Lesa meiraDruslugangan "/> Skip to content

Druslugangan

Druslugangan er magnað fyrirbæri, það er fátt jafn fallegt og þegar fólk sameinast með sín andlit, sérkenni og sögu til þess að segja með og án orða að þrátt fyrir margbreytileikann getum við sameinast um lífgefandi gildi eins og kærleika, réttlæti, virðingu og sanngirni. Gay pride eða Gleðigangan er annað dæmi um slíkan gjörning. Ég hef fylgst svolítið með undirbúningi Druslugöngunnar og lesið nokkra pistla sem fjalla um hana og ástæður hennar, í öllum þessum skrifum eru skilaboðin skýr, ofbeldi er ekki á ábyrgð þolenda um leið og hvatt er til þess að samfélagið sameinist um að koma í veg fyrir ofbeldi og þá margslungnu þjáningu sem því fylgir.
Ég er einmitt í þannig starfi að ég er aftur og aftur minnt á það hvað ofbeldi af öllu tagi, andlegt, líkamlegt og kynferðislegt hefur víðtæk áhrif á líf þolenda ekki bara stuttu eftir að það á sér stað heldur til framtíðar, hvernig það getur algjörlega breytt lífskúrsinum, haft áhrif á framtíðar ástarsambönd og hjónabönd, barnauppeldi, líkamlega heilsu að ég tali nú ekki um andlega og jafnvel reynst fyrirstaða þess að draumar rætist. Ofbeldisreynsla sem ekki fær áheyrn hegðar sér eins og raki í húsi sem breytist í myglusvepp af því að það er ekki hægt að opna neina glugga, það er bannað að lofta út. Þegar myglusveppur er kominn í hús fer hann í húsgögn og aðra innanstokksmuni þar til að ekki er lengur hægt að búa í húsinu. Þess vegna er lífsnauðsynlegt að taka mark á orðum þolenda, ég segi lífsnauðsynlegt vegna þess að það að verða fyrir obeldi getur ráðið úrslitum um framtíðina og allt sem hún færir manni. Mér finnst mjög erfitt að ætla fólki að vera alslæmt ég held að enginn fæðist vondur en ég held líka að enginn fari í gegnum lífið algóður, ég held líka að í grunninn langi alla til að vera ljóssins megin í tilverunni en hið vonda er til og hefur því miður keðjuverkandi áhrif.
Ég er mjög upptekin að því að leita leiða til að skilja hvers vegna fólk bregst við með því að meiða, skemma og særa. Núna er ég t.d. að hugsa hvers vegna fólk leggur ekki trúnað á reynslu þolenda eða reynir að varpa ábyrgðinni yfir á þá. Ég held að uppeldi hafi þar gríðarlega mikið að segja, ekki bara uppeldi foreldra heldur samfélagsins alls því ekkert barn er bara alið upp af foreldrum sínum. Þegar við skömmum börn höfum við tilhneigingu til að skamma þau þannig að þau sitji frekar eftir með skömm en lærdóm. Ég man sem dæmi þegar ég var unglingur í heimavistarskóla út á landi og skólastjórinn sótti mig í tíma til að segja mér að taka betur til í herberginu mínu af því að það var gjörsamlega á hvolfi. Hann hafði auðvitað fullan rétt á því að gera þessar kröfur til mín en í stað þess að segja bara „Hildur mín nú ætla ég að biðja þig að fara inn í herbergi og taka almennilega til, þar er allt í drasli“ sagði hann „farðu inn í herbergið þitt og taktu til og sýndu frá hvernig heimili þú kemur.“ Hvað sat eftir? Var það ábyrgðin á herberginu sem ég hafði að láni frá hinu opinbera? Eða ábyrgðin á því að verða foreldrum mínum ekki til skammar? Ég sat eftir með sektarkennd yfir því að hafa orðið foreldrum mínum til skammar, sá bara fyrir mér hvernig biskupskrossinn yrði klipptur af pabba og mamma hrakin út á galeiðuna. Þetta er aðeins eitt dæmi sem ég man en auðvitað hef ég sjálf gert viðlíka mistök í uppeldi sona minna og samfélagið og fjölmiðlar í hvaða formi sem þeir birtast eru einnig ábyrgir. Það er nefnilega enginn alsaklaus. Við erum leynt og ljóst að hræða fólk og fylla það sektarkennd með óraunhæfum viðmiðum sem eiga nánast að gera okkur eilíf „drekktu sítrónuvatn, þá færðu ekki hrukkur“ og þess vegna er það lærð hegðun að bera sektarkenndina áfram. Þegar við verðum hrædd þá spörkum við frá okkur, stundum meðvitað en oftast ómeðvitað.
Þegar fólk heyrir um einhvern sem greinst hefur með lungnakrabbamein sýnir það oftast samúð en spyr þó um leið hvort viðkomandi hafi reykt, svarið getur róað þann sem spyr af því að öll óttumst við að veikjast af krabbameini og þolum illa þá staðreynd að það fari ekki í manngreinarálit . Við getum öll veikst af krabbameini hvort sem við reykjum eða ekki og við getum öll orðið þolendur ofbeldis sama hversu vel við pössum okkur. Í tilefni Druslugöngunnar hvet ég okkur öll til að endurskoða viðbrögð okkar gagnvart hvert öðru í smáu sem stóru, æfum okkur að sýna samlíðan af því að samlíðan er farvegur þeirra lífgefandi gilda sem stuðla að farsæld og hamingju.

Published inPistlar