangri lífsins, hvort sem maður á trú eða ekki. Trúarbragðafræði ætti náttúrlega að vera kennd í öllum skólum þó ekki væri nema til að fyrirbyggja fordóma sem því miður stýra oft umræðunni og vekja upp óþarfa tortryggni. Þarna erum við Jón Gnarr held ég sammála, ég er líka sammála Jóni um að trúarleg innræting sé alvörumál og því þurfum við að vanda okkur.

Þar sem ég er hins vegar mikil bjartsýnismanneskja og hef óbilandi trú á mannfólki þá er ég sannfærð um að langflestir foreldrar innræti börnum sínum heilbrigð gildi, langflestir foreldrar vilja auðvitað styrkja sjálfsmynd barna sinna og stuðla að sjálfstæði, hugrekki og farsæld. Og þar sem trúarleg innræting á sér að mestu stað inn á heimilinu þá hef ég ekki miklar áhyggjur af framgangi hennar, það er nefnilega þannig að innræting verður ekki nema hún komi frá einhverjum sem maður treystir og tekur mark á. Börn taka mest mark á foreldrum sínum og á fyrstu árum eru foreldrar eiginlega guðlegir í augum þeirra. Öfgarnar finnast auðvitað allstaðar og vitleysisgangurinn líka og þá ríður hann sjaldan við einteyming heldur breiðir yfir allt, kannski er þá trúarleg innræting og barnatrú ekki mesta áhyggjuefnið heldur ofbeldi, kúgun og vanræksla til líkama og sálar. Engu að síður tek ég undir með Jóni að við þurfum að vanda okkur við boðun trúarinnar og gæta þess að hafa Jesú frá Nasaret ávallt sem áttavita í þeirri vegferð. Og þá skiptir auðvitað máli að kynnast honum og það er verkefnið sem þú ert að búa þig undir kæri fermingardrengur, Tómas Ingi Nilsen. Fermingarfræðslan og fermingin sjálf er á vissan hátt upphaf þessarar vegferðar þar sem þú slítur barnsskónum og barnatrúnni um leið, það þýðir samt ekki að barnatrúin sé gagnslaus og þaðan af síður skaðleg því barnatrú er sú trú sem barn hefur forsendur til að meðtaka. Í mínum huga er barnatrú það sem mamma og pabbi og amma og afi gáfu manni, það er trúin á að yfir okkur sé vakað, að í heiminum sé meira ljós en myrkur, að við þurfum ekki að vera hrædd þrátt fyrir allar neikvæðu fréttirnar sem á okkur dynja dag eftir dag, það er trúin á vonina,kærleikann og handleiðslu Guðs. Margt fullorðið fólk kennir börnum sínum bænir af því að það er fallegt og gott og mannvænlegt að leiða hugann að öðru fólki og biðja Guð um að gæta þess og blessa, bænaiðkun er leið til að íhuga, efla æðruleysi og dempa mannlega sjálflægni sem býr í okkur öllum og er oftar en ekki til trafala í samskiptum.

Ég kannast ekki við að segja börnum frá Guði sem ofurhetju eða jafnvel hálfri geimveru, veit ekki einu sinni hvaðan sú hugmynd ætti að koma. Ef Jesús væri ofurhetja þá hefði hann ekki dáið á krossinum heldur stigið niður af honum og barist við rómversku hermennina sem hæddu hann og spottuðu. En þá væri Jesús heldur ekki mannlegur og ef hann væri ekki mannlegur þá hefði hann ekki lifað í hjörtum kynslóðanna í meira en 2000 ár. Hið mannlega dettur aldrei úr tísku. Barnatrúin er góður grunnur en eins og segir í skírnarsálminum „ Ó gef það vaxi í visku og náð“ þá er ætlast til þess að við sem kirkja styðjum barnið í því að vaxa og þroskast í sinni trú og fylla upp í skírnarkjólinn í andlegri merkingu. Trú okkar tekur breytingum með auknum aldri og þroska og lífsreynslu og þannig á það að vera, við verðum aldrei fullnuma í trúnni, við þurfum alltaf að vera að leita svara og spyrja nýrra spurninga. Í dag skil ég t.d. söguna um týnda soninn allt öðruvísi en ég gerði sem barn og það eru líka aðrir þættir sögunnar sem skipta mig meira máli en þá. Þegar ég heyrði þessa sögu sem barn fór ég bara að hugsa um það þegar ég týndist á öskudaginn, lítill skelfingu lostinn indíáni í miðbæ Akureyrar og hélt að ég myndi aldrei sjá foreldra mína aftur. Í dag fer ég að hugsa um andlega líðan og neikvætt hugsanamynstur sem auðvelt er að týnast í og sjálfsmyndarkreppu ofl sem fylgir því að vera til og takast á við sjálfan sig. Og af því að ég er að tala um slíkt þá vil ég segja við þig Tómas Ingi af því að ég er sérstök áhugamanneskja um líðan unglinga og langar svo oft að vita hvað þeir eru að hugsa og hef stundum áhyggjur af því að unglingar og ungt fólk burðist of mikið og lengi með erfiðar hugsanir, að hugsanir skilgreina þig ekki sem manneskju. Allar manneskjur hugsa skrýtna hluti enginn er góður eða slæmur vegna hugsana sinna, hugsanir eru nefnilega eitt en gjörðir annað. Ég veit auðvitað ekkert hvernig það er að vera þú og ég veit ekkert hvernig það er að vera unglingur í dag en ég veit hins vegar að þegar ég var sjálf unglingur þá hefði ég viljað heyra þetta og þess vegna má ég ekki láta undir höfuð leggjast að nefna það hér í dag.
Hugsanir geta látið okkur líða mjög illa og það er í raun eini mælikvarðinn á mikilvægi þeirra, ef hugsanir þínar láta þér líða illa þá er aðeins eitt sem getur bætt líðanina og það er að tala við fólk sem þú veist að elskar þig hvað sem á dynur, já sem elskaði þig þegar þú varst lítill og mállaus með bleyju og hor og enginn vissi hvað úr þér yrði. Þetta fólk vill vita hvernig þér líður, þetta fólk elskar þig meira en sig sjálft, ég veit það, ekki bara af því að ég er prestur heldur af því að ég er mamma og ekki síst vegna þess að ég á samfélag við hann Jesú sem er bæði sálfræðingur minn og vinur. Besta leiðin til að yfirvinna ótta sinn og vanlíðan vegna eigin hugsana er að segja þær upphátt við þann sem elskar þig meira en sjálfan sig og þú veist hvaða fólk ég er að tala um. Í dag horfir það á þig héðan af kirkjubekkjunum fullt þakklætis fyrir líf þitt og allt það góða sem er fólgið í hjarta þínu. Jesús horfir líka á þig, ekki eins og þú sért geimvera og heldur ekki eins og hann sé geimvera, heldur eins og foreldri og vinur sem elskar þig eins og þú ert með kostum þínum og göllum. Guð blessi þig kæri fermingardrengur. Amen. Prédikun flutt í Akureyrarkirkju 9.ágúst 2015.

Published inPistlar