Þeir eru fáir sem mér finnst gott að þegja með, þó koma nokkur andlit upp í hugann, fólk sem hefur róandi áhrif á mig, já svona fólk sem virðist vita meira en við hin, það er gott að þegja með þannig manneskjum. Ég hef oft verið hvött til að sækja Kyrrðardaga í Skálholti enda hafa þeir notið mikilla vinsælda undanfarin ár og fjölmargir fundið þar sálarró, trú og frið. Ég hef hins vegar ekki enn treyst mér, ég er nefnilega svo hrædd um að þögnin verði vandræðaleg þannig að meðvirkni mín muni á endanum rústa því góða starfi sem hefur verið byggt upp á þessum helga stað og hvað ef ég fengi svo bara hláturskast? Einu aðstæðurnar sem ræna mig málgleði eru símtöl, ég er gjörsamlega fáránleg í síma, þeir sem hringja í mig byrja símtölin annað hvort á því að spyrja hvort eitthvað sé að eða hvort þeir séu að trufla, það er ekki alveg eðlilegt. Ég er reyndar með smá símafælni, mér finnst eitthvað svo erfitt að sjá ekki svipbrigði fólks þegar ég er að tala við það, þess vegna hljóma ég svolítið eins og þjónustufulltrúi í banka sem er ekki tilbúinn að hækka heimildina eða símsvari á heilsgæslustöð „ þú ert númer 18 í röðinni.“ Þess utan er ég mjög málgefin, samstarfsfólk mitt í kirkjunni segir að það sé nóg að ég fari bara í sumarfrí, þá geti hinir slakað á ( ég held samt að þau séu að ýkja).
Fyrir manneskju eins og mig er mjög mikil áskorun að ferðast um lönd þar sem almenn enskukunnátta er ekki sjálfsögð, ég get bjargað mér á skandinavísku og jafnvel á þýsku eftir þrjá bjóra en það yrðu samt ekki umræður um miðaldabókmenntir eða aðdragandann að falli kommúnismans heldur svona spjall um það hvað ég væri gömul og hvernig veðrið væri heima á Íslandi. Síðastliðinn mánuð hef ég ferðast um Frakkland og Spán, í Suður Frakklandi dvaldi ég meira en hálfan mánuð í litlu fjallaþorpi sem hét Viala og taldi um 150 íbúa, það er eins og hálf Grenivík. Í Viala hitti ég engan sem talaði ensku, þegar á leið komst ég að því að stundum þarf maður ekkert að tala. Kvöld eitt fórum við fjölskyldan út á veitingastaðinn í þorpinu og borðuðum þar bestu pizzur sem við höfðum nokkurn tíma smakkað, á minni pizzu var mikill laukur, eplabitar og sveppir úr heimabyggð sem brögðuðust eins og vel elduð rjúpa. Við létum ánægju okkur í ljós með ýmsum hljóðum og stökum alþjóðlegum orðum sem við bárum fram með frönskum hreim eins og við værum Peter Selles að leika Inspector Clouseau. Veitingahúsaeigandinn var alsæll með viðbrögðin, bauð okkur upp á drykk eftir matinn og settist svo sjálfur niður með sígarettu og bjór til að „spjalla“ það var spjall nærverunnar. Við brostum, nefndum staði í nágrenninu sem við höfðum heimsótt, hann þekkti heiti þeirra og við gáfum til kynna velþóknun okkar með handahreyfingum og svip. Svo þögðum við öll og sötruðum drykkina okkar og engisprettan sá um að leika undir í næsta runna.
Daginn eftir sóttum við messu í þorpinu, hún var auðvitað ekki textuð, en við nutum þess að hlýða á sálmana og horfa á myndræn andlit prestanna, tveir aldurhnignir kallar, löngu búnir að leysa lífsgátuna og hlæja að henni. Ég skildi reyndar eitt orð úr lestri guðspjallsins , það var orðið „donke“ sem þýðir væntanlega asni, ég veit ekki hvort þetta var tákn til mín frá Guði en ef svo er hefði hann eða hún þurft að segja mér nýrri fréttir. Það var reyndar mjög merkilegt fyrir mig að uppgötva í þessari messu að orðin skipta ekki öllu máli þegar komið er til kirkju og það sem meira er presturinn ekki heldur. Mér fannst athöfnin dásamleg þótt ég skildi ekki neitt nema atferlið og andrúmsloftið. Ég var þarna með fólki sem var ekki komið til að láta hossa sér heldur upplifa þá gjöf að tilheyra lífinu og hafa vettvang til að þakka fyrir það. Ég var þarna með fólki sem ég veit að hefur upplifað sömu tilfinningar og ég þó við tölum ekki sama tungumálið. Ég hef auðvitað ekki hugsað mér að hætta að prédika eða leggja minni vinnu í það sem ég segi á opinberum vettvangi og þaðan af síður ætla ég að reyna að vera leiðinleg en þessi reynsla var samt góð áminning um að fyrst kemur samfélagið og svo framlag einstaklingsins. Já kannski var Guð einmitt að ávarpa mig í guðspjallinu, þarna þegar ég skildi bara orðið asni.
Að kunna að þegja
Published inPistlar