Lesa meiraÞegar systir mín missti af Dallas "/> Skip to content

Þegar systir mín missti af Dallas

Þegar ég var að slíta barnsskónum heima í Laufási við Eyjafjörð voru veturnir oft  snjóþungir. Ég man daga þar sem við krakkarnir lékum okkur að því að hoppa  af bæjarburstinni ofan í dúnmjúka skafla sem umluku mann líkt og stórir skýjabólstrar. Ég man líka eftir tveggja metra snjógöngum frá íbúðarhúsinu okkar og upp heimreiðina þar sem Citroen bíllinn hans pabba var falinn undir fönn, bíllinn fannst eftir nokkra daga en þá hafði þakið sigið undan snjóþunganum. Á vetrum sem þessum fór rafmagnið stundum af bænum og þannig gat það verið í nokkra sólarhringa, þá voru jólin í mínu hjarta, rafmagnsleysið kallaði nefnilega á kyrrstöðu. Pabbi tók fram prímusinn og eldaði súpu og mamma fann til ullarteppi og leista svo okkur yrði ekki kalt, svo sátum við og spjölluðum. Stundum dró pabbi fram þjóðsögur Jóns Árnasonar og ef hann var í stuði las hann draugasögur með dularfullri röddu, þá skapaðist einhvers konar stemnings algleymi. Ég man aldrei eftir því að rafmagnsleysið ylli pirringi né vonbrigðum meðal fjölskyldumeðlima nema kannski þegar sýna átti lokaþáttinn af Dallas en þá þurfti Gerður systir smá áfallahjálp enda búin að horfa á alla þrjúþúsund þættina sem á undan komu og leið eins og hún hefði ekki fengið að kveðja hina fjölskylduna hinstu kveðju.

Ég sakna þess oft að vera ekki kyrrsett, mér finnst stundum eins og ég sé að missa af meginmáli lífsins, sé bara föst í formálanum, heimildaskránni eða neðanmálsgreinunum.

Alltaf þegar èg sit í bíl milli Akureyrar og Reykjavíkur og hef nákvæmlega ekkert betra að gera en að hlusta á útvarpið þá uppgötva èg hvað þar er mikið í boði af góðu og vönduðu efni.  Ég hlusta þá á Rás 1 eða 2 þar sem sagðar eru sögur sem ég myndi ekki heyra nema að vera föst í bíl á fimm tíma akstri ( fer eftir því hversu sýnileg Blönduós löggan er). Ég upplifi líka stundum þessa kyrrsetningu þegar ég er að þjóna í kirkjulegum athöfnum, þá líður mér svolítið eins og í rafmagnsleysinu heima í Laufási forðum þegar okkur fennti inni en einskis var að sakna, nema kannski lokaþáttarins af Dallas. Þá heyrir maður sögur af alls konar fólki í Biblíunni og speglar þær í sögu fólksins sem maður þjónar og svo eru þessar sögur tengdar saman með tónlist alveg eins og í útvarpinu og maður lærir eitthvað nýtt um sjálfan sig og aðra.

Ég held að dýpstu hamingjustundir lífs okkar séu oft þegar við erum kyrrsett. Ég held að óhamingja nútímamannsins sé m.a. fólgin í því að vera öllum stundum á stóra sviði lífsins með áhorfendur  í kring sem ýmist klappa eða púa eftir frammistöðu hans. Nú er ég ekki að meina að allt hafi verið best í gamla daga enda var það einfaldlega ekki þannig, heimurinn fer í raun batnandi á flestum sviðum mannlífsins, nema þeim sviðum sem snúa að flækjustigum og streitu. Tölvu og fjarskiptatækni er stórbrotin, hún gerir heiminn minni og opnar augu okkar fyrir aðstæðum fólks út um víða veröld, internetið getur reynst sjónauki í mannréttindamálum og samskiptamiðlar eru ekki bara dægradvöl heldur leið til að rjúfa félagslega einangrun. Mér hefur alltaf þótt Facebook og Twitter alveg frábær uppfinning.

Ég heyrði einu sinni af konu sem varð 100 ára, hún lést fyrir nokkrum árum og þegar presturinn var að taka niður æviatriði höfðu aðstandendur eftir gömlu konunni að einhver mesta bylting 20.aldar hefði verið þegar vaðstígvél leystu sauðskinnsskó af hólmi og Íslendingum hætti að vera  kalt.  Ég hugsa að Facebook sé svona vaðstígvél 21.aldar í félagslegu tilliti, þegar það kom til, hætti mörgum að vera kalt.

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þennan pistil er að nú er ég alveg að detta í sumarfrí og þar hef ég sett mér nýtt markmið, að upplifa það sem gerist við kyrrsetningu, án þess kannski að vera beinlínis neydd til að staldra við. Ég er að hugsa um að vinna í meginmáli lífsbókarinnar í þessu fríi og hlusta og horfa á sögurnar sem gerast í kringum mig. Þetta er engin bylting, bara smá núvitund eins og það heitir á nútímamáli. Góðar stundir.

Published inPistlar