Lesa meiraFótbolti og messutón "/> Skip to content

Fótbolti og messutón

Ég þykist nú oft hafa vit á ýmsum hlutum en ef það er eitthvað sem ég verð af fullu æðruleysi að játa mig sigraða gagnvart þá er það fótbolti. Ég hef nákvæmlega ekkert vit á fótbolta og hingað til engan áhuga heldur. Þó hafa örlögin hagað því þannig til að allt frá frumbernsku hafa þessi seiðandi vallarhróp ómað í eyrum mér. Í gegnum sjónvarpið hljóma þau sem notalegur ölduniður og í minningunni samlagast þau messutóninu á sunnudögum þegar pabbi æfði sig við fótstigna orgelið á efri hæðinni á meðan bróðir minn horfði á enska boltann niður í kjallara. Í dag bý ég svo með þremur karlmönnum sem allir hafa gríðarlegan áhuga á fótbolta þannig að sagan hefur endurtekið sig, ég raula messutónið í sturtunni á sunnudögum og þeir horfa á enska boltann á meðan.
Það hefur stundum verið talað um að fótbolti sé eins konar trúarbrögð, að því leyti sem atferli áhangenda er skoðað þá má það til sanns vegar færa. Í gær tryggði íslenska karlalandsliðið sér þátttökurétt á Evrópumótinu í Frakklandi árið 2016, maður þarf raunar ekki að hafa vit á fótbolta til þess að átta sig á hve mikið afrek það er. Við erum fyrsta smáþjóðin sem kemst á þetta sterka mót og það eitt og sér er mikill sigur. Nú horfi ég á þetta allt saman með öðrum augum en t.d. sambýlingar mínir sem hafa raunverulega eitthvert vit á fótbolta og geta velt fyrir sér gangi leiksins, tækniatriðum ofl. Ég er meira að skoða þetta út frá guðfræði og félagsfræði og finnst það raunar mjög magnað, ég held nefnilega að trú hafi haft mjög mikið að segja í þessum stóra sigri liðsins, trú leikmanna, þjálfara og stuðningsmanna. Þá er ég ekki að tala um einhver ein trúarbrögð fremur en önnur heldur mátt þess að eiga trú á hið góða og vænta þess að fórn og samstaða skili upprisu. Það er ekki eins og íslenska karlalandsliðið hafi verið fundið upp í gær, í marga áratugi hefur þetta lið verið skipað miklum hæfileikamönnum sem hafa hver og einn unnið persónulegan sigur hér heima og erlendis. Stuðningsmenn hafa fylgt liðinu frá upphafi og alltaf hefur þetta verið markmiðið, að komast á stórmót. Eflaust hafa margir verið búnir að gefa upp þá von en greinilega ekki þeir sem að lokum unnu þetta afrek. Það var ekki laust við að mér vöknaði um augu þegar íþróttafréttamaðurinn talaði við Arnór Guðjohnsen og Guðna Bergsson í sjónvarpinu gær, þessi tvö átrúnaðargoð íslenskrar knattspyrnu, menn sem eygðu sömu von og Aron Einar og félagar. Það var fallegt að sjá hvað “goðin” samglöddust ungu mönnunum enda eiga þeir þátt í sigrinum með því að móta íslenska knattspyrnu og vera fyrirmyndir yngri leikmanna.
Trú er eitt það mikilvægasta sem við eigum, hvort sem það er kristin trú, íslam eða bara trúin á hið góða án þess að það sé skilgreint eitthvað frekar. Nú er fullt af fólki farið að plana sumarfríið sitt næsta sumar með það í huga að fylgja íslenska karlalandsliðinu til Frakklands, enginn veit hvort það verður ferð til fjár rétt eins og enginn veit hvað tekur við eftir dauðann, trúin á möguleikann er hins vegar nóg, sú trú ein og sér, er lífgefandi. Vonin er sterkasta afl mannsandans. Þess vegna skulum við aldrei gera lítið úr trúarþörf manneskjunnar heldur setja okkur inn í hana svo við skiljum hvert annað. Við sköpum nefnilega frið með því að reyna að skilja hvert annað. Ég mun aldrei verða sérleg áhugamanneskja um fótbolta en ég er þakklát fyrir gleðina sem íþróttin veitir og samstöðuna sem hún skapar. Gleði og samstaða er nefnilega kjarninn í flestum trúarbrögðum, fæst trúarbrögð eru í eðli sínu vond, þau eru raunar eins og vín, til þess gerð að ylja og gleðja en verða böl ef notkunin er óheilbrigð. Við erum lítil þjóð en getum ótrúlega margt, atburður gærdagsins á Laugardagsvelli kennir okkur það að við þurfum ekki að vera hrædd, fórn og samstaða skilar upprisu

Published inPistlar