Lesa meiraHamingjan er hagkvæm "/> Skip to content

Hamingjan er hagkvæm

Það er mikið talað um neikvæða umræðu í íslensku samfélagi, ráðamönnum þjóðarinnar verður sérstaklega tíðrætt um óvægna og ómálefnalega umræðu sem fram fer á samfélagsmiðlum. Það helgast nú kannski að því að umræðan hverfist mest um þeirra störf enda varða þau hag lands og þjóðar. Þær ákvarðanir sem teknar eru á alþingi varða manneskjur af holdi og blóði, þetta eru ákvarðanir sem geta haft áhrif á heilsu fólks, húsnæðisöryggi, atvinnu, samgöngur, skipulag umhverfis og náttúruvernd svo fátt eitt sé nefnt. Í raun er það útópísk hugmynd að umræðan um ákvarðanir alþingis geti orðið eins og veðrið hér í Eyjafirðinum, alltaf sól og harðalogn. Já það er jafn óraunhæft og halda að maður geti lifað í átakalausu hjónabandi, þegar grundvallarhagsmunir eru annars vegar eru manneskjum eðlislægt að sýna sterkar tilfinningar og takast á, ef við hættum því sem þjóð erum við sennilega öll orðin dofin af þunglyndi og kvíða og sjáum ekki lengur neinn tilgang í að berjast fyrir mikilvægum lífsgæðum og sanngjarnri skiptingu þeirra. Heiti potturinn og kaffistofan eru komin á netið sem þýðir að þau orð sem þar falla eru vistuð til frambúðar, það er gott fyrir þátttakendur að vera meðvitaðir um það. Þá er líka mikilvægt að hugsa: Hvernig manneskja vil ég vera? Hvort er gagnrýni mín borin fram af ástríðu fyrir málefninu eða persónulegri andúð á einstaklingum? Ef um hið síðarnefnda er að ræða, þá er nauðsynlegt að staldra við og fara í gegnum nokkrar síur. Gullna reglan er frábær byrjun, sjálfsvirðing er snilldar framhald og að lokum er prýðilegt að líta í spegil og spyrja sig: Hvernig líður mér í dag og hvaða áhrif hefur það á skoðanir mínar og skrif?
Nú hef ég ekki mátt til að stýra ráðum stjórnvalda frá degi til dags þó vissulega hafi ég þann lýðræðislega rétt að kjósa til alþingis og hafa þannig áhrif á hverjir komast til valda. Ég hef hins vegar svolítinn mátt til að hafa áhrif á eigin hamingju og þó sá máttur geti dvínað ef ég fæ t.d.ekki fullnægjandi heilbrigðisþjónustu eða missi húsnæðið mitt þá er hann samt þarna í bakgrunninum og knýr fram lífsviljann sem öllu skiptir. Amma mín sem var sjúklingur bróðurpart ævi sinnar, sagði alltaf um leið og hún nuddaði bólgna og sárum þakta fæturna að um leið og maður hætti að hafa langanir, væri maður svo gott sem dauður. Ég hef haft þessa speki hennar ömmu minnar í farteskinu og þrátt fyrir að lifa sjálf með króníska kvíðaröskun sem vissulega varpar skugga á annars farsælt líf þá hef ég þetta sem áttavita í fjallgöngu lífsins. Ég hef t.d. komist að því að ef ég fæ tíma til að sinna mínum hugðarefnum sem í mínu tilviki eru skapandi skrif þá eflist hamingja mín og þegar ég tala um hamingju þá er ég ekki bara að tala um einhverja stundargleði eða skemmtun heldur þessa undursamlegu tilfinningu fyrir því að vera andlega nærð. Það skiptir ekki máli hvert hugðarefnið eða áhugamálið er, hvort sem það er golf, veiði, hannyrðir, söngur, krossgáta eða bridds, allt sem að verður til þess að gera brauðstritið tilgangsríkt er til þess fallið að efla hamingju þína og þegar þú eflir hamingju þína þá er líklegra að þú staldrir oftar við þegar kemur að því að gagnrýna aðra. Það er nefnilega ekki eigingirni að leika sér, þegar öllu er á botninn hvolft er það hreinlega þjóðhagslega hagkvæmt.

Published inPistlar