Árið 2010 tóku ný hjúskaparlög gildi hér á landi sem höfðu m.a. þá mikilvægu breytingu í för með sér að bæði gagnkynja og samkynja pör gátu gengið í hjónaband innan íslensku þjóðkirkjunnar. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þessara breytinga sem voru að mínu mati sannkallað heillaskref fyrir íslenska þjóð ásamt því að vera sterk skilaboð til umheimsins. Hjónabandið er því fyrst og síðast sáttmáli tveggja jafningja sem elska og virða hvorn annan og heita því að standa saman í blíðu og stríðu, það er nefnilega svo merkilegt að uppgötva að við elskum fyrst með höfði og hjarta en ekki kynfærum okkar eins dásamleg og þau geta verið sem tjáningarform. Hið svokallaða samviskufrelsi presta til að hafna því að gefa saman samkynja pör í hjónaband eru því að mínu mati óásættanleg skilaboð til þjóðarinnar. Þá skiptir nákvæmlega engu máli hversu margir prestar eru líklegir til að nýta sér þessa undankomuleið. Ég geri mér grein fyrir því að í dag er sá hópur ekki stór innan íslensku prestastéttarinnar sem myndi hafna því að gefa saman samkynja pör í hjónaband, kannski eru þetta tveir prestart eða níu, ég veit það ekki. Það skiptir bara engu máli í þessu samhengi, það eru skilaboðin sem eru röng. Menn hafa svarað þessari skoðun minni m.a. með því að benda á að prestar hafi nú frelsi til að hafna ýmsu sem fólk biður um í kirkjulegum athöfnum og það er sannarlega rétt. Persónulega hef ég sett spurningamerki við hugmyndir sem fólk hefur komið með varðandi tónlist eða jafnvel eitthvert grín sem ég hef bent á að ætti betur við í veislunni á eftir athöfn. Vissulega er ég mjög opin fyrir nýjum hugmyndum en ef mér finnst þær ekki þjóna mikilvægum tilgangi og verða jafnvel til að draga úr helgi stundarinnar þá segi ég mína skoðun. Hins vegar kemur ekki oft til þess að ég þurfi að setja þessi mörk vegna þess að það vill svo skemmtilega til að meirihluti manna er með prýðilega dómgreind sem leiðir til farsællar niðurstöðu.
Við fæðumst ekki með ákveðinn smekk á tónlist eða helgihaldi og þess vegna er mjög eðlilegt að stundum komi til skoðanaskipta varðandi þau mál, hins vegar fæðumst við með okkar kynhneigð hvort sem það er gagnkynhneigð eða samkynhneigð og því er ómögulegt að ætla að rökræða við fólk um hvort heppilegt sé að gefa það saman í samkynja hjónaband. Þaðan af síður er réttlætanlegt að neita fólki um slíka þjónustu á grundvelli kynhneigðar, já eiginlega er það galið.
Íslenska þjóðkirkjan gefur saman samkynja pör. Í dag er það því eitt af hlutverkum prestanna og ef þeir geta ekki hugsað sér að verða við þeirri þjónustu þá er vissulega hægt að finna sér annan starfsvettvang. Við getum ekki haldið úti stofnun sem hugsar fyrst um að öllum prestum líði vel og síðan þjóðinni, sérstaklega þegar vellíðanin snýst um að lúffa fyrir ótta sínum og mismuna fólki um leið. Kirkjan er ekki eina stofnunin sem þarf að huga þessu líkt og dæmin ný og gömul sanna. Öll höfum við einhverja persónulega fordóma en þegar kemur að þjónustu okkar sem opinberir starfsmenn verðum við að vera yfir þá hafin. Sumir spyrja hvort samkynja pör myndu í alvörunni vilja þiggja þjónustu prests sem liði illa með að framkvæma tiltekna athöfn, nei auðvitað ekki en getum við alltaf vitað hvernig fólki líður þegar það þjónar okkar? Getur ekki verið að ég hafi notið góðrar þjónustu læknis sem hefur kannski hugsað meðan hann var að bæta lífsgæði mín hvurslags bullukollur ég væri í mínum skrifum? Svo tilbúið dæmi sé tekið. Ég get alls ekki fullyrt að allt það fólk sem hefur þjónað mér í gegnum tíðina, innan heilbrigðiskerfisins, á stofu út í bæ eða jafnvel á veitingahúsum hafi verið sammála öllu sem ég stend fyrir í lífinu. Ég er ekki svo barnaleg að halda að öllum líði vel í kringum mig en ansi yrði ég hissa ef einhver neitaði mér sjálfsagðri þjónustu bara af því að ég er sú sem ég er.
Íslenska þjóðkirkjan má vel vera pínu hallærisleg og hefðbundin, ég fyrirverð mig ekki fyrir það, það sem kirkjan má hins vegar alls ekki gera er að vanrækja þjóðina tilfinningalega.
Samviskufrelsi presta til að hafna því að framkvæma hjónavígslu samkynja para er á vissan hátt tilfinningaleg vanræksla af hendi kirkjunnar, þetta eru skilaboð til samkynhneigðs fólks um að það sé enn á jaðrinum og þess vegna geti kirkjan ekki skikkað presta til að vígja það í hjónaband. Já þetta er jaðarsetning , jafnvel þó langstærstur hluti prestastéttarinnar vilji með glöðu geði veita þessa þjónustu og geri það fallega. Hlutverk kirkjunnar er að hlusta eftir og taka mark á tilfinningalífi þjóðarinnar , kirkjan má ekki ganga fram eins og einhver krónprinsessa sem veit að staða hennar er svo sterk og hefðum prýdd að hún sé ósnertanleg.
Ég held raunar að ein aðalástæðan fyrir úrsögnum úr þjóðkirkjunni sé sú að þjóðin hefur upplifað þessa tilfinningalegu vanrækslu, skilgreint hana eins og fullorðinn einstaklingur sem hefur tekið út þroska og neitar að láta segja sér hvernig honum á að líða. Að þessu sögðu er mikilvægt að taka það fram að þegar ég tala um kirkjuna í þessu samhengi þá er ég að tala um hina opinberu birtingarmynd hennar en ekki það sem gerist í hverjum og einum söfnuði. Víða um land fer fram stórkostlegt starf innan safnaða þar sem fólki á öllum aldri er mætt af miklum kærleika og fagmennsku. Því má aldrei gleyma og þess vegna er kirkjan einmitt svo mikilvæg.
Ég held að ef kirkjan hefði ekki vanrækt þjóðina tilfinningalega með því að mæta henni eins og einhver krónprinsessa í stað þess að hlusta og meðtaka og hafa skoðanir á því sem skiptir máli af því að það er það sem kirkjan á að gera, hafa skoðanir á öllum fjandanum, verkföllum , kvótakerfinu, umhverfismálum, skapabarmaaðgerðum, þróunaraðstoð, innflytjendamálum, forsetakjöri, þingkosningum. Ef kirkjan væri þarna stödd og talaði inn í þessar aðstæður með mannskilning og réttlætisboðskap Jesú að leiðarljósi þá þætti fólki t.d. bara allt í lagi að við gengjum hempuklædd til kirkju við upphaf prestastefnu. Ég er ekki einu sinni viss um að Svarthöfði myndi nenna að mæta. Fólki þætti þetta bara krúttlegt, þetta væri svona okkar prívat Árnastofnun og kannski myndu einhverjir sérvitringar út í bæ stofna költsíður um hempuklædda presta og áður en við vissum af væru krúttin í 101 farin að ganga í eftirlíkingum, hver veit? Það sem ég á við er að ef við eigum uppgerð samskipti við foreldra okkar og þá kirkjuna sem móður, skiptir litlu máli hverju hún klæðist. Ég er ekki að segja þetta af því að ég sé í uppreisn gagnvart kirkjunni minni heldur einmitt vegna þess að mig langar til að hún sé í jafningjasamskiptum við þjóðina. Mig langar til að kirkjan sé hugrakkasta stofnunin í landinu af því að ég veit að hún getur verið það.